miðvikudagur, febrúar 27, 2008



Það er fátt betra en að koma glaður út úr prófi, sækja barnið og fara heim og eiga kósý stund saman. Reyna að bæta fyrir stressið og öll skiptin sem sagt var: elskan mín núna er mamma að læra...

Í dag borðuðum við Hjörtur bugles með púrrulaukssúpu-ídýfu og drukkum trópí og töluðum um Þuríði sem fór í stóru flugvélina, Hjörtur sagði mér líka að hún hefði komið og borðað hjá okkur áðan og að hún ætlar að koma aftur seinna.

mánudagur, febrúar 25, 2008



jamm og jæja.
Er í prófum núna. Stress og óþolinmæði einkenna allt saman. Samt pínu gaman líka, læra og læra. Ég hlakka til í maí þegar ég verð ekki í prófum. Illu er best aflokið.
Vandamálið núna er að ég þarf að lesa voða mikið fyrir miðvikudaginn en ég nenni því ekki og ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Eitthvað erfitt þegar ekki glærum er hent útum alla uglu. Einn, tveir og nú!

Barnið á heiðurinn af þessum hressandi myndum.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Væmið
Alltí einu rankaði ég við mér inní eldhúsi í stóra húsinu, með besta barninu og bróðurpartinum af systkinum mínum. Við vorum að dansa saman við "dont worry be happy" og ég fann hvað ég var í alvörunni alla leið hamingjusöm. Mér er ennþá heitt í maganum.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Yfirleitt þegar ég er í tíma þá glósa ég eins og vitlaus manneskja. Ég reyni að skrifa sem mest og les það svo eftir tímana.
Stundum er bara alls ekkert í vit í þessum glósum mínum. Hér koma dæmi frá því í morgun:

Mikilvægt lesa grein einhvers staðar.

Sýnir mynd af svani, belgur á því hann er blásin út hann er opinn (engin mynd fylgir með)

Hérna sjáum við – sjá á netinu hvað er verið að tala um.

Glæra með ónýt lungu

Astrúp - af hverju - því við erum svo skrýtin.

Krabbameinslæknar eru með aðferðir til að reyna að fá krabbameinið til að koma útúr beinunum.


Annars er allt með besta móti. Fann engan hatt til að éta en margt hefur breyst. Sjáum hvað setur. Eina áhyggjuefnið mitt þessa daganna er að hann hverfi jafn auðveldlega og hann birtist. Það væri nefnilega ekkert svo hressandi.


sunnudagur, janúar 27, 2008

Sem betur fer á ég ekki hatt því þá þyrfti ég nú aldeilis að éta hann.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Jaá.... Undanfarna daga hef ég fengið skrilljón hugmyndir af dásamlegum bloggum. Alveg ætlað að varpa út ógurlegum sannleiksdropum og reyna að bæta líf einhvers í leiðinni. Á meðan ég væri að þessu mundi ég finna lausn á öllum heimsins vandamálum og líf okkar yrði ekki samt.
Þegar kom að því að setja þennan sannleik á blað nennti ég því ekki. Ég nennti meira að hanga á barnalandi - jább ég les barnaland endalaust mikið. Ég nennti frekar að refresha mbl og lesa blogg hjá ókunnugum. Jább geri það líka. Les blogg hjá fólki sem ég þekki ekki neitt. Mér þykir meira að segja vænt um sumt fólk sem ég þekki ekki neitt og stundum er ég æsispennt yfir meðgöngum hjá konum sem ég þekki ekki neitt. Bíð spennt eftir fæðingu barns sem ég mun að öllum líkindum aldrei sjá.
Ég kalla barnið mitt stundum rúsínu - því barnið mitt er sætt eins og rúsína. Ég kalla hann líka stundum rúsínurass - þó það sé kannski ekkert fallegt við það, en ég kalla hann það því hann er barnið mitt og mér finnst það krúttlegt. Ég kalla hann stundum Jósafat Bingó því mér finnst það alveg ótrúlega fyndið - mér finnst Jósafat samt alveg stórkostlega ljótt nafn en þegar ég segi það við rúsínurassinn þá verður það fyndið og skemmtilegt og stundum alveg fáránlega lýsandi.

Jæja, einhvern vegin er þetta að þróast útí einhvers konar játningablogg. Ég vildi bara láta ykkur vita að þrátt fyrir endalaust fullkomnun mína þá er ég bara mannleg eins og þið hin - nema ég geri ekki mistök.
Það var eitthvað meira en ég man það ekki.
Grip

sunnudagur, janúar 06, 2008

Ég horfi á sjónvarp. Það má meira að segja segja að ég horfi nokkuð oft á sjónvarp. Þar af leiðandi horfi ég oft á auglýsingar. Spái svo sem ekkert sértaklega mikið í þeim en sumar auglýsingar fara meira í taugarnar á mér en aðrar.
Bílaauglýsingar eru eitthvað sem mér finnst vera alveg fáránlegt rugl. Af hverju er ástæða til að sýna bíl sem breytist í action mann þegar hann kemur í beygju eða kónguló þegar hann keyrir yfir sand?
Ég bara skil þetta ekki. Áðan sá ég bílaauglýsingu þar sem bíllinn virkaði eins og hjólabretti fyrir einhvern risa og snerist í marga hringi og hélt svo áfram að keyra. Mig langar alveg alls ekki í bíl sem snýst í marga hringi.
Mér finnst þetta bara svo ótrúlega fáránlega pæling. Kannski er ég bara of jarðbundin.
Ef ég byggi i bæ þar sem fallandi steinkúla væri alltaf næstum því búin að drepa mig, þá væri ég ekkert akandi um kát og glöð, ég væri ekkert þar.
Bílaauglýsingar eru mjög góð leið til að halda mér hamingjusamri, akandi um á gullfallega gelgjubílnum.

Annar handleggur.
Einkunnir! Ekkert sést, hvorki tangur né tetur. Það er ekkert gaman að bíða eftir fréttum endalaust. Ef ég verð einhvern tíma háskólakennari þá verður það til þess að komast að því hvernig maður getur verið svona lengi að skila inn einkunm. Þegar ég kemst að því þá skal ég útvarpa skýringu á veraldarvefinn. Þangað til verð ég bitra konan að bíða og röfla.

Í gær leyfði ég biturleikanum að valsa um og sendi bitur skilaboð útí heim. Alveg skal ég éta hattinn minn ef ég fæ einhvern tíma svar. Children someday?
Þannig var nú það

laugardagur, desember 29, 2007

Allt eins og það á að vera. Búin að vanda mig mikið við að verða ekki svöng og brenna ekki fitu. Lifi eins og kreppa sé í aðsigi og enginn sé morgundagurinn.
Jólin búin að vera yndisleg. Ég og barn alltaf saman og það er gaman. Enginn (leik)skóli, ekkert sem truflar okkur saman.
Jólaboð skemmtileg og allt bara gaman.
Nú sefur hann á sófanum og ég horfi á sjónvarp án samviskubits.

miðvikudagur, desember 19, 2007

ég get svo svarið það að tíminn líður álíka hratt núna og ágúst 2005. Ég nenni ekkert að læra, ég vil bara að þetta sé búið.
Komin með alveg nóg af þessu öllu saman og mig langar að hætta að vera svona leiðinleg. Mig langar í jólafrí.
Þegar ég hitti fólk þá er ég leiðinleg. Ég hef ekkert að segja vegna þess að ég geri ekkert. Ég er búin að segja nokkrum frá nýjustu uppgvötunum mínum, þær eru samt ekkert svo spennandi.
Sumar fjalla um bakteríur sem drepast ekki við suðu og valda einhverjum hryllingsjúkdómum, eða af hverju maður á ekki að borða hor.
Eða kúkabakteríur.
Ef ég er nógu dugleg að læra þá gætum við rætt um muninn á krónísku og bráðu bólgusvari. VÚHÚ segi ég nú bara..
Þetta blogg átti að vera ein setning.
Jæja þið, vonandi ekki svo mörgu, sem eruð ennþá prófum getið glaðst yfir einhverju nýju að lesa.
Gangi okkur vel.

sunnudagur, desember 16, 2007

Það er svo skrýti að maður hugsar út frá allt öðru sjónarhorni þegar maður er orðin fullorðið foreldri. Ég var að hugsa um húsið á Hlíðarveginum. Húsið sem var mér allt lífið einu sinni og var lengi vel risa hluti af mínu lífi og lífi margra annarra.
Ég man eftir stiganum uppá loft. Ég gat hlaupið svo hratt niður hann ef ég svona hálf renndi mér, ég bjó til ógurlegan hávaða en það var alltí lagi - það var gaman og ég fór hratt. Nú get ég ímyndað mér að amma hafi fegnið taugaáfall í hvert sinn sem hún heyrði mig bruna niður brattann stigann.
Ég man eftir því þegar ég prófaði að strauja tölurnar á smekkbuxunum, bara til að athuga af hverju maður þarf að strauja í kringum tölurnar - þær sprungu í marga bita.
Ég man eftir stiganum niður í kjallara, hann var undir súð og slökkva/kveikja takkinn var í loftinu efst í stiganum. Ég man þegar ég var svo lítil að ég þurfti að láta mig detta fram og á takkann til að kveikja. Hjartað mitt hoppar uppí háls af tilhugsuninni um drenginn leika slíkar listir.
Ég man eftir litla eldhúsinu uppi sem var með skápa fulla af alls konar og frystikistu sem innihélt iðulega ís. Þar var líka hansnúið straujárn sem var ógurlega spennandi.
Ég man eftir litla búrinu uppi þar sem amma faldi nammi og páskaegg. Ég man eftir öllum ævintýrunum í skápnum hans afa og gömlu myndunum.
Ég man mjög vel hvernig það var að labba Hlíðarvegin og finna lyktina af hádegismatnum og vona að góða lyktin kæmi frá minni ömmu.
Ég man þegar afi svaf í sófanum niðri svo ég gæti sofið uppí hjá ömmu.
Það var ekkert svo slæmt að vera lítil stelpa í stóra húsinu hjá afa og ömmu.
En nú þarf að læra á meðan lítill strákur býr sér til minningar í stóru húsi hjá afa og ömmu.

föstudagur, desember 07, 2007

Próf gera mann geðveikan frh.
Ég braut bolla í gær þegar ég var að hlaupa út, mundi ekki eftir því fyrr en ég var byrjuð að læra um kvöldið og skildi ekki hvað ég var alltaf að stíga á.
Í dag tók ég óhrein glös sem búið var að stafla saman og reyndi að setja þau ofan í skúffuna þar sem hreinu glösin eru. Auðvitað varð allt í skúffunni skítugt og nú eru ekki til nein hrein glös.
Áðan reyndi ég að færa til bendilinn á tölvunni með því að renna fingrunum eftir dúknum á borðinu...
jább ég er að missa það .. hægt og rólega rennur vitið inní lífeðlisfræðibókina. Krípí ekki satt?

miðvikudagur, desember 05, 2007

Lærdómur gerir mann gjörsamlega geðveikan.
Það er eitthvað við þessa önn sem er svo óyfirstíganlegt og erfitt, mér líður eins og ég sé ekki búin að líta í bók í allann vetur, og hvað þá fylgjast með í tíma.
Núna sit ég hér og læri. Eða hvað...
Ég skoða hi-mailið á ca 5 mín fresti, fannst alltí einu voða líklegt að ég fái póst á kvöldin. Hver sendir mér póst? Enginn.
Ég skoða bloggið mitt og alla linkana og alla linkana þeirra svona einu sinni á klukkutíma. Alltaf sömu vonbrigðin yfir því að ekkert nýtt sé búið að gerast. Takk Ynja fyrir að blogga í dag.
Ég skoða mbl svona tvisvar á hverjum klukkutíma og fer í fýlu ef enginn er búin að blogga við fréttirnar sem ég skoða. Ef einhver er búin að blogga þá les ég það og nokkra af linkum viðkomandi.
Síðast en ekki síst.... Barnalandið. Jámm það er það eina sem sjaldan svíkur. Það er alltaf komin ný umræða eða einhver nýr búin að svara gamalli umræðu. Ég áttaði mig samt á því að ég væri líklega komin yfir strikið þegar ég stóð mig að því að rökræða um fæðingarorlofs-lengd hjá fjölburaforeldrum. Eins og það sé mér eitthvað hjartans mál. Nei mér er eiginlega alveg sama.
Jæja... þá er komin tími til að fara að sofa eða eitthvað..
blagh

sunnudagur, desember 02, 2007

Prófin nálgast og jólin með.
Ég er búin að vera fáránlega öflug í kökubakstrinum. Verst er að ég bara fæ ekki nóg af því að éta kökurnar. Flestir sem ég þekki fá ógeð eftir eitthvað smá magn. En ekki hún ég, ónei. Ég ét og ét og ét.
Í gær bakaði ég dýrindis kókos-haframjöls kökur, eftir bakstur var svo suðusúkkulaði smurt undir kökurnar.
Þetta eru ss smákökur drauma minna. Ég er næstum því búin með þær ALLAR! Alein. Jósafat hefur undarlegan danskan matarsmekk (vill borða endalausa skinku) og borðar ekki kökurnar fínu. Svo ég get ekki einu sinni kennt honum um græðgina.
Ég er orðin frekar vonlaus með þetta allt saman svo núna ákvað ég að endurraða í ísskápinn. Mandarínurnar eru fremst en kökurnar eru vandlega faldar á bakvið. Ég raðaði káli, tómötum, gúrkum og fleiri matvælum samviskusamlega í virki í kringum kökurnar.
Sjáum til hversu lengi þetta varir. Núna ælta ég að fá mér eina mandarínu.

mánudagur, nóvember 26, 2007


10mín í að heimapróf opnist og hér sit ég og bíð þess að vitneskjan detti inní kollinn á mér. Er með headphones til að hjálpa til við að auka flæðið.

Það sem mig langar að gera núna er að hanga, skreyta, bjóða í kaffi, baka, þrífa, jólast, kaupa.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Stundum virðist ég bara ekkert vita. Ég bara geri eitthvað sem er ekkert sniðugt og skil svo ekki neitt í neinu.
Á laugardaginn fór ég út .. fór í hressandi partý og það var voða gaman. Kynntist gömlum nágrönnum og talaði mig hása. Varð hissa og hafði það gaman.
Fór út... og síðan ekki söguna meir.
Amk ekki sögur sem eru til frásögu færandi. Kom heim seint og um síðir. Eyddi deginum eftir í nánari kynnum við flísarnar á baðherberginu en ég kæri mig um að ræða.
Fannst ég mjó á mánudaginn og svei mér þá ef ekki endurnærð til að takast á við skólaverkefni.
Þess vegna sit ég núna og geri verkefni um bráðarugl. Kannski þjáðist ég af bráðarugli á laugardaginn. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið að koma úr aðgerð.
Ja... maður spyr sig.

Annars sá ég ótrúlegt sár í dag. Fannst það ekkert ógeðslegt og varð eiginlega bara dónalega æsta af áhuga og spenningi. Maður sá sko beinið og allt.
Ég fann líka gjörgæslulykt og fann alltí einu að þarna var komin spítalalyktin sem mér finnst svo góð. Ég vandaði mig við að anda djúpt og mikið á meðan ég staldraði þar við.
Ætli ég sé ekki á réttri hillu þó sum verkefnin séu leiðinleg og ég ekki nógu dugleg að læra? Jú ég held það...
Yfir.

miðvikudagur, október 24, 2007

Camper.
Í dag tókst mér loksins að fara með fínu fínu skóna mína til skósmiðsins. Er búin að hlakka mikið til að láta gera við þá og fá þá aftur til baka heila og fína.
Á nokkrum sekúndum urðu vonir mínar að engu. Skósmiðurinn tróð penna í gegnum ein samskeytin á skónum og tilkynnti mér um leið andlát þeirra.
Hann stækkaði ekkert gatið með pennanum heldur var það svona stórt fyrir. Sagði mér að þegar það væru komin svona göt á skó þá væru þeir ónýtir.
Hann sagði mér líka að hann gæti alveg gert við þá en það kostaði 5þús. En mælti ekki með því. Ég reyndi að malda í móinn með því að beita þeim rökum að skóparið kostaði 13þús svo ég væri í raun að græða. Hann neitaði alveg að trúa því og sagði mér að kaupa nýja skó.
Að lokum sættumst við á það að gömlu skórnir fengju að deyja með reisn. Þeir verða framvegis einungis nýtt þegar þurrt er í veðri.
Eruð þið að sjá það fyrir ykkur? Að það verði einhvern tíma þurrt aftur? Hvernær ætli komi nógu mikill þurrkur til að ég geti farið út í uppáhaldsskónum? Á næsta ári kannski ?
Núna verð ég konan sem er alltaf í gönguskóm. Alltaf.
Áður átti ég nóg af skóm, svo fer eitt par til fj.... og nú á ég alltí einu enga skó.
Ég á reyndar converse skó - með gati á botninnum. Ekki vatnsheldir.
og einhverja striagskó sem eru úr striga - ekki vatnsheldir.
Jæja það eru gönguskórnir góðu.
Eina sem kemur gott úr þessu er að ég neyðist til að kaupa mér nýja skó! Gjörsamlega neyðist - og ætli ég verði ekki að kaupa mér rándýra camper skó? Það voru jú þeir sem eyðilögðust. Þeir eru altmugligt skór svo að tæknilega séð borga þeir sig :)

Jæja.. best að halda áfram að skoða sár og sárabotna. Heillandi.

laugardagur, október 13, 2007

Jiminn eini hvað það er hroðaleg mynd í sjónvarpinu.

Mér finnst stundum svo magnað hvað margt hefur breyst. Allt hefur breyst. Samt eru bara þrjú ár síðan. Þrjú ár eru svo stuttur tími. Samt alveg heil eilífð.
Í sumar hitti ég mann í vinnunni. Hann þekkir mig frá öðrum tíma, frá mun skrýtnari tíma fyrir löngu síðan. Það var dálítið gaman. Svolítið svona "þetta gat ég".
En jæja já....

Svo spái ég stundum alveg ótrúlega mikið í útlendingnum sem á heiður skilinn fyrir þátt sinn í þessum breytingum.
Það er stundum svo skrýtið að vita bara ekkert um hann en vera þó með svona stóran hluta af honum hjá mér.
Útlendingurinn virðist vera alveg sérlega hógvær þar sem það heyrist hvorki hósti né stuna úr þeirri áttinni. Það væri bara svo gaman að vita eitthvað aðeins meira, eiga myndir og vita eitthvað hvaðan hann kemur. Er það hann sem á þessar stóru fætur? háu kollvikin? ... það er svo margt fleira.
Mig vantar alveg nokkra bita í púslið.

Að öðru... í framtíðnni verður 13 okt frátekinn sem afmælisdagur lítillar stelpu sem fæddist í nótt. Ég hlakka til að kynnast henni.

update 14/10 : í hyldjúpum internetsins fundust þónokkrir bitar í umrætt púsl. Fleiri en hafa sést áður. Hressandi.

mánudagur, október 01, 2007

jæja já...
Á fimmtudaginn komst ég að því að netið heima hjá mér var ekki til staðar lengur. Ég varð vægast sagt pirruð. Hringdi í RHI og komst að því að tölvan mín hlyti að vera að gera mér einhvern óleik.
Fiktaði í greyinu fram og til baka og ekkert gerðist.
Ég sá mér þann kost vænstan að taka bara til, elda mat, tala við barn og læra.... það var sem sagt það sem ég gerði um helgina.
Reyndar hljóp ég á lessstofu í korter, hentist á netið og fannst ég eiga allann heiminn.
Ekkert bólað enn á netinu í morgun svo ég ákvað að hringja aftur í RHI.
Þá kom í ljós að ég var ekkert sú eina sem hringdi. Ég var bara svo óheppin að vera sú fyrsta.
Tölvan mín átti sem sagt ekki skilið allt fiktið.
En við Jósafat áttum huggulega helgi.
Hann virðist samt vera að sigla inní eitthvað "terrible two skeið". Kannski ekkert svo terrible en þó dálítið svona stundum.

Mæðgin hjóla hamingjusöm af stað - móðir hjólar og barn situr í nokkurs konar kerru aftan á. Voða náttúruvænt og almennt huggulegt.
Væl heyrist aftan af hjóli.
Jósafat: teppi.
Mamman stoppar hjólið: viltu teppið?
Nei....
Á ég að taka teppið?
Nei...
Hjóla aftur af stað...
væl.. "TEPPI" væl...
hættu að væla - notaðu venjulegu röddina!
Teppi!
viltu hafa teppið á fótunum?
jaaaaá. (sagt í "já auðvitað ég var ekki búin að átta mig á því" tóni)
ok.
Hjólum aftur af stað.

laugardagur, september 15, 2007


Stundum rífast þau og slást. Stundum sitja þau og syngja himneskt "afi minn og amma mín" og hann spilar undir á ukuleleinn. Stundum brasa þau saman og stundum eru þau algjörir búðingar sem hella niður og sulla í klósettinu.
Fyrst og fremst eru þau samt vinir og þau eru dásamlegust.
Flutt.
Jámm ég er flutt í alveg ótrúlega mikið huggulegri íbúð. Það geta meira að segja alveg fleiri en einn komið í heimsókn án þess að fólki líði eins og það sé í einhvers konar "troða inní skáp" keppni.
Mér finnst íbúðin bara alveg frábær, mér stendur meira að segja algjörlega á sama um ljótan gólfdúk og þá staðreynd að það þurfi að skipta um rúðu í svalahurðinni og mála svalirnar.
Allt er æði. Voða huggulegur panell í loftinu. Mikil lofthæð sem lætur manni líða eins og það sé miklu meira pláss. Eldhúsið stúkað af. Tengi fyrir þvottavél og þurrkpláss á baðherbergi.
Ég hefði aldrei trúað því að það væri svona mikill munur á 10 fermmetrum. En jú... það munar bara alveg öllu.
Við erum sem sagt alveg agalega hamingjusöm núna með nóg pláss.
Eina sem angrar mig í bili er að ég það virðist einn kassi/poki eða eitthvað hafa týnst. Mig vantar alveg slatta af dóti og ég get ómögulega munað hvar ég pakkaði því niður eða hvar það gæti verið niðurkomið.
Vona bara að það sé ekki í sorpu.