laugardagur, desember 29, 2007

Allt eins og það á að vera. Búin að vanda mig mikið við að verða ekki svöng og brenna ekki fitu. Lifi eins og kreppa sé í aðsigi og enginn sé morgundagurinn.
Jólin búin að vera yndisleg. Ég og barn alltaf saman og það er gaman. Enginn (leik)skóli, ekkert sem truflar okkur saman.
Jólaboð skemmtileg og allt bara gaman.
Nú sefur hann á sófanum og ég horfi á sjónvarp án samviskubits.

miðvikudagur, desember 19, 2007

ég get svo svarið það að tíminn líður álíka hratt núna og ágúst 2005. Ég nenni ekkert að læra, ég vil bara að þetta sé búið.
Komin með alveg nóg af þessu öllu saman og mig langar að hætta að vera svona leiðinleg. Mig langar í jólafrí.
Þegar ég hitti fólk þá er ég leiðinleg. Ég hef ekkert að segja vegna þess að ég geri ekkert. Ég er búin að segja nokkrum frá nýjustu uppgvötunum mínum, þær eru samt ekkert svo spennandi.
Sumar fjalla um bakteríur sem drepast ekki við suðu og valda einhverjum hryllingsjúkdómum, eða af hverju maður á ekki að borða hor.
Eða kúkabakteríur.
Ef ég er nógu dugleg að læra þá gætum við rætt um muninn á krónísku og bráðu bólgusvari. VÚHÚ segi ég nú bara..
Þetta blogg átti að vera ein setning.
Jæja þið, vonandi ekki svo mörgu, sem eruð ennþá prófum getið glaðst yfir einhverju nýju að lesa.
Gangi okkur vel.

sunnudagur, desember 16, 2007

Það er svo skrýti að maður hugsar út frá allt öðru sjónarhorni þegar maður er orðin fullorðið foreldri. Ég var að hugsa um húsið á Hlíðarveginum. Húsið sem var mér allt lífið einu sinni og var lengi vel risa hluti af mínu lífi og lífi margra annarra.
Ég man eftir stiganum uppá loft. Ég gat hlaupið svo hratt niður hann ef ég svona hálf renndi mér, ég bjó til ógurlegan hávaða en það var alltí lagi - það var gaman og ég fór hratt. Nú get ég ímyndað mér að amma hafi fegnið taugaáfall í hvert sinn sem hún heyrði mig bruna niður brattann stigann.
Ég man eftir því þegar ég prófaði að strauja tölurnar á smekkbuxunum, bara til að athuga af hverju maður þarf að strauja í kringum tölurnar - þær sprungu í marga bita.
Ég man eftir stiganum niður í kjallara, hann var undir súð og slökkva/kveikja takkinn var í loftinu efst í stiganum. Ég man þegar ég var svo lítil að ég þurfti að láta mig detta fram og á takkann til að kveikja. Hjartað mitt hoppar uppí háls af tilhugsuninni um drenginn leika slíkar listir.
Ég man eftir litla eldhúsinu uppi sem var með skápa fulla af alls konar og frystikistu sem innihélt iðulega ís. Þar var líka hansnúið straujárn sem var ógurlega spennandi.
Ég man eftir litla búrinu uppi þar sem amma faldi nammi og páskaegg. Ég man eftir öllum ævintýrunum í skápnum hans afa og gömlu myndunum.
Ég man mjög vel hvernig það var að labba Hlíðarvegin og finna lyktina af hádegismatnum og vona að góða lyktin kæmi frá minni ömmu.
Ég man þegar afi svaf í sófanum niðri svo ég gæti sofið uppí hjá ömmu.
Það var ekkert svo slæmt að vera lítil stelpa í stóra húsinu hjá afa og ömmu.
En nú þarf að læra á meðan lítill strákur býr sér til minningar í stóru húsi hjá afa og ömmu.

föstudagur, desember 07, 2007

Próf gera mann geðveikan frh.
Ég braut bolla í gær þegar ég var að hlaupa út, mundi ekki eftir því fyrr en ég var byrjuð að læra um kvöldið og skildi ekki hvað ég var alltaf að stíga á.
Í dag tók ég óhrein glös sem búið var að stafla saman og reyndi að setja þau ofan í skúffuna þar sem hreinu glösin eru. Auðvitað varð allt í skúffunni skítugt og nú eru ekki til nein hrein glös.
Áðan reyndi ég að færa til bendilinn á tölvunni með því að renna fingrunum eftir dúknum á borðinu...
jább ég er að missa það .. hægt og rólega rennur vitið inní lífeðlisfræðibókina. Krípí ekki satt?

miðvikudagur, desember 05, 2007

Lærdómur gerir mann gjörsamlega geðveikan.
Það er eitthvað við þessa önn sem er svo óyfirstíganlegt og erfitt, mér líður eins og ég sé ekki búin að líta í bók í allann vetur, og hvað þá fylgjast með í tíma.
Núna sit ég hér og læri. Eða hvað...
Ég skoða hi-mailið á ca 5 mín fresti, fannst alltí einu voða líklegt að ég fái póst á kvöldin. Hver sendir mér póst? Enginn.
Ég skoða bloggið mitt og alla linkana og alla linkana þeirra svona einu sinni á klukkutíma. Alltaf sömu vonbrigðin yfir því að ekkert nýtt sé búið að gerast. Takk Ynja fyrir að blogga í dag.
Ég skoða mbl svona tvisvar á hverjum klukkutíma og fer í fýlu ef enginn er búin að blogga við fréttirnar sem ég skoða. Ef einhver er búin að blogga þá les ég það og nokkra af linkum viðkomandi.
Síðast en ekki síst.... Barnalandið. Jámm það er það eina sem sjaldan svíkur. Það er alltaf komin ný umræða eða einhver nýr búin að svara gamalli umræðu. Ég áttaði mig samt á því að ég væri líklega komin yfir strikið þegar ég stóð mig að því að rökræða um fæðingarorlofs-lengd hjá fjölburaforeldrum. Eins og það sé mér eitthvað hjartans mál. Nei mér er eiginlega alveg sama.
Jæja... þá er komin tími til að fara að sofa eða eitthvað..
blagh

sunnudagur, desember 02, 2007

Prófin nálgast og jólin með.
Ég er búin að vera fáránlega öflug í kökubakstrinum. Verst er að ég bara fæ ekki nóg af því að éta kökurnar. Flestir sem ég þekki fá ógeð eftir eitthvað smá magn. En ekki hún ég, ónei. Ég ét og ét og ét.
Í gær bakaði ég dýrindis kókos-haframjöls kökur, eftir bakstur var svo suðusúkkulaði smurt undir kökurnar.
Þetta eru ss smákökur drauma minna. Ég er næstum því búin með þær ALLAR! Alein. Jósafat hefur undarlegan danskan matarsmekk (vill borða endalausa skinku) og borðar ekki kökurnar fínu. Svo ég get ekki einu sinni kennt honum um græðgina.
Ég er orðin frekar vonlaus með þetta allt saman svo núna ákvað ég að endurraða í ísskápinn. Mandarínurnar eru fremst en kökurnar eru vandlega faldar á bakvið. Ég raðaði káli, tómötum, gúrkum og fleiri matvælum samviskusamlega í virki í kringum kökurnar.
Sjáum til hversu lengi þetta varir. Núna ælta ég að fá mér eina mandarínu.