sunnudagur, júlí 20, 2008

Í dag fór ég út á bílastæði og ætlaði að finna bílinn minn og aka af stað. En viti menn, þar sem ég þóttist hafa lagt bílnum var enginn bíll. Mér brá nú dálítið og skimaði í kringum mig og hugsaði hvort ég hefði nokkuð lagt bílnum hinum megin við garðana, ég legg svona sitt á hvað. Nei í þetta skiptið var ég handviss um að hann ætti að vera Suðurgötumegin.
Ég skimaði í kringum mig og sá bílinn þá á undarlegum stað á hinum enda bílastæðisins. Á stað þar sem ég hef aldrei nokkurn tíma lagt.
Ég tók í alvöru á sprett og skoðaði bílinn vel, jú þetta var minn bíll, alveg eins útlítandi og hann var síðast þegar ég sá hann. Ég settist inn og þar fann ég lykla sem einhver hafði líklegast gleymt á milli sætanna. Tyggjópakki lá í sætinu. En að öðru leyti leit bíllinn út alveg eins og ég hafði skilið við hann.
Dálítið skrýtið...
En ég reyndi að starta bílnum sem gekk dálítið brösulega en svo rauk hann í gang og var bara hinn ljúfasti.
Seinna um daginn fór ég og talaði við starfsmann í lobbýinu á hótelinu sem er þarna. Þegar ég sagði frá bílnum mínum þá var mér sagt að hann þegar lobbýkonan hafði komið í vinnuna um morguninn hafði hún séð bílinn minn kyrrstæðan og mannlausan út á miðri Suðurgötu! Hún hafði einmitt hugsað að hún þyrfti að hringja og láta fjarlæga hann en svo gleymt því.
Lyklarnir sem voru í bílnum gengu ekki að görðunum svo þetta var líklega ekki óprúttin garðabúi í bílaleit.
Lobbýdaman var samt svo indæl að hún bauðst til að spurja næturvörðinn og láta hann hringja í mig ef hann hefði séð eitthvað.
Hann hringdi svo áðan og sagðist hafa heyrt læti í bíl í nótt og séð einhvern gaur í bílnum mínum að reyna að starta honum. Það gekk eitthvað illa en hann spáði ekkert frekar í þessu, bjóst bara við að hann ætti bílinn. Svo þegar hann var á leið heim úr vinnunni sá hann stóran lögreglubíl við bílinn minn þar sem hann stóð á Suðurgötunni, og amk einn lögreglumann inní bílnum og honum sýndist hann vera að gramsa eitthvað.
Núna er ég að andast úr forvitni!
Hvað var bíllinn minn eiginlega að gera í nótt? Hvað varð um gaurinn sem reyndi að stela honum? Af hverju í fjáranum lét löggan mig ekki vita og af hverju voru lyklarnir skildir eftir í bílnum?
Þess má geta að það var búið að bakka bílnum mjög snyrtilega í stæðið þegar ég fann hann í morgun.

Og hóst... kannski vandræðalegasti partur sögunnar, bíllinn var ólæstur.

4 ummæli:

Gríshildur sagði...

LOST hvað? Þetta er alvöru ráðgáta! Vona að þú fáir svör við spurningunum og setjir þau á bloggið :)

ThP sagði...

ahahah ómæ! spæjari Marta á kreik. Ég hlakka mjööög til að fá að heyra framhaldið!

Nafnlaus sagði...

Jiii, játs, engin smá ráðgáta! Þú ættir að geta fengið eitthvað info hjá löggunni, held að þeir verði að skrá hjá sér allt stúss - líka björgun á litlum gelgjubílum ;) Ég bíð spennt eftir framhaldinu!

Nafnlaus sagði...

Spurning um að bílnum hafi kannski bara leiðst e-h!! er forvitin að frétta framhaldið. Annars langaði mig bara að senda þér knús og kossa.
Ásdís á skaganum