laugardagur, desember 27, 2008

Sjæse hvað jólin eru næs. Ég er búin að gera endalaust mikið af engu. Borða eins og svín og gera ekkert. Barnið er algjörlega með mér í þessu, við hengslumst hérna um og bara höfum það almennt alveg sérlega dásamlegt.
Stúfur er öflugur að leika sér með nýja dótið og klæðir sig annað hvort í náttföt eða nýja fótboltagallann.
Jámm jólin er aldeilis dásamleg. Ekki skemmir fyrir að vera námsmaður á svona tímum og fá svona gott frí.
Ég slysaðist til að búa til konfekt áðan... það var ekki góð hugmynd og nú vona ég bara að það séu einhver takmörk fyrir því hvað maður getur fitnað mikið á einni viku.
Spurning um að troða sér í gallabuxurnar á morgun og vona og biðja að þær passi ennþá.
Ég fékk annars alveg stórkostlega ullarpeysu í jólagjöf. Hún er svo frábær að mig langar ægilega að vera í henni alltaf. Ef ég væri 3 ára þá mundi ég sofa í henni.
Vona að allir hinir hafi það svona ægilega fínt.
Hils Marta og lopapeysan.

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Þetta áhorf olli mér einum mesta kjánahrolli síðari tíma.




Ég ætti kannski að innleiða slökunarstund á les? Við gætum öll tekið dansinn saman í miðjunni .. eða bara ofan á borðum :)
Hils

fimmtudagur, nóvember 27, 2008


Ég er búin að eyða heilli viku í að gera verkefni. Ég er búin að nöldra mikið og hátt yfir því hvað það er leiðinlegt að gera þessi verkefni og að ég vilji miklu frekar eyða tímanum mínum dýrmæta í að læra undir próf. Próf sem nálgast á ógnarhraða og að sjálfsögðu, eins og vanalega, kann ég ekki neitt.
Í morgun skilaði ég umræddum verkefnum. Alltí einu finnst mér hljóma alveg hræðilegt að læra undir próf. Ég sit hér með bækur mér við hlið og kem mér ekki í að opna þær. Ég veit svo vel að þegar ég byrja þá fæ ég eitthvað í líkingu við taugaáfall.
Alltí einu finnst mér verkefnavinnan hljóma bara ljómandi skemmtilega. Gaman að leyta að heimildum og svona.. já ég er orðin klikkkuð.

En mikið ægilega verður huggulegt þegar það koma aðrir tímar og ég hef tíma til að hitta fólk á öðrum tímum en seinnipartinn þegar allt er að fara til fjandans. Kannski ég nýti tímann og hitti fólk sem býr ekki í þessu húsi. Ekki það að vinir mínir hér eru með því betra sem gerist.

Í gær rankaði ég við mér með fingurnar í eyrunum á meðan englabossin öskraði úr sér lifur og lungu. Hann bað mig um að binda hnút á blöðruna og þegar ég var búin að binda hnútinn skipti hann um skoðun - hann vildi s.s. ekki hafa hnút.
Mér fannst besta hugmyndin að þegja bara á meðan hann lét eins og ég hefði rústað ævistarfinu með einni athöfn.
Stundum, ok dálítið oft, langar mig að fara inn á bað, setja í mig eyrnatappa og loka. Gefa bara skít í þetta. Jákvæði punkturinn er þó að þetta er bara tímabil og tímabil hafa sem betur fer þann eiginleika að þau taka enda.
Jæja.. Tölfræðin bíður öll spennt og ég sé á bókinni að hún er að verða óþolinmóð.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Þetta fann ég á barnalandinu góða einhvern tíma í fyrra og bloggaði um það þá, verð að gera það aftur.

"Hello i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray :) I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007. One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003. Are something wrong this toy or????? What can I do?? Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better???? "

Þýðing frá barnalandskonum:
"Halló,Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????"

Kannski er ég með svona slakan húmor en ég er enn að hlæja, ári seinna.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Þeir skilja sem skilja.
Eitt lítið 30 sekúnda myndband og eftir sat hálf klökkur maður hinum megin. Ég var alveg steinhissa. What!???
Síðan hefur verið hálfgerður hvirfilbylur. Vann ég í lottó? Er kannski verið að segja mér að ég hafi unnið í lottó en þegar ég ætla að sækja peningana þá kemur í ljós að þetta var bara alltí plati rassagati?
Það fer allt í hringi. Ekki samt endilega á slæman hátt. Núna þarf ég samt að hugsa þetta upp á nýtt. Ég hélt að ég þyrfti ekki að hugsa um neitt þessu líkt næstu 10 árin. Þetta er allt saman svo frábært en samt svo ótrúlega skrýtið.
Líka svo ótrúlega stressandi. Hvað ef það bara fellur allt í sama farið? Það væri sko aldeilis ekkert gaman. Alveg bara ekkert gaman. En kannski gerist það samt. Ég stjórna því víst ekki. Maðurinn með derhúfuna stjórnar því. Ég er búin að leggja mitt á borðið og reyna eins og best ég kann að útskýra hvað ég meina. Vona bara að það skiljist yfir hafið.
Vona bara að mannfjandinn taki orði mín til greina og vandi sig. Mannfjandinn er alls ekki sagt af biturð.
Marta

föstudagur, október 24, 2008



Ég verð stundum hreinlega hrædd við það hvað ég er orðin mjúk manneskja og meyr eftir að barnið kom til sögunnar. Er algjörlega búin að týna harðajaxlinum einhvers staðar á leiðinni.
Ég hélt í alvöru að ég meyrleikinn sem fylgdi óléttunni mundi minnka þegar hún væri yfirstaðin. Mikill misskilningur þar á ferð. Þetta ástand eykst bara ....
Um daginn hringdi vinkona min í mig næstum þvi æpandi og gólandi af geðshræringu.
"Marta! krakkinn var að hætta á leikskólanum og ég var næstum því farin að grenja!!!! Hvað er eiginlega að mér???"
Hef átt svipaðar samræður við aðrar mömmu vinkonur. Þetta jaðrar alveg við að vera fáránlegt, eða er hreinlega fáránlegt. T.d. finnst mér alveg agalega erfitt að mæta á skemmtanir í leikskólanum. Þar eru allir svo krúttlegir og foreldranir svo miklar dúllur að mig langar bara til að taka upp vasaklútinn og taka eitt gott grenj!
Stundum væri hreinlega ágætt að eiga smá eftir af harðjaxlinum.

Allavega, að öðru, eða svona næstum því. Þessi tveir litlu strákar eru svo heppnir að eiga hvorn annan. Þeir eru svo yndislegir vinir og hafa verið það svo lengi sem þeir muna. Það er algjörlega ómetanlegt.

miðvikudagur, október 15, 2008

Börn eru stundum svo miklir lúðar að það bara gengur ekki upp.
Í dag kom barn í heimsókn til mín. Ég og mamman ákváðum að deila saman kvöldmat. Svo eru flestir búnir að borða, mömmur sátu og spjölluðu og annað barnið hvarf inní herbergi að leika, eða það héldum við.
Eitthvað var nú undarlega hljótt inní herbergi. Móðir fór og athugaði málið. Ekki var það nú sérlega heillandi sjón sem mætti hennni. Litli undursamlegi englabossin var búin að hafa svona líka huggulega formaðar HÆGÐIR (já ég verð að nota hjúkkumál þarna) í gluggakistuna inní herbergi!!!!! Ekki nóg með það heldur hafði barnið dundað sér við að maka þessum ilmandi afurðum sérlega lystilega um alla gluggakistuna.
Mjög listrænt allt saman eða svo fannst örugglega barninu.
Hvernig dettur þeim þetta í hug????

fimmtudagur, október 02, 2008

Ég sat í gömlum strætó, svona með mjórri hurð að aftan. Strætóinn beygði eins og enginn væri morgundagurinn og fauskurinn frammí rétt svo stoppaði til að hleypa farþegum inn/út og brunaði svo aftur af stað. Ekkert að hinkra á meðan fólk fékk sér sæti enda algjör óþarfi, bara góð jafnvægisæfing fyrir mig og minn 3 ára. Hann hlustaði á "kátir voru karlar" á hæsta styrk í útvarpinu. Alltí einu fannst mér brakið og brestirnir í strætó, tónlistinn, hraðinn á vagninum, lyktin og fúli karlinn frammí vera svo óskaplega íslenskt. Það vantaði bara fyllibyttuna.
Hils Marta

föstudagur, september 26, 2008

Fékk þá skyndihugdettu að leita að seríu 4 af Gray's á netinu og ath hvort ekki væri hægt að horfa á hana... Guð minn góður hvað það var slæm hugmynd.
Ég er næstum því hrædd við hvað mér finnst þetta skemmtilegt. Ég fæ kitl í magann og flissa uppúr þurru.. það er klárlega ekki eðlileg hegðun yfir sjónvarpsþætti.
Ó svo skemmtilegt.

samt pínu pirrandi þegar ég sé þau gera eitthvað sem er algjör steik.

miðvikudagur, september 24, 2008

Jæja best að lífga uppá þetta blogg með einhverju skárra en bitri skólafærslu. Verst að ég hef eiginlega ekkert um að tala nema skólann. Núna er ég að gera aðferðafræðiverkefni. Ég get svo svarið að ég heyrði meinlokuna skellast aftur þegar ég byrjaði að lesa.
En nú er eitthvað að gerast.
Ég brunaði til Ísafjarðar um helgina ásamt barni og hluta af systkinum. Tilefnið var að bera augum hana litlu Irmu Karítas og ég varð alveg alls ekki fyrir vonbrigðum. Það var ægilega gaman að sjá hana og fjölskylduna alla í Tangagötunni, eða var það Smiðjugata?
Í dag gerðist ég svo ofur sparnaðarkona þegar ég sótti barnið á leikskóla, skelltí því hjólakerruna og hjólaði í Bónus! Fannst ég ægilega kreppu- og umhverfisvæn. Er ekki frá því að ég hafi skorað nokkur auka prik hjá sjálfri mér þegar það fór að rigna og ég var akkúrat hjóla upp brekku á móti vindi. Mér finnst ég vera algjör harðjaxl :)
Bæjó Marta.

miðvikudagur, september 17, 2008

Skólinn minn er mjög skemmtilegur og oftast er ég að læra eitthvað áhugavert. Það er samt ekki alltaf skemmtilegt. Undanfarið hafa hrannast upp hlutir sem fara verulega í taugarnar á mér. Í þeirri von að ég hætti að tuða um þetta á hverjum degi þá ætla ég að hleypa út smá tuðsprengingu hér og nú.
Mér finnst alveg fáránlegt að fólk eigi að byrja í verknámi í næstu viku og það er ekki enn komið inn á Ugluna hvernig raðast niður á deildir. Það veldur því að fólk hefur engan tíma til að kynna sér þá deild sem um ræðir og kemur verr undirbúið í verknámið.
Skóli á kvöldin. Það verður ein vika á þessari önn þar sem ég þarf að mæta í skólann frá 17-18:45, hvað er það????!!!! Ég er í dagskóla, ekki kvöldskóla. Ég á barn sem þarf að sinna en því óviðkomandi þá ætlast ég til þess að tímasókn í skólanum fari fram á dagvinnutíma. Mér finnst bara alveg útí hött að það sé kennt eftir kl 17. Ég veit að þetta eru bara 5 dagar en mér er alveg sama. Það eru 5 dagar sem þarf að redda pössun í 2 tíma á dag. Ég er á námslánum og fæ ekki borgað aukalega fyrir að mæta á einhverjum fáránlegum tímum í skólann og borga einhverjum fyrir að passa barnið.
Svo eru það heimapróf. Það eru 4 heimapróf yfir önnina í einu námskeiðinu. 1 er búið og var bara á eðlilegum tíma. 2 verða sett á netið kl 14 og verða til 23:59 sama dag og það 1 verður sett á netið kl 16 og þarf að skila því inn fyrir kl 02 um nóttina. 02!!!! Síðan hvenær er bara í lagi að ætlast til þess að fólk nýti tímann eftir miðnætti til að vera í prófi? Mér finnst líka asnalegt að prófið komi ekki inn á ugluna fyrr en kl 16 (finnst reyndar kl 14 líka vera of seint), mér finnst að prófið eigi að vera fólki aðgengilegt á dagvinnutíma.
Síðast en ekki síst. Ég verð náttúrulega í verknámi. Verknámið er 4-5 8 tíma vaktir á viku og varir í 4 vikur. Ætlast er til að ein vakt á viku sé kvöld eða helgarvakt. Já frábært! Mætum á munalatíps kl 8 á sunnudagsmorgni þegar lítið/ekkert er um að vera, bara svona til að sjá hvernig deildin virkar á þeim tíma.
Eins gott að fara á kvöldvakt til að læra að taka til kvöldlyf. Jú jú það er alveg gott að mæta á kvöldvaktir líka til að sjá hvernig allt fer fram þá en common 1x í viku!
Í fyrra spurði ég hvort þetta væri í alvöru alveg nauðsynlegt og þá var mér sagt að ég væri nú að öllum líkindum að fara að vinna vaktavinnu í framtíðinni og það væri nú gott að finna hvernig þetta er í raun og veru.
Til að forðast misskilning þá er gott að hafa á hreinu að fyrir þetta fáum við alls engin laun. Ætli það sé ekki verið að hita mann upp fyrir næstu 40 árin í vinnu hjá rikisstofnum þar sem stundaður er stanslaus niðurskurður.
Kannski finnst fólki þetta vera alltí lagi, ég er jú í skóla og oft mikið að gera og allt það. En ég vil stjórna mínum kvöldum og seinnipörtum sjálf. Ég er í dagskóla og ég vil að tímasókn sé á tímabilinu frá 8-17 virka daga, ekki á öllum tímum sólarhrings. Mér finnst þetta fáránlegt því þetta kemur illa við mig þar sem ég er einstætt foreldri en fólk þarf ekki að vera í minni stöðu í lífinu til að vera í vandræðum með að nýta kvöld/seinnipart í próftöku, launalausar kvöldvaktir og tímasókn.
Þetta var nöldur dagsins í boði Mörtu sem í kvöld er bitur háskólanemi.

sunnudagur, september 14, 2008

Ég er ekki moggabloggari og blogga sjaldan eða aldrei um eitthvað sem er í fréttum en ég bara get ekki orða bundist.
Ég stend með ljósmæðrum og dáist að þeim fyrir að láta sér ekki segjast. Mér finnst alveg fáránlegt hvernig komið er fram við þær í þessari kjarabaráttu.
Áfram ljósmæður

miðvikudagur, september 03, 2008

nú jæja...
Mig langar svo ógurlega út að hitta nýtt fólk. Mig langar alveg ægilega mikið að góna á huggulega karlmenn og bara sitja einhvers staðar og hitta fólk, sjá fólk sem ég hef ekki séð lengi og bara eitthvað svona mingla.
Það glataða er samt að það er svo langt síðan ég hef farið eitthvað út að ég veit ekki hvar ég á að byrja og hvað ég á að fara að gera. Stundum er alveg dálítið leiðinlegt og erfitt að vera alltaf alveg bundin föst við Eggertsgötu 10. Mig langar að skella mér spontant á kaffihús eða tónleika sem ég les um í blaði.
Bara svona hey þarna er eitthvað skemmtilegt, ætti ég að kíkja?
Hvernig á þetta eiginlega að geta gengið upp ef ég fer aldrei út?

Svo er það hinn endinn, dálítið mússí en sannur engu að síður.
Stundum, mjög oft, hitnar mér að innan yfir því hvað ég á góðar vinkonur og hvað ég er búin að kynnast mörgum góðum stelpum/konum á síðustu árum.
Þið allar sem borðið með mér og eruð samferða í Bónus. Þið sem komið í kaffi á kvöldin eða bjóðið okkur í morgunkaffi um helgar. Þið sem eruð alltaf tilbúnar að hjálpa mér að lifa lífinu. Þið sem tuðið með mér yfir barni eða börnum. Þið sem skiljið svo vel og leyfið mér alltaf að nöldra, þó það sé bara innantómt nöldur. Þið sem komið með í ferðalög og sund. Þið sem talið endalaust við mig í símann og bara þið sem sýnið mér, og okkur, svo oft hvað ykkur þykir vænt um okkur.
Þið eruð alveg bestar, allar með tölu :)

þriðjudagur, ágúst 26, 2008




Í dag er litli strákurinn minn 3 ára. Þegar ég hugsa um þessi 3 ár þá koma skrilljón lýsingarorð upp í hugann. Fyrst og fremst hefur þetta verið ævintýri. Ævintýri sem ég vona að sé ennþá bara rétt að byrja.

sunnudagur, ágúst 24, 2008



Ég er konan sem situr og ein á lesstofu í stresskasti fyrir komandi sumarpróf. Finnst ég kunna helling eina mínútuna en þá næstu kann ég ekkert.
Kunni helling áðan þegar ég fór yfir gamalt próf. Fór síðan yfir annað gamalt próf og kunni skyndilega ekkert. Vona að prófið á morgun verði próf sem ég kann helling í.
Jámm þannig er nú það.
Annars er nóg annað við að vera. Sonur verður 3 ára á þriðjudaginn og haldnar verða veislur af því tilefni, dögum saman jafnvel.
Mig er búið að langa að blogga einstæðru, fátækra vælublogg í dálítinn tíma, kannski kemur það bráðum. Kannski ekki vælublogg, meira svona "staðreynda svona er lífið blogg".

Að öðru....
Ég þekki einn sænskan rauðhærðan ungann mann sem er alveg stórkostlegur. Alltaf þegar hann kemur eitthvert þá kemur einhver undarlega heilagur blær með honum, eða meira svona vellíðunar dásemd. Um daginn lenti ég svo í undarlegu atviki þegar ég hitti háaldraðan mann, næstum því 100 ára, og hann bara með sér sama anda. Það var alveg ótrúlega skrýtið. Þessir menn eru af alveg sitthvorum meiði í tilverunni en eiga einhverja ótrúlega góða nærveru sameiginlega. Ég væri alveg til í að þekkja fleiri svona.

Þannig var nú það. Farin heim að sofa með bókina undir koddanum og vakna snemma í fyrramálið.

miðvikudagur, júlí 30, 2008


Ísafjörður.

Mikið óskaplega var gott að koma vestur. Verst að mig langar bara strax aftur. Svei mér þá hvað þetta var mikil dásemd. Samt gerði ég voða lítið, ég bara var.
Ég reyndar heimsótti fólk, fór í göngutúra og hugsaði um fólkið sem ég sakna og hitti fólkið sem ég get hitt og þarf ekki að sakna.
Það er svo langt síðan ég hef farið vestur bara í rólegheit og milljón ár síðan ég hef komið um sumar. Það er svo fáránlegt hvað hver einasti staður á sér sögu í mínum haus. Þarna er kirkjugarðurinn sem ég var svo hrædd við, túnið sem ég renndi mér niður á veturnar, steinninn sem ég drullumallaði á, rólóinn sem ég lék mér á, bryggjan sem ég málaði einu sinni, bakaríið með bestu kringlunum og bara allt allt allt sem mér finnst vera heim.
Það var gaman að labba um og hugsa um hvernig allt var. Skrýtið að labba fram hjá Hlíðarvegi 8 og eiga ekkert tilkall. Ég góndi eins og geðsjúk manneskja á húsið. Húsið var breytt. En veggurinn fyrir ofan ruslatunnuna er ennþá, snúran þar sem afi hengdi svartfuglana á eru ennþá og ég sá rabbabara og tré í garðinum.
Í smástund langaði mig 15 ár (vá mörg ár) aftur í tímann og fá hádegismat hjá ömmu. Labba heim Hlíðarvegin og finna lyktina.
Ég skoðaði líka skúrinn sem við lékum okkur stundum uppá, hann er lítill og samvaxin bílskúrum. Þegar ég var lítll var hann stór og þurfti stiga til að komast upp. Núna er hann pínulítill en það er enn stigi, greinilegt að í sumum hugum er hann enn stór.
Hjörtur henti steinum í sjóinn, sá skip og lék við hund og kött. Hann fékk meira að segja að fara á hestbak.

Þetta var bara eitthvað svo gott og yndislegt að koma. Við gistum á góðum stað hjá góðu fólki og allt var frábært.
Það var frábært að grilla banana og borða úti. Frábært að horfa á barn og hund leika. Frábært að sitja og drekka kaffi. Meira að segja fannst mér frábært að keyra Óshlíðina.

Takk fyrir okkur.

sunnudagur, júlí 20, 2008

Í dag fór ég út á bílastæði og ætlaði að finna bílinn minn og aka af stað. En viti menn, þar sem ég þóttist hafa lagt bílnum var enginn bíll. Mér brá nú dálítið og skimaði í kringum mig og hugsaði hvort ég hefði nokkuð lagt bílnum hinum megin við garðana, ég legg svona sitt á hvað. Nei í þetta skiptið var ég handviss um að hann ætti að vera Suðurgötumegin.
Ég skimaði í kringum mig og sá bílinn þá á undarlegum stað á hinum enda bílastæðisins. Á stað þar sem ég hef aldrei nokkurn tíma lagt.
Ég tók í alvöru á sprett og skoðaði bílinn vel, jú þetta var minn bíll, alveg eins útlítandi og hann var síðast þegar ég sá hann. Ég settist inn og þar fann ég lykla sem einhver hafði líklegast gleymt á milli sætanna. Tyggjópakki lá í sætinu. En að öðru leyti leit bíllinn út alveg eins og ég hafði skilið við hann.
Dálítið skrýtið...
En ég reyndi að starta bílnum sem gekk dálítið brösulega en svo rauk hann í gang og var bara hinn ljúfasti.
Seinna um daginn fór ég og talaði við starfsmann í lobbýinu á hótelinu sem er þarna. Þegar ég sagði frá bílnum mínum þá var mér sagt að hann þegar lobbýkonan hafði komið í vinnuna um morguninn hafði hún séð bílinn minn kyrrstæðan og mannlausan út á miðri Suðurgötu! Hún hafði einmitt hugsað að hún þyrfti að hringja og láta fjarlæga hann en svo gleymt því.
Lyklarnir sem voru í bílnum gengu ekki að görðunum svo þetta var líklega ekki óprúttin garðabúi í bílaleit.
Lobbýdaman var samt svo indæl að hún bauðst til að spurja næturvörðinn og láta hann hringja í mig ef hann hefði séð eitthvað.
Hann hringdi svo áðan og sagðist hafa heyrt læti í bíl í nótt og séð einhvern gaur í bílnum mínum að reyna að starta honum. Það gekk eitthvað illa en hann spáði ekkert frekar í þessu, bjóst bara við að hann ætti bílinn. Svo þegar hann var á leið heim úr vinnunni sá hann stóran lögreglubíl við bílinn minn þar sem hann stóð á Suðurgötunni, og amk einn lögreglumann inní bílnum og honum sýndist hann vera að gramsa eitthvað.
Núna er ég að andast úr forvitni!
Hvað var bíllinn minn eiginlega að gera í nótt? Hvað varð um gaurinn sem reyndi að stela honum? Af hverju í fjáranum lét löggan mig ekki vita og af hverju voru lyklarnir skildir eftir í bílnum?
Þess má geta að það var búið að bakka bílnum mjög snyrtilega í stæðið þegar ég fann hann í morgun.

Og hóst... kannski vandræðalegasti partur sögunnar, bíllinn var ólæstur.

mánudagur, júlí 14, 2008




Einu sinni var ég konan sem gleymdi öllu útum allt. Svo breyttist margt og ég taldi mig hafa losað mig við það sem lét mig gleyma öllu mögulegu.
Stundum koma stundir sem segja mér skýrt og greinilega að ég mun alltaf vera konan sem gleymir hlutum.
Um helgina gleymdi ég hlutum á hinum ýmsu stöðum. Fór í Vogafjós, ætlaði í kaffi en hætti við og ætlaði að fara að bruna burt þegar ég mundi skyndilega að veskið hékk inni á stólbaki.
Ég fór í Strax og verslaði bensínkort fyrir 5þúsund. Það hnussaði dálítið í Þuríði þegar ég snarsneri við á planinu í Reynihlíð. Þá mundi ég skyndilega að ég hafði skilið bensínkortið eftir í glugganum í Strax, undir klístraðri servíettu.
Undir lok ferðarinnar fórum við sonur í gönguferð uppá Hverfjall. Það var voða gaman, ég bar barnið á bakinu hálfa leið en svo labbaði hann sjálfur upp. Uppá fjalli voru teknar myndir og útsýnið skoðað. Svo hlupum við skríkjandi niður, duttum oft og skemmtum okkur vel.
Loksins þegar við vorum komin alveg niður þá mundi ég hvar ég sá gleraugun síðast. Það var þegar ég tók þau af til að sitja fyrir á mynd, ég lagði þau í mölina efst uppi, rétt hægra megin við stígin þar sem maður kemur upp.
Það þarf kannski ekki að taka það fram að ég sneri ekki við. Ef einhver á leið um Hverfjall á næstunni þá á ég þessi gleraugu.

Annars var helgin alveg dásamleg í góðum félagsskap. Ekki var verra að keyra heim um hánótt og láta lesa fyrir sig á meðan. Takk Þuríður fyrir dásamlegt ferðalag.
Hvar er eiginlega þessi fugl?


Hils Marta

P.s. Gleraugun voru ekki mjög verðmæt, ég fékk þau gefins, hálfónýt eftir að eigandin hafði fengið sér ný. Ég nota ekki gleraugu að staðaldri en ætti í raun að eiga ein. Ég hafði þau með því það er skemmtilegra að sjá þetta dásamlega útsýni skýrt. Mér fannst sagan betri án þessara upplýsinga :) MJ

laugardagur, júlí 05, 2008

Barnið vaskar upp og ég hangi í tölvunni.
Stefnan er tekin á sund á eftir og svo skoða mannlífið á Akranesi. Við fögnuðum í gær þeim merka áfanga að vera komin í sumarfrí.
4 vikur þangað til hversdagurinn tekur við á ný. Margt og mikið planað, ætla að reyna að þeysast landið þvert og endilangt og sýna mig og sjá aðra. Mývatn og Ísafjörður.
Reyndar er sumarpróf í lok ágúst og það verður víst að nýta einhvern tíma í að læra undir það, en það er alltí lagi. Ég er nú að læra eitthvað sem ég hef áhuga á svo það hlýtur að vera hægt að gera það skemmtilegt. Það er bara svo fáránlega erfitt að byrja...

Annars er það sem af er sumri búið að vera dásemd. Stundum dáldið erfitt að vera í fullri vinnu og hafa alltaf brjálað að gera. Ég er konan sem sef heilu og hálfu kvöldin yfir sjónvarpinu.

Í vinnunni um daginn fékk ég hressandi hrós þegar mér var tjáð hvað ég hefði falleg handarabök!! Handarbök!!

Hils

sunnudagur, júní 22, 2008

Helgin í myndum og pínu máli.




































Þetta var með því betra. Sól, rigning, tjald, veiði, grill, sund og fleira skemmtilegt.
Ég hjarta sumar.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Dásemdarmorgun.
Alveg var ég búin að gleyma því hvað það er yndislega ljómandi að sitja ein á svölum. Mér finnst líka gaman að hlusta á flugvélarnar og vindinn og verða heitt í framan af sólinni.
Bókin er að verða búin en ekkert sem bíður mín annað en önnur skemmtileg bók.
Stundum er alveg best að vera ein í fríi á virkum degi.
Sólgleraugu kæmu sér samt alveg vel.

Viðbót: Hvernig er hægt að vera með sólarvarnarbrúsann á lofti hálfan daginn og gleyma að bera á bringuna, mesta hættusvæðið?

Ég held að þvottavélin sé að gefa upp öndina. Engin brjóstahaldaraspöng í henni núna en hún jarmar samt.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Árið 1990 var ég að verða 11 ára og Stjórnin var uppáhalds hljómsveitin mín. Sigga og Grétar rústuðu júróvisjón. Eða svona... hverjum var ekki sama um þessar 3 þjóðir sem voru fyrir ofan þau?
Ég og vinkona mín fréttum að stjórnin væri á leið til Ísafjarðar og að það hefði verið haldin júróvisjón danskeppni á barnaballinu. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og rukum heim til ömmu þar sem upptöku af júróvisjón var skellt í videotækið og hafnar strangar æfingar.
Við æfðum eins og sannir keppnismenn í heila viku eða þangað til við vorum búnar að ná öllum hreyfingunum fullkomnlega. Að eigin áliti að sjálfsögðu.
Ég var Sigga og hún var Grétar, við vorum í eins peysum og næstum því eins buxum. Okkur fannst við mega töff. Stjórnin var líka svalasta fólkið, og við gátum dansað eins og þau.
Engir aðrir voru búnir að æfa sig svo við rústuðum keppninni og fengum að launum áritaða plötu með stjórninni

laugardagur, maí 03, 2008

Samkvæmt ónákvæmri talningu á sonur a.m.k. 25pör af sokkum. Í dag átti svo að búa barnið til pössunar og að sjálfsögðu senda með honum aukaföt. Eitthvað virtist sokkaskúffan tómleg svona við fyrstu sýn svo hafist var handa við að para saman sokka og leita að samstæðum hér og þar um íbúðina. Eftir mikla og nákvæma leit fundust 5 pör af sokkum og ca 10 stakir sokkar.
Hvernig getur þetta verið?
Þvottavélin okkar er hér innandyra og ég man ekki eftir tilfelli þar sem barnið hefur komið heim sokkalaust eða bara á einum sokk.

laugardagur, apríl 26, 2008




Fór á vorgleði vinnunar á miðvikudaginn. Át, drakk, söng, spjallaði og hló. Var úti lengi lengi, hitti fólk og hafði gaman.

Það er alveg magnað að vera í skóla en ekki í prófum eða verkefnaskilum núna. Eina lúxusvandamálið mitt núna er að ég át of mikið í kvöldmatnum og það er ekkert í sjónvarpinu nema hroðbjóður sem ég horfi ekki á og svo hroðbjóður sem ég er búin að sjá.
Bráðum fer lærdómur fyrir sumarpróf að hljóma eins og góð skemmtun. Fátt er svo með öllu illt....
Kannski verður þvottavélin bráðum búin. Þá get ég farið í ból, lesið bók og sofnað eftir 1bls.
Kerling?

sunnudagur, apríl 20, 2008

jámm ...
Var minnt á það um helgina hversu mikið hefur breyst.... það er svo langt langt langt í konuna sem var ég 2004. Það er stundum svo skrýtið finnst mér. Skrýtið hvað margt getur breyst á stuttum tíma eða svona þannig.
Líka skrýtið hvað þetta hefur verið rætt mikið á mismunandi vígstöðvum þessa helgi.
Eníhú...
Ég stefni ótrauð á að verða nýliðameistari í uppsetningu æðaleggja. Skoða allar nálar í gríð og erg og er manna fyrst að taka eftir því ef einhver sjúklingur hugsar um að viðkomandi leggur sé farin að pirra hann eða eitthvað annað sem gefur ástæðu til að setja upp nýjan.
Ég man hvað ég hlakkaði til að fá að gera þetta og nú er komið að því og mér finnst það alveg jafn fáránlega skemmtilegt og ég hélt, jafnvel skemmtilegra. Svo núna er ég týpíski hjúkrunarfræðineminn sem gónir á hendurnar á öllum og velti fyrir mér hvaða æð ég mundi nú nota ...
Þannig er nú það.

Svo er það hann þarna, ég var alveg búin að gleyma hvað mér finnst hann sætur.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Í dag sat ég á ónefndri kaffistofu og ræddi mikið um það hversu vel heppnað sölutrikk mjólkurneysla væri. Tjáði staðfasta skoðun mína á því að mjólk argasta óþarfi. Ræddi líka aðeins um óhollustu og hvað óhófleg sykurneysla væri nú ægileg.
Svo fór ég heim og eldaði grjónagraut með vanillusykri í kvöldmatinn, bragðbætti hann svo með góðum slatta af kanilsykri og rúsínum.
Á meðan ég var að elda stakk ég uppí mig nokkrum suðusúkkulaðibitum.
Það er nú aldeilis gott að lifa í svona góðu jafnvægi með allt sitt á hreinu.

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Mér finnst þessi tvö vera mestur dúllur í heimi. Hjörtur virðist reyndar semja lagið á staðnum. Hann skeytir þarna saman amk 3 öðrum lögum, en það er bara af því að hann er svo skapandi og listrænn ... ;)

laugardagur, mars 29, 2008


móðir og barn drepa tímann með því að leira úr dásamlegum heimatibúnum leir.
Mamman: en hvað þetta er fínt hjá þér, er þetta lítið barn?
Barn: nei þetta er fótbolti.

Gaman saman.

föstudagur, mars 28, 2008

Ég er yfirleitt svona morgunmanneskja. Vakna snemma og er fljót að vakna og allt það. Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur sofið langt fram eftir degi. Stundum hef ég meira að segja lagst svo lágt að gera grín að fólki sem sefur mikið og lengi.
En jæja... svo ákvað forsjónin að gera smá grín að mér, leyfa mér að finna hvernig það er að vera þreyttur á morgnanna. Eða svona því sem næst. Ég á barn sem getur ekki fyrir nokkurn mun vaknað snemma. Hann er úrillur og fúll og vill alltaf sofa meira. . Gengur meira að segja stundum svo langt að lemja mig og öskra "nei nei nei" þegar ég reyni, blíðlega að sjálfsögðu, að koma honum á fætur á morgnanna. Í dag svaf hann td til hádegis.
Það verður eitthvað skrautlegt þegar þetta barn verður unglingur og vill sofa ennþá meira.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Ég framkvæmdi mjög heimskulega athöfn í gær þegar ég skoðaði gamlar sumarmyndir úr sveitinni. Myndirnar voru voða fínar en ég var ekki sátt þegar ég leit næst í spegil.
Í dag er ég sem sagt bara búin að borða holla súpu og grófar sykurlausar bruður.
Barnið er veikt svo við höngsum bara. Búin að horfa á latabæ ca 8x og er orðin svo gegnsýrð að ég hafði ekki einu sinni rænu á að lækka á meðan barnið svaf í sófanum. Áfram Latibær!

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég hugsa stundum mikið og margt og allt fer í steik.

Þegar ég var lítil fannst mér voða gaman í sunnudagaskólanum. Ég gekk meira að segja svo langt að fara í marga mismunandi "sunnudagaskóla", í þjóðkirkjunni því amma fór með mig þangað, í kaþólsku kirkjunni því þar kunni presturinn að galdra og maður fékk hálsmen og í hjálpræðishernum því þar fékk maður að föndra svo mikið og Imma og Óskar voru svo skemmtileg.
Svo fæddist gullbarnið og ég lét skíra hann. Hugsaði í smátíma um það hvort ég vildi láta skíra hann eða ekki og komst að því að það væri mörgum í fjölskyldunni mikilvægt og mér að skaðlausu.
En jæja... sunnudagaskólinn. Um síðustu helgi ákvað ég að skella mér einu sinni þangað með barnið. Var alveg harðákveðin í fara. Svo fór að líða á laugardaginn og ég að hugsaði meira og meira um þetta. Sá fyrir mér prest að tóna, konu með gítar og sjálfa mig að syngja "jesús er besti vinur barnanna". Vissi fyrir víst að gulldrengurinn mundi ekki taka undir og ég hef ekkert brjálæðislega gaman að því að syngja fyrir framan annað fólk.
Svo fór ég að hugsa um síðustu skipti sem ég hef farið í messu. Mér finnst alveg rosalega skrýtið að fara í messu. Mér fer alltaf að líða eitthvað undarlega og mig langar að flissa. Ég hef meira að segja stundum fengið einhverja undarlega sértrúarsöfnuðs tilfinningu - sérstaklega þegar presturinn tónar. Allavega þá hef ég eytt þessum messum í að telja hvað það eru margir sálmar eftir og vanda mig við að flissa ekki.
Sem sagt, eftir því sem ég hugsaði meira um það þá fannst mér fáránlegri og fáránlegri pæling að fara í sunnudagaskólann að syngja lofsöngva til einhvers sem mér finnst líklegra að ég trúi ekki á. Það væri náttúrulega alveg fáránleg hræsni.
Ég fór sem sagt ekki og ætla ekki að fara í bráð. Einhvern vegin er ég afskaplega fegin að vera búin að fá einhvern botn í þetta.
Yfir og gleðilega páska.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008



Það er fátt betra en að koma glaður út úr prófi, sækja barnið og fara heim og eiga kósý stund saman. Reyna að bæta fyrir stressið og öll skiptin sem sagt var: elskan mín núna er mamma að læra...

Í dag borðuðum við Hjörtur bugles með púrrulaukssúpu-ídýfu og drukkum trópí og töluðum um Þuríði sem fór í stóru flugvélina, Hjörtur sagði mér líka að hún hefði komið og borðað hjá okkur áðan og að hún ætlar að koma aftur seinna.

mánudagur, febrúar 25, 2008



jamm og jæja.
Er í prófum núna. Stress og óþolinmæði einkenna allt saman. Samt pínu gaman líka, læra og læra. Ég hlakka til í maí þegar ég verð ekki í prófum. Illu er best aflokið.
Vandamálið núna er að ég þarf að lesa voða mikið fyrir miðvikudaginn en ég nenni því ekki og ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Eitthvað erfitt þegar ekki glærum er hent útum alla uglu. Einn, tveir og nú!

Barnið á heiðurinn af þessum hressandi myndum.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Væmið
Alltí einu rankaði ég við mér inní eldhúsi í stóra húsinu, með besta barninu og bróðurpartinum af systkinum mínum. Við vorum að dansa saman við "dont worry be happy" og ég fann hvað ég var í alvörunni alla leið hamingjusöm. Mér er ennþá heitt í maganum.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Yfirleitt þegar ég er í tíma þá glósa ég eins og vitlaus manneskja. Ég reyni að skrifa sem mest og les það svo eftir tímana.
Stundum er bara alls ekkert í vit í þessum glósum mínum. Hér koma dæmi frá því í morgun:

Mikilvægt lesa grein einhvers staðar.

Sýnir mynd af svani, belgur á því hann er blásin út hann er opinn (engin mynd fylgir með)

Hérna sjáum við – sjá á netinu hvað er verið að tala um.

Glæra með ónýt lungu

Astrúp - af hverju - því við erum svo skrýtin.

Krabbameinslæknar eru með aðferðir til að reyna að fá krabbameinið til að koma útúr beinunum.


Annars er allt með besta móti. Fann engan hatt til að éta en margt hefur breyst. Sjáum hvað setur. Eina áhyggjuefnið mitt þessa daganna er að hann hverfi jafn auðveldlega og hann birtist. Það væri nefnilega ekkert svo hressandi.


sunnudagur, janúar 27, 2008

Sem betur fer á ég ekki hatt því þá þyrfti ég nú aldeilis að éta hann.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Jaá.... Undanfarna daga hef ég fengið skrilljón hugmyndir af dásamlegum bloggum. Alveg ætlað að varpa út ógurlegum sannleiksdropum og reyna að bæta líf einhvers í leiðinni. Á meðan ég væri að þessu mundi ég finna lausn á öllum heimsins vandamálum og líf okkar yrði ekki samt.
Þegar kom að því að setja þennan sannleik á blað nennti ég því ekki. Ég nennti meira að hanga á barnalandi - jább ég les barnaland endalaust mikið. Ég nennti frekar að refresha mbl og lesa blogg hjá ókunnugum. Jább geri það líka. Les blogg hjá fólki sem ég þekki ekki neitt. Mér þykir meira að segja vænt um sumt fólk sem ég þekki ekki neitt og stundum er ég æsispennt yfir meðgöngum hjá konum sem ég þekki ekki neitt. Bíð spennt eftir fæðingu barns sem ég mun að öllum líkindum aldrei sjá.
Ég kalla barnið mitt stundum rúsínu - því barnið mitt er sætt eins og rúsína. Ég kalla hann líka stundum rúsínurass - þó það sé kannski ekkert fallegt við það, en ég kalla hann það því hann er barnið mitt og mér finnst það krúttlegt. Ég kalla hann stundum Jósafat Bingó því mér finnst það alveg ótrúlega fyndið - mér finnst Jósafat samt alveg stórkostlega ljótt nafn en þegar ég segi það við rúsínurassinn þá verður það fyndið og skemmtilegt og stundum alveg fáránlega lýsandi.

Jæja, einhvern vegin er þetta að þróast útí einhvers konar játningablogg. Ég vildi bara láta ykkur vita að þrátt fyrir endalaust fullkomnun mína þá er ég bara mannleg eins og þið hin - nema ég geri ekki mistök.
Það var eitthvað meira en ég man það ekki.
Grip

sunnudagur, janúar 06, 2008

Ég horfi á sjónvarp. Það má meira að segja segja að ég horfi nokkuð oft á sjónvarp. Þar af leiðandi horfi ég oft á auglýsingar. Spái svo sem ekkert sértaklega mikið í þeim en sumar auglýsingar fara meira í taugarnar á mér en aðrar.
Bílaauglýsingar eru eitthvað sem mér finnst vera alveg fáránlegt rugl. Af hverju er ástæða til að sýna bíl sem breytist í action mann þegar hann kemur í beygju eða kónguló þegar hann keyrir yfir sand?
Ég bara skil þetta ekki. Áðan sá ég bílaauglýsingu þar sem bíllinn virkaði eins og hjólabretti fyrir einhvern risa og snerist í marga hringi og hélt svo áfram að keyra. Mig langar alveg alls ekki í bíl sem snýst í marga hringi.
Mér finnst þetta bara svo ótrúlega fáránlega pæling. Kannski er ég bara of jarðbundin.
Ef ég byggi i bæ þar sem fallandi steinkúla væri alltaf næstum því búin að drepa mig, þá væri ég ekkert akandi um kát og glöð, ég væri ekkert þar.
Bílaauglýsingar eru mjög góð leið til að halda mér hamingjusamri, akandi um á gullfallega gelgjubílnum.

Annar handleggur.
Einkunnir! Ekkert sést, hvorki tangur né tetur. Það er ekkert gaman að bíða eftir fréttum endalaust. Ef ég verð einhvern tíma háskólakennari þá verður það til þess að komast að því hvernig maður getur verið svona lengi að skila inn einkunm. Þegar ég kemst að því þá skal ég útvarpa skýringu á veraldarvefinn. Þangað til verð ég bitra konan að bíða og röfla.

Í gær leyfði ég biturleikanum að valsa um og sendi bitur skilaboð útí heim. Alveg skal ég éta hattinn minn ef ég fæ einhvern tíma svar. Children someday?
Þannig var nú það