fimmtudagur, janúar 29, 2009

Sonur virðist vera komin á hápunkt þess aldursskeiðs sem einkennist af því að segja eitthvað óviðeigandi. Eða ég vona amk að þetta sé hápunkturinn.
Að fara í sund til dæmis er stundum dálítið vandræðalega fyndið. Oft vona ég bara að fólk skilji ekki óskýrmælta barnið mitt.
Hann benti til dæmis á mann sem var að fikra sig ofan í heita pottinn og tilkynnti mér að þessi væri nú með alveg ægilega stóran maga, ég sagði bara já já og reyndi að eyða umræðuefninu. Ekki tókst það betur en svo að eftir smá stund spurði barnið hvort þessi maður (bent með vísifingri) væri með barni í þessum risastóra maga.
Eftir sundferðina fórum við í sturtu eins og lög gera ráð fyrir. Eftir smástund leit sonur á mig og hálf æpti: Mamma! Þú ert að pissa í sturtuna!
Sem betur fer var engin þarna nema ein kona sem brosti bara huggulega á meðan ég útskýrði fyrir barninu að ég hefði nú aldeilis ekki verið að pissa í sturtuna.
Við erum búin að mæta saman á nokkur mótmæli og nú sönglar hann stundum "vanfrla vikrisvs" og lemur í pott. Þó orðin skiljist ekki þá fer tónfallið ekkert á milli mála. Honum finnst þetta vera einhvers konar hvatningaróp því í morgun sat hann hér útí glugga með málmbox sem hann barði í og kallaði - upp flugvél.