miðvikudagur, janúar 11, 2006


Ég bara get ekki setið og horft á ...

Þegar ég var lítil átti ég frænda. Hann var ótrúlega skemmtilegur. Eins og bara frændur geta verið. Hann gat haldið á mér og fíflast endalaust. Hann bauð mér í bíltúra og gaf mér nammi. Hann sagði mér (lyga)sögur og skemmti mér oft.

Einu sinni sátum við við eldhúsborðið hjá afa og ömmu og ég sagði að mig langaði í sveit þar sem væru hestar. Hann hringdi strax í vin sinn og reddaði mér vinnu við barnapössun í sveit þar sem voru fullt af hestum.
Honum var svo umhugað að ég mundi nýta kosningarétt minn að einu sinni ræsti hann út sýslumann skutlaði hann mér úr sveitinni á Hólmavík til að kjósa utan kjörstaðar.
Hann vissi ótrúlega margt um ættfræði og kunni margar sögur. Hann gat sagt manni ótrúlega margt um hvernig lífið var í gamla daga. Enda var hann stóri bróðir hennar mömmu.
Ég man ennþá þegar hann bauð mér í mat og eldaði handa okkur kjúkling sem var svo lítill að við kölluðum hann froskakjúklinginn.
Hann hætti ekkert að vera skemmtilegur þó ég stækkaði. Hann talaði alltaf við mig eins og fullorðna manneskju.
Hann var stundum skrýtinn og sérlundaður en hann var alltaf frændi minn sem mér fannst frábær.

Í gær breyttist svo allt. Alltí einu birtust fréttir af einhverju ótrúlega ógeðslegu sem frændi minn á að hafa gert. Hluti af veröldinni minni hrundi bara. Hverjum á ég að trúa? Er maðurinn sem ég hélt að ég þekkti vel bara ekkert sá sem hann þykist vera?
Hvað átti maður að gera? Hvernig gat svona lagað komið fyrir í minni fjölskyldu?
Ég reyndi eins og ég gat að átta mig en svo breyttist allt aftur... Frændi minn er dáinn.
Eftir sitjum við hin og hugsum okkar.
Í dag er búið að vera ótrúlegt fjölmiðlafár. Mér finnst mjög skrýtið að alltí einu sé mín fjölskylda búin að finna fyrir ægivaldi fjölmiðlanna.
Veit ekki hvort ég eigi að vera reið út í það blað sem um ræðir, reið útí frænda minn fyrir að vera ekki sá sem ég hélt að hann væri eða bara hvað...
Það eru allir að tala um þetta alls staðar og að sjálfsögðu sýnist sitt hverjum.
Mér finnst þetta allt saman einstaklega sorglegt.
Ótrúlegt að finna á eigin skinni hvernig svona er. Ég hef oft séð forsíðurnar á DV og hugsað um aumingja aðstandendur fólkins prýðir þessar síður.
Meintir glæpamenn eiga líka fjölskyldur sem vita oft minnst um málið. Fjölskyldan fær ekki að heyra kjaftasögurnar. Fjölskyldan fær þessu bara skellt í andlitið á sér. Kannski eru börn í fjölskyldunni sem rölta útí búð og sjá ættingja sinn upp um alla veggi?
Þetta finnst mér vert að hugsa um.
Ég votta öllum sem hlut eiga að máli samúð mína og hugur minn er hjá ykkur öllum.

Engin ummæli: