sunnudagur, apríl 29, 2007

Ég man þegar ég var minni. Ég sat á stórum steini uppi í brekku undir fjalli. Það var sól og ég var svo ótrúlega sátt við að ég hafði fundið mold sem var akkúrat rétt samsett. Akkúrat nógu blaut og nógu þétt til að búa til kökur. Mér fannst ég vera svo ógurlega heppin að hafa fundið akkúrat þessa mold. Mér fannst moldin vera töframold og ég var eiginlega alveg viss um að álfarnir hefðu gefið mér hana.
Ég man að það var nýtt sumar. Þá var ég ekki í prófum.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég er komin með svo mikið ógeð af frumum og öllum þeirra líffærum, göngum, próteinum, himnum, boðberum, jónum og ......
*ríf í hár*

sunnudagur, apríl 22, 2007

Prófin nálgast.
Ég er loksin byrjuð að lesa fyrir próf. Að sjálfsögðu kemst ég heldur hægt yfir efnið en enn sem komið er er svo langt í próf að ég er nokkuð bjartsýn.
Helgin er búin að vera alveg ljómandi fín og skemmtileg.
Ég var í heimsókn áðan. Í heimsókninni var mér sagt að ástæðan fyrir ástmannsleysi mínu væri sú að ég væri ekki nógu oft varalituð í háhæluðum skóm heima hjá mér. Eins var mér ráðlaggt að fara út að skokka seinnipartinn. Maður veit víst aldrei hvenær stundin kemur og herra draumur bankar uppá með blóm og loforð uppá arminn.
Mér fannst þetta dáldið skemmtilegar ráðlegginar og tók þær mjög hátíðlega. Nú sit ég hér og læri, stífmáluð í kjól. Ég setti kubba undir inniskóna svo þeir virðist háhælaðir.
Enginn hefur bankað enn og kannski er mér óhætt að fara bara að þvo mér í framan.
Fliss.

sunnudagur, apríl 15, 2007




Að vera mamma er svo ótrúlega mikið allt. Gaman, fyndið, erfitt, rosalegt, kjánalegt, ábyrgðarfullt, þroskandi og .....
Í dag er það búið að vera fyndið. Stubburinn minn er svo fyndinn. Ég er búin að lesa fullt af svona "áður en ég varð mamma þá..." textum en nú verð ég að koma með einn frumsaminn.
Áður en ég varð mamma hafði ég aldrei sagt við neinn:"borðaðu bara seríosið uppúr gólfinu, það er alveg jafn-gott og hitt". :)
Þegar við komum heim áðan fór ég inní stofuálmuna á meðan barnið var að brasast eitthvað í andyrinu. Alltí einu fór ég að heyra eitthvað undarlegt hljóð koma frá baðherberginu. Ég stökk að sjálfsögðu af stað. Það hafði sem betur fer ekkert alvarlegt gerst, elsku englabossinn var bara að sulla í klósettinu.

laugardagur, apríl 07, 2007

Jámm.
Allt gengur sinn vanagang. Prófin nálgast á fáránlegum hraða og ég finn engan tíma. Þegar ég hef tíma þá er ég þreytt og vill hvíla mig en þegar ég hef ekki tíma þá ... já hef ég ekki tíma.
Ég kvíði fyrir mörgu og hressleikinn er ekkert að ganga frá mér. Allt of mikið af útgjöldum stefna mína leið. Einhvern vegin virðist það alltaf vera svona. Það kemur allt í bylgjum. Barnið verður veikt og stækkar á dónalegum hraða eða að fötin minnka og skemmst, sjónvarpið bilað, þarf að kaupa þetta og hitt og skuldir hækka og maður sekkur í botnalust fen. Til að geta þetta þarf að fá lánað, svo byrjar maður næsta mánuð á að borga, svo þarf maður að fá aftur lánað til að komast í gegnum þann mánuð.... og svo framvegis. Kannski er karmað að kenna mér að skilja orðið "fátækragildra".
Á ég virkilega að trúa því? Að núna er ég orðin ein af þessum einstæðu mæðrum sem ná ekki endum saman um hver mánaðarmót. Ég er tölfræðin í fréttunum.
Nei það getur ekki verið, það er ekki fátækt á Íslandi.

Æji óttaleg bölsýni er þetta. Þetta fer allt saman einhvern vegin og að öllum líkindum vel.
Ætlaði að koma með eitthvað voða skemmtilegt svona í lokin en það bara kemur ekki.
Læra.