föstudagur, maí 25, 2007

Sumarið var ágætlega planað.
Ég var búin að hugsa mér að hjóla í vinnuna á hverjum degi, borða hollann mat í hádeginu og verða ótrúlega fit í lok sumars. Ég hlakkaði til að fara að vinna á vinnustað þar sem er ekki brauð í hvert mál. Þær væntingar hafa svo sem alveg staðist, það er ekkert mikið um brauð-át.
Á þriðjudaginn borðaði ég bara hollt þangað til ég fann póló kexið í neðstu skúffunni. Ég át svona 10 kex. Ok ég get nú alveg lifað við það.
Á miðvikudaginn kom ein samstarfskona mín með fullann dall af mini nammi. Snickers, mars, caramel og maltersers var á meðal kræsinga. Ég átti bágt með mig og át alveg mörg.
Í gær kom einhver góðhjartaður fyrrverandi sjúklingur með alls kyns tegundir af smákökum og súkkulaði í fallegu bréfi. Auðvitað varð ég að smakka allar tegundirnar.
Í dag er föstudagur og þá koma bakaríiskræsingar í morgunmatnum. Svo var lítið að gera svo ein (flugstjóramamman) bakaði bestu pönnsur í heimi og þeytti rjóma með. Ég stóð mig nú nokkuð vel og borðaði bara 3.
Þess má geta að deildin státar af dýrindis kaffivél. Svona vél sem hellir uppá einn bolla í einu og í hana er einungis sett eðal kaffi. Svo kræsingunum var sporðrennt með góðu cappucino.
Svo sjáum við bara til hvernig ég verð í lok sumars.
Ég hjóla allavega í vinnuna.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Við mæðgin áttum mjög huggulega frídaga saman. Við dunduðum okkur við að hitta fólk og vera saman. Um helgina fórum við í skírn Úlfs Esra. Að sjálfsögðu mjög falleg athöfn og veitingarnar alveg dýrindis. Ég er ennþá að hugsa um hvað allt var gott og hvað mig langar í meira. Það lýsir kannski betur sjúkleika mínum heldur en gæðum veitinganna.
Nú er ég orðin vinnandi kona.
Það var gaman að mæta í vinnuna í morgun. Reyndar leið mér frekar kjánalega þar sem ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að vera. Þetta endaði svo allta saman vel enda svo mikið indælisfólk sem ég er að vinna með.
Mér finnst líka gaman að vera í vinnunni og horfa á hina sem eru búnir að læra meira og hugsa um það hvað ég hlakka til þegar ég verð búin að læra meira.
Þá get ég skipulagt, mælt og potað meira.
Ég hlakka ógurlega til að eyða sumrinu þarna og læra fullt fullt fullt. Það verður líka hressandi að fá smá pening, pening sem er ekki yfirdráttur.
Mikið rosalega er huggulegt að þurfa ekki að læra á kvöldin. Ekkert samviskubit.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Jæja..
Prófin loksins búin og ég búin að fagna á sérstaklega viðeigandi hátt. Hitti skemmtilegt fólk og talaði frá mér allt vit. Drakk skot þangað til ég var dofin í munninum og undir lokin fann ég mig drekkandi tequila úr rauðvínsglasi, milli þess sem ég sýndi kunnáttu mína í ólympískum hnefaleikum. Mjög hressandi.
Ég fór meira að segja út í pilsi, með maskara og púður! Mér fannst ég alveg ógeðslega skemmtileg og hress :)
Dálítið spes að sitja núna heima og engar skyldur hvíla á mínum herðum. Ég gæti alveg tekið til en .... bla.. einhver sagði mér að skíturinn fer ekki neitt á meðan ég hangi.
Á mánudaginn grillaði ég líka bóg. Grillaði er kannski of vægt til orða tekið, ég kveikti í bóg, svo mikið að ég þurfti að hafa mig alla við að slökkva í honum. Það komu meira að segja svartir blettir á tréhillurnar á grillinu.
Þarf ég að segja frá því að bógurinn var ekkert sérstaklega góður, sveppirnir voru samt æði. Maísstönglarnir mistókust líka.
Er ég að segja frá þessu?

Barnið kom svo frá pínulitla útlandinu í dag og nú eigum við framundan nokkra daga saman í fríi áður en alvara lífsins hefst og ég styng mér í djúpu laugina í fyrsta skipti á nýjum vinnustað.
Dekraða barnið sefur nú hér í sófanum því mig langar að horfa á hann aðeins lengur en mig langar líka að horfa á sex and the city.

Jæja Marta, þegiðu nú.

laugardagur, maí 12, 2007

Sumt fólk hefur bara áhuga á sínum eigin rassi. Fjasar endalaust um sín vandamál, sína sigra og sitt líf. Spyr kannski eitt auganblik - ertu hress? Maður kemur ekki útúr sér óbrenglaðri setningu því það er gripið frammí og ekkert kemst að nema eitthvað sem gerðist í umræddum rassi.
Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessu mikið lengur eða hvort mér finnst umræddur rass svona ógurlega merkilegur.
Nei.

mánudagur, maí 07, 2007


Það saxast á blessuð prófin. 3/5 búin og búið að ganga svona ágætlega.
Fyrsta sinn sem ég er með barn í prófum. Það er dáldið erfitt.
Það mundi vera óyfirstíganlegt ef ég ættti ekki svona góða vini sem hjálpa mér. Sumir hjálpa mér með því bjóða Hirti í heimsókn og aðrir hjálpa mér með því að veita mér (okkur) félagsskap þegar ég er ekki að læra. Þið vitið hver þið eruð
Svo þegar allt kemur til alls þá er þessi prófatími búin að vera huggulegur.
Það er gott að eiga góða að.