þriðjudagur, maí 13, 2008

Árið 1990 var ég að verða 11 ára og Stjórnin var uppáhalds hljómsveitin mín. Sigga og Grétar rústuðu júróvisjón. Eða svona... hverjum var ekki sama um þessar 3 þjóðir sem voru fyrir ofan þau?
Ég og vinkona mín fréttum að stjórnin væri á leið til Ísafjarðar og að það hefði verið haldin júróvisjón danskeppni á barnaballinu. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og rukum heim til ömmu þar sem upptöku af júróvisjón var skellt í videotækið og hafnar strangar æfingar.
Við æfðum eins og sannir keppnismenn í heila viku eða þangað til við vorum búnar að ná öllum hreyfingunum fullkomnlega. Að eigin áliti að sjálfsögðu.
Ég var Sigga og hún var Grétar, við vorum í eins peysum og næstum því eins buxum. Okkur fannst við mega töff. Stjórnin var líka svalasta fólkið, og við gátum dansað eins og þau.
Engir aðrir voru búnir að æfa sig svo við rústuðum keppninni og fengum að launum áritaða plötu með stjórninni

laugardagur, maí 03, 2008

Samkvæmt ónákvæmri talningu á sonur a.m.k. 25pör af sokkum. Í dag átti svo að búa barnið til pössunar og að sjálfsögðu senda með honum aukaföt. Eitthvað virtist sokkaskúffan tómleg svona við fyrstu sýn svo hafist var handa við að para saman sokka og leita að samstæðum hér og þar um íbúðina. Eftir mikla og nákvæma leit fundust 5 pör af sokkum og ca 10 stakir sokkar.
Hvernig getur þetta verið?
Þvottavélin okkar er hér innandyra og ég man ekki eftir tilfelli þar sem barnið hefur komið heim sokkalaust eða bara á einum sokk.