fimmtudagur, desember 22, 2005

Eitt ár.
Á þessum degi fyrir ári síðan kom Soffía í kaffi til mín í Frostaskjólið. Ég man ég sat í appelsínugula stólnum/sófanum og Soffía sat á móti mér í hinum sófanum. Eftir smá spjall ákvað ég að láta í ljós áhyggjur mínar: "Soffía, ég er ekki byrjuð á túr". Soffía var nú ekki lengi að redda þessu. Skipaði mér útí bíl og heim til hennar að pissa á prik. Síðan hefur veröldin ekki verið söm.

Ég man ég sat uppi á eldhúsbekknum og sagði: "ég er að fara að eignast barn".
Ég man að eftir að mesta sjokkið var liðið hjá hringdi ég í Helgu og sagði henni að mér væri nokk sama hvað hún væri að gera, hvort hún væri með Madonnu í heimsókn eða ekki, hún ætti að kasta öllu frá sér og fá mig í heimsókn. Þegar hún kom til dyra stóð ég með prikið í hendinni og rak það framan í hana.
Við hringdum í Heiði og sögðumst vera með svaka fréttir handa henni. Hún ætlaði ekki að nenna að koma en kom eftir að við höfðum sannfært hana um að hún vildi heyra það sem við hefðum að segja. Hún kom að lokum og andlitið hennar datt hér um bil af þegar umrætt prik var rekið framan í hana.
Við sátum svo heima hjá Helgu og gripum andann á lofti.
Þennan dag komu líka Steini og Siggi í kaffi. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar en allann tímann var ég að hugsa: "ég er ólétt, ég er ólétt, ég er ólétt" Um leið og þeir fóru út sprungum við Helga.
Þetta var ótrúlegur dagur.
Þá var Hjörtur á stærð við hrísgrjón. Núna er hann fullkomið barn.
Já.. tímarnir hafa svo sannarlega breyst.

Engin ummæli: