laugardagur, janúar 02, 2010

2009.
Við stóðum á Austurvelli og mótmæltum. Ég barði og barði og tók son með mér, hann var hálf-hræddur en gat þó æpt - vanhæf ríkisstjórn! (reyndar ekki alveg svona skýrt en tónninn fór ekki á milli mála)
Við fórum á Ísafjörð og sonur fór í fyrsta skipti á skíði og líkaði vel. Við fórum líka á "aldrei fór ég suður". Mér fannst gaman en syni ekki svo mjög. Of mikil læti.
Við stunduðum skóla og leikskóla af kappi og lærðum bæði sitthvað nýtt. Sonur þó trúlega meira en móðir.
Við fórum í ferðalög, við keyptum tjald og nýttum það vel. Við heimsóttum vini, hoppuðum, sóluðum okkur, horfðum á video, lásum bækur, lærðum nýja leiki og bara skemmtum okkur konunglega saman. Endalaust væri hægt að telja upp. Í lífi okkar sonar hefur þetta trúlega verið besta árið. Við höfum einhvern vegin náð taktinum.

Núna er það komið, 2010. Árið sem hefur alltaf verið svo langt í burtu. Ég stefni á útskrift 2010. Það var alltaf eitthvað sem mun gerast í fjarlægri framtíð. Allt í einu er það bara bráðum, síðasta önnin mín er að hefjast!
Svo skrýtið að það sé komið 2010. Það er svo stutt síðan aldamótin voru, stutt síðan ég flutti til Reykjavíkur. Samt eru núna komin 8 ár! Ég bara skil það ekki.
Þegar við vorum allar hér, ég, Hjördís, Helga, Ósk og Heiður... Allt hefur breyst. Við erum allar útum allt og ég er búin að týna fullt af fólki á leiðinni.

Ég þarf að fara að ákveða hvað skal gera eftir útskrift.
Jiminn eini hvað Á ég að gera?


Gleðilegt nýtt ár!

sunnudagur, júlí 05, 2009

jahá!
sumarið er aldeilis dásamlegt. Ég keypti tjald og er öll spennt að fara að tjalda því hist og her um landið.
Vinna mín er skrilljón sinnum skemmtilegri en ég þorði að vona og ég er næstum því svekkt að missa af heilum 4 vikum þegar ég fer í sumarfrí :) Það er gaman.
Sonur er uppfullur af ímyndun og skemmti ég mér konunglega við að hlusta á hann. Hann kann allt og getur allt og á vini í öllum mögulegum húsum. Hann getur vel drepið krókodíl og það er bannað að skjóta dýr nema ljón því þau eru reið.
Svo fór hann, að eigin sögn, út að slá grasið. Aleinn og vopnaður beittum hníf og skar sig í fótinn.
Krúttlegast er þegar hann stendur grafkyrr og segir: sjáðu hvað ég er stór! svona 18x á dag. Hann vill verða stór svo hann geti orðið lögreglumaður eða smíðamaður. Hann vill smíða hús og berja og brjóta veggi segir hann.
Þegar hann eignast börn þá munu þau ekki gráta og væla. Litli bróðir hann er líka mjög skemmtilegur og litla systir hann hoppar mjög asnalega. Vinurinn sem býr á elliheimilinu hér á bakvið er mjög klár að hjóla og þeir leika sér í bílskúrnum.
Til að hafa allt á hreinu þá er allt ofantalið helber lygi. En hver þarf aðkeypta skemmtun með svona ímyndunarafl?

laugardagur, febrúar 14, 2009

Jæja...
Ég er alein heima, grísinn í sumarbústað ásamt fríðu föruneyti og hér er ég, að gera akkúrat ekkert.
Alveg er ég hissa hvað mér hefur tekist vel upp með að láta daginn líða við að gera barasta ekki neitt. Þarf aðeins að fara niður í bæ en dunda mér við að láta það vaxa mér í augum og fresta.
Ógisslega næs!!!!

Að öðru...
Flestir vita líklega að helmingur erfðaefnisins sem barnið var búið til úr kemur frá dönsku gimpi. Gimpið hefur staðið sig alveg ljómandi vel í að gera ekkert í bráðum 4 ár. Stundum hefur hann aðeins látið á sér kræla en oftast lítið sem ekkert... Í haust fór þó að berast örlítið meira lífsmark en vanalega og var það mjög hressandi. En eins og gimpa er vona og vísa entist það ekki svo lengi og hefur heldur dofnað yfir manninum undanfarið.
Ég ákvað að þetta gengi nú ekki lengur svo ég sendi manninum póst og hélt mjög hófsama skammarræðu.
Fékk svarbréf skömmu síðar... og guð minn góður, ný met voru hreinlega sett!
Það kom sem sagt uppúr dúrnum að aumingja maðurinn er bara aaaleinn þarna úti að vinna myrkranna á milli til að safna sér fyrir fari til Íslands. Ef hann á að geta komið til okkar volaða kreppulands á næstu 10 árum og jafnvel átt smá afgangs svo hann geti saltað hafragrautinn þá þarf hann að vinna á hverjum degi og þá segist hann vera að meina á hverjum degi.
Hann var líka alveg ægilega fúll yfir því að ég skildi, eins og einhver frekja, ætlast til þess að þegar hann, elsku drengurinn, væri búin að vinna allann daginn þá mundi hann eyða síðustu dropunum í að skrifa emaila þvert yfir hafið.
Það væri hreinlega of mikið fyrir hann. Mér er svo sem velkomið að hringja í hann. En ég þyrfti eiginlega að gera það eftir 11 á kvöldin því þá væri mögulegt að hann væri komin heim úr vinnu. Aumingja greyið karlinn!!!
Svo bað hann mig auðmjúklega afsökunar á því hvað hann væri bitur, þetta væri bara svo erfitt fyrir hann!!!!!
Þvílíkt þjáningalíf sem þessi maður lifir.

Ætli það séu meðlagsgreiðslurnar sem séu að sliga hann svona rosalega? Það eru amk ekki afmælis-, jólagjafir, eða millilandasímtöl.

Hils.

fimmtudagur, janúar 29, 2009

Sonur virðist vera komin á hápunkt þess aldursskeiðs sem einkennist af því að segja eitthvað óviðeigandi. Eða ég vona amk að þetta sé hápunkturinn.
Að fara í sund til dæmis er stundum dálítið vandræðalega fyndið. Oft vona ég bara að fólk skilji ekki óskýrmælta barnið mitt.
Hann benti til dæmis á mann sem var að fikra sig ofan í heita pottinn og tilkynnti mér að þessi væri nú með alveg ægilega stóran maga, ég sagði bara já já og reyndi að eyða umræðuefninu. Ekki tókst það betur en svo að eftir smá stund spurði barnið hvort þessi maður (bent með vísifingri) væri með barni í þessum risastóra maga.
Eftir sundferðina fórum við í sturtu eins og lög gera ráð fyrir. Eftir smástund leit sonur á mig og hálf æpti: Mamma! Þú ert að pissa í sturtuna!
Sem betur fer var engin þarna nema ein kona sem brosti bara huggulega á meðan ég útskýrði fyrir barninu að ég hefði nú aldeilis ekki verið að pissa í sturtuna.
Við erum búin að mæta saman á nokkur mótmæli og nú sönglar hann stundum "vanfrla vikrisvs" og lemur í pott. Þó orðin skiljist ekki þá fer tónfallið ekkert á milli mála. Honum finnst þetta vera einhvers konar hvatningaróp því í morgun sat hann hér útí glugga með málmbox sem hann barði í og kallaði - upp flugvél.

laugardagur, desember 27, 2008

Sjæse hvað jólin eru næs. Ég er búin að gera endalaust mikið af engu. Borða eins og svín og gera ekkert. Barnið er algjörlega með mér í þessu, við hengslumst hérna um og bara höfum það almennt alveg sérlega dásamlegt.
Stúfur er öflugur að leika sér með nýja dótið og klæðir sig annað hvort í náttföt eða nýja fótboltagallann.
Jámm jólin er aldeilis dásamleg. Ekki skemmir fyrir að vera námsmaður á svona tímum og fá svona gott frí.
Ég slysaðist til að búa til konfekt áðan... það var ekki góð hugmynd og nú vona ég bara að það séu einhver takmörk fyrir því hvað maður getur fitnað mikið á einni viku.
Spurning um að troða sér í gallabuxurnar á morgun og vona og biðja að þær passi ennþá.
Ég fékk annars alveg stórkostlega ullarpeysu í jólagjöf. Hún er svo frábær að mig langar ægilega að vera í henni alltaf. Ef ég væri 3 ára þá mundi ég sofa í henni.
Vona að allir hinir hafi það svona ægilega fínt.
Hils Marta og lopapeysan.

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Þetta áhorf olli mér einum mesta kjánahrolli síðari tíma.
Ég ætti kannski að innleiða slökunarstund á les? Við gætum öll tekið dansinn saman í miðjunni .. eða bara ofan á borðum :)
Hils

fimmtudagur, nóvember 27, 2008


Ég er búin að eyða heilli viku í að gera verkefni. Ég er búin að nöldra mikið og hátt yfir því hvað það er leiðinlegt að gera þessi verkefni og að ég vilji miklu frekar eyða tímanum mínum dýrmæta í að læra undir próf. Próf sem nálgast á ógnarhraða og að sjálfsögðu, eins og vanalega, kann ég ekki neitt.
Í morgun skilaði ég umræddum verkefnum. Alltí einu finnst mér hljóma alveg hræðilegt að læra undir próf. Ég sit hér með bækur mér við hlið og kem mér ekki í að opna þær. Ég veit svo vel að þegar ég byrja þá fæ ég eitthvað í líkingu við taugaáfall.
Alltí einu finnst mér verkefnavinnan hljóma bara ljómandi skemmtilega. Gaman að leyta að heimildum og svona.. já ég er orðin klikkkuð.

En mikið ægilega verður huggulegt þegar það koma aðrir tímar og ég hef tíma til að hitta fólk á öðrum tímum en seinnipartinn þegar allt er að fara til fjandans. Kannski ég nýti tímann og hitti fólk sem býr ekki í þessu húsi. Ekki það að vinir mínir hér eru með því betra sem gerist.

Í gær rankaði ég við mér með fingurnar í eyrunum á meðan englabossin öskraði úr sér lifur og lungu. Hann bað mig um að binda hnút á blöðruna og þegar ég var búin að binda hnútinn skipti hann um skoðun - hann vildi s.s. ekki hafa hnút.
Mér fannst besta hugmyndin að þegja bara á meðan hann lét eins og ég hefði rústað ævistarfinu með einni athöfn.
Stundum, ok dálítið oft, langar mig að fara inn á bað, setja í mig eyrnatappa og loka. Gefa bara skít í þetta. Jákvæði punkturinn er þó að þetta er bara tímabil og tímabil hafa sem betur fer þann eiginleika að þau taka enda.
Jæja.. Tölfræðin bíður öll spennt og ég sé á bókinni að hún er að verða óþolinmóð.