laugardagur, desember 29, 2007

Allt eins og það á að vera. Búin að vanda mig mikið við að verða ekki svöng og brenna ekki fitu. Lifi eins og kreppa sé í aðsigi og enginn sé morgundagurinn.
Jólin búin að vera yndisleg. Ég og barn alltaf saman og það er gaman. Enginn (leik)skóli, ekkert sem truflar okkur saman.
Jólaboð skemmtileg og allt bara gaman.
Nú sefur hann á sófanum og ég horfi á sjónvarp án samviskubits.

miðvikudagur, desember 19, 2007

ég get svo svarið það að tíminn líður álíka hratt núna og ágúst 2005. Ég nenni ekkert að læra, ég vil bara að þetta sé búið.
Komin með alveg nóg af þessu öllu saman og mig langar að hætta að vera svona leiðinleg. Mig langar í jólafrí.
Þegar ég hitti fólk þá er ég leiðinleg. Ég hef ekkert að segja vegna þess að ég geri ekkert. Ég er búin að segja nokkrum frá nýjustu uppgvötunum mínum, þær eru samt ekkert svo spennandi.
Sumar fjalla um bakteríur sem drepast ekki við suðu og valda einhverjum hryllingsjúkdómum, eða af hverju maður á ekki að borða hor.
Eða kúkabakteríur.
Ef ég er nógu dugleg að læra þá gætum við rætt um muninn á krónísku og bráðu bólgusvari. VÚHÚ segi ég nú bara..
Þetta blogg átti að vera ein setning.
Jæja þið, vonandi ekki svo mörgu, sem eruð ennþá prófum getið glaðst yfir einhverju nýju að lesa.
Gangi okkur vel.

sunnudagur, desember 16, 2007

Það er svo skrýti að maður hugsar út frá allt öðru sjónarhorni þegar maður er orðin fullorðið foreldri. Ég var að hugsa um húsið á Hlíðarveginum. Húsið sem var mér allt lífið einu sinni og var lengi vel risa hluti af mínu lífi og lífi margra annarra.
Ég man eftir stiganum uppá loft. Ég gat hlaupið svo hratt niður hann ef ég svona hálf renndi mér, ég bjó til ógurlegan hávaða en það var alltí lagi - það var gaman og ég fór hratt. Nú get ég ímyndað mér að amma hafi fegnið taugaáfall í hvert sinn sem hún heyrði mig bruna niður brattann stigann.
Ég man eftir því þegar ég prófaði að strauja tölurnar á smekkbuxunum, bara til að athuga af hverju maður þarf að strauja í kringum tölurnar - þær sprungu í marga bita.
Ég man eftir stiganum niður í kjallara, hann var undir súð og slökkva/kveikja takkinn var í loftinu efst í stiganum. Ég man þegar ég var svo lítil að ég þurfti að láta mig detta fram og á takkann til að kveikja. Hjartað mitt hoppar uppí háls af tilhugsuninni um drenginn leika slíkar listir.
Ég man eftir litla eldhúsinu uppi sem var með skápa fulla af alls konar og frystikistu sem innihélt iðulega ís. Þar var líka hansnúið straujárn sem var ógurlega spennandi.
Ég man eftir litla búrinu uppi þar sem amma faldi nammi og páskaegg. Ég man eftir öllum ævintýrunum í skápnum hans afa og gömlu myndunum.
Ég man mjög vel hvernig það var að labba Hlíðarvegin og finna lyktina af hádegismatnum og vona að góða lyktin kæmi frá minni ömmu.
Ég man þegar afi svaf í sófanum niðri svo ég gæti sofið uppí hjá ömmu.
Það var ekkert svo slæmt að vera lítil stelpa í stóra húsinu hjá afa og ömmu.
En nú þarf að læra á meðan lítill strákur býr sér til minningar í stóru húsi hjá afa og ömmu.

föstudagur, desember 07, 2007

Próf gera mann geðveikan frh.
Ég braut bolla í gær þegar ég var að hlaupa út, mundi ekki eftir því fyrr en ég var byrjuð að læra um kvöldið og skildi ekki hvað ég var alltaf að stíga á.
Í dag tók ég óhrein glös sem búið var að stafla saman og reyndi að setja þau ofan í skúffuna þar sem hreinu glösin eru. Auðvitað varð allt í skúffunni skítugt og nú eru ekki til nein hrein glös.
Áðan reyndi ég að færa til bendilinn á tölvunni með því að renna fingrunum eftir dúknum á borðinu...
jább ég er að missa það .. hægt og rólega rennur vitið inní lífeðlisfræðibókina. Krípí ekki satt?

miðvikudagur, desember 05, 2007

Lærdómur gerir mann gjörsamlega geðveikan.
Það er eitthvað við þessa önn sem er svo óyfirstíganlegt og erfitt, mér líður eins og ég sé ekki búin að líta í bók í allann vetur, og hvað þá fylgjast með í tíma.
Núna sit ég hér og læri. Eða hvað...
Ég skoða hi-mailið á ca 5 mín fresti, fannst alltí einu voða líklegt að ég fái póst á kvöldin. Hver sendir mér póst? Enginn.
Ég skoða bloggið mitt og alla linkana og alla linkana þeirra svona einu sinni á klukkutíma. Alltaf sömu vonbrigðin yfir því að ekkert nýtt sé búið að gerast. Takk Ynja fyrir að blogga í dag.
Ég skoða mbl svona tvisvar á hverjum klukkutíma og fer í fýlu ef enginn er búin að blogga við fréttirnar sem ég skoða. Ef einhver er búin að blogga þá les ég það og nokkra af linkum viðkomandi.
Síðast en ekki síst.... Barnalandið. Jámm það er það eina sem sjaldan svíkur. Það er alltaf komin ný umræða eða einhver nýr búin að svara gamalli umræðu. Ég áttaði mig samt á því að ég væri líklega komin yfir strikið þegar ég stóð mig að því að rökræða um fæðingarorlofs-lengd hjá fjölburaforeldrum. Eins og það sé mér eitthvað hjartans mál. Nei mér er eiginlega alveg sama.
Jæja... þá er komin tími til að fara að sofa eða eitthvað..
blagh

sunnudagur, desember 02, 2007

Prófin nálgast og jólin með.
Ég er búin að vera fáránlega öflug í kökubakstrinum. Verst er að ég bara fæ ekki nóg af því að éta kökurnar. Flestir sem ég þekki fá ógeð eftir eitthvað smá magn. En ekki hún ég, ónei. Ég ét og ét og ét.
Í gær bakaði ég dýrindis kókos-haframjöls kökur, eftir bakstur var svo suðusúkkulaði smurt undir kökurnar.
Þetta eru ss smákökur drauma minna. Ég er næstum því búin með þær ALLAR! Alein. Jósafat hefur undarlegan danskan matarsmekk (vill borða endalausa skinku) og borðar ekki kökurnar fínu. Svo ég get ekki einu sinni kennt honum um græðgina.
Ég er orðin frekar vonlaus með þetta allt saman svo núna ákvað ég að endurraða í ísskápinn. Mandarínurnar eru fremst en kökurnar eru vandlega faldar á bakvið. Ég raðaði káli, tómötum, gúrkum og fleiri matvælum samviskusamlega í virki í kringum kökurnar.
Sjáum til hversu lengi þetta varir. Núna ælta ég að fá mér eina mandarínu.

mánudagur, nóvember 26, 2007


10mín í að heimapróf opnist og hér sit ég og bíð þess að vitneskjan detti inní kollinn á mér. Er með headphones til að hjálpa til við að auka flæðið.

Það sem mig langar að gera núna er að hanga, skreyta, bjóða í kaffi, baka, þrífa, jólast, kaupa.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Stundum virðist ég bara ekkert vita. Ég bara geri eitthvað sem er ekkert sniðugt og skil svo ekki neitt í neinu.
Á laugardaginn fór ég út .. fór í hressandi partý og það var voða gaman. Kynntist gömlum nágrönnum og talaði mig hása. Varð hissa og hafði það gaman.
Fór út... og síðan ekki söguna meir.
Amk ekki sögur sem eru til frásögu færandi. Kom heim seint og um síðir. Eyddi deginum eftir í nánari kynnum við flísarnar á baðherberginu en ég kæri mig um að ræða.
Fannst ég mjó á mánudaginn og svei mér þá ef ekki endurnærð til að takast á við skólaverkefni.
Þess vegna sit ég núna og geri verkefni um bráðarugl. Kannski þjáðist ég af bráðarugli á laugardaginn. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið að koma úr aðgerð.
Ja... maður spyr sig.

Annars sá ég ótrúlegt sár í dag. Fannst það ekkert ógeðslegt og varð eiginlega bara dónalega æsta af áhuga og spenningi. Maður sá sko beinið og allt.
Ég fann líka gjörgæslulykt og fann alltí einu að þarna var komin spítalalyktin sem mér finnst svo góð. Ég vandaði mig við að anda djúpt og mikið á meðan ég staldraði þar við.
Ætli ég sé ekki á réttri hillu þó sum verkefnin séu leiðinleg og ég ekki nógu dugleg að læra? Jú ég held það...
Yfir.

miðvikudagur, október 24, 2007

Camper.
Í dag tókst mér loksins að fara með fínu fínu skóna mína til skósmiðsins. Er búin að hlakka mikið til að láta gera við þá og fá þá aftur til baka heila og fína.
Á nokkrum sekúndum urðu vonir mínar að engu. Skósmiðurinn tróð penna í gegnum ein samskeytin á skónum og tilkynnti mér um leið andlát þeirra.
Hann stækkaði ekkert gatið með pennanum heldur var það svona stórt fyrir. Sagði mér að þegar það væru komin svona göt á skó þá væru þeir ónýtir.
Hann sagði mér líka að hann gæti alveg gert við þá en það kostaði 5þús. En mælti ekki með því. Ég reyndi að malda í móinn með því að beita þeim rökum að skóparið kostaði 13þús svo ég væri í raun að græða. Hann neitaði alveg að trúa því og sagði mér að kaupa nýja skó.
Að lokum sættumst við á það að gömlu skórnir fengju að deyja með reisn. Þeir verða framvegis einungis nýtt þegar þurrt er í veðri.
Eruð þið að sjá það fyrir ykkur? Að það verði einhvern tíma þurrt aftur? Hvernær ætli komi nógu mikill þurrkur til að ég geti farið út í uppáhaldsskónum? Á næsta ári kannski ?
Núna verð ég konan sem er alltaf í gönguskóm. Alltaf.
Áður átti ég nóg af skóm, svo fer eitt par til fj.... og nú á ég alltí einu enga skó.
Ég á reyndar converse skó - með gati á botninnum. Ekki vatnsheldir.
og einhverja striagskó sem eru úr striga - ekki vatnsheldir.
Jæja það eru gönguskórnir góðu.
Eina sem kemur gott úr þessu er að ég neyðist til að kaupa mér nýja skó! Gjörsamlega neyðist - og ætli ég verði ekki að kaupa mér rándýra camper skó? Það voru jú þeir sem eyðilögðust. Þeir eru altmugligt skór svo að tæknilega séð borga þeir sig :)

Jæja.. best að halda áfram að skoða sár og sárabotna. Heillandi.

laugardagur, október 13, 2007

Jiminn eini hvað það er hroðaleg mynd í sjónvarpinu.

Mér finnst stundum svo magnað hvað margt hefur breyst. Allt hefur breyst. Samt eru bara þrjú ár síðan. Þrjú ár eru svo stuttur tími. Samt alveg heil eilífð.
Í sumar hitti ég mann í vinnunni. Hann þekkir mig frá öðrum tíma, frá mun skrýtnari tíma fyrir löngu síðan. Það var dálítið gaman. Svolítið svona "þetta gat ég".
En jæja já....

Svo spái ég stundum alveg ótrúlega mikið í útlendingnum sem á heiður skilinn fyrir þátt sinn í þessum breytingum.
Það er stundum svo skrýtið að vita bara ekkert um hann en vera þó með svona stóran hluta af honum hjá mér.
Útlendingurinn virðist vera alveg sérlega hógvær þar sem það heyrist hvorki hósti né stuna úr þeirri áttinni. Það væri bara svo gaman að vita eitthvað aðeins meira, eiga myndir og vita eitthvað hvaðan hann kemur. Er það hann sem á þessar stóru fætur? háu kollvikin? ... það er svo margt fleira.
Mig vantar alveg nokkra bita í púslið.

Að öðru... í framtíðnni verður 13 okt frátekinn sem afmælisdagur lítillar stelpu sem fæddist í nótt. Ég hlakka til að kynnast henni.

update 14/10 : í hyldjúpum internetsins fundust þónokkrir bitar í umrætt púsl. Fleiri en hafa sést áður. Hressandi.

mánudagur, október 01, 2007

jæja já...
Á fimmtudaginn komst ég að því að netið heima hjá mér var ekki til staðar lengur. Ég varð vægast sagt pirruð. Hringdi í RHI og komst að því að tölvan mín hlyti að vera að gera mér einhvern óleik.
Fiktaði í greyinu fram og til baka og ekkert gerðist.
Ég sá mér þann kost vænstan að taka bara til, elda mat, tala við barn og læra.... það var sem sagt það sem ég gerði um helgina.
Reyndar hljóp ég á lessstofu í korter, hentist á netið og fannst ég eiga allann heiminn.
Ekkert bólað enn á netinu í morgun svo ég ákvað að hringja aftur í RHI.
Þá kom í ljós að ég var ekkert sú eina sem hringdi. Ég var bara svo óheppin að vera sú fyrsta.
Tölvan mín átti sem sagt ekki skilið allt fiktið.
En við Jósafat áttum huggulega helgi.
Hann virðist samt vera að sigla inní eitthvað "terrible two skeið". Kannski ekkert svo terrible en þó dálítið svona stundum.

Mæðgin hjóla hamingjusöm af stað - móðir hjólar og barn situr í nokkurs konar kerru aftan á. Voða náttúruvænt og almennt huggulegt.
Væl heyrist aftan af hjóli.
Jósafat: teppi.
Mamman stoppar hjólið: viltu teppið?
Nei....
Á ég að taka teppið?
Nei...
Hjóla aftur af stað...
væl.. "TEPPI" væl...
hættu að væla - notaðu venjulegu röddina!
Teppi!
viltu hafa teppið á fótunum?
jaaaaá. (sagt í "já auðvitað ég var ekki búin að átta mig á því" tóni)
ok.
Hjólum aftur af stað.

laugardagur, september 15, 2007


Stundum rífast þau og slást. Stundum sitja þau og syngja himneskt "afi minn og amma mín" og hann spilar undir á ukuleleinn. Stundum brasa þau saman og stundum eru þau algjörir búðingar sem hella niður og sulla í klósettinu.
Fyrst og fremst eru þau samt vinir og þau eru dásamlegust.
Flutt.
Jámm ég er flutt í alveg ótrúlega mikið huggulegri íbúð. Það geta meira að segja alveg fleiri en einn komið í heimsókn án þess að fólki líði eins og það sé í einhvers konar "troða inní skáp" keppni.
Mér finnst íbúðin bara alveg frábær, mér stendur meira að segja algjörlega á sama um ljótan gólfdúk og þá staðreynd að það þurfi að skipta um rúðu í svalahurðinni og mála svalirnar.
Allt er æði. Voða huggulegur panell í loftinu. Mikil lofthæð sem lætur manni líða eins og það sé miklu meira pláss. Eldhúsið stúkað af. Tengi fyrir þvottavél og þurrkpláss á baðherbergi.
Ég hefði aldrei trúað því að það væri svona mikill munur á 10 fermmetrum. En jú... það munar bara alveg öllu.
Við erum sem sagt alveg agalega hamingjusöm núna með nóg pláss.
Eina sem angrar mig í bili er að ég það virðist einn kassi/poki eða eitthvað hafa týnst. Mig vantar alveg slatta af dóti og ég get ómögulega munað hvar ég pakkaði því niður eða hvar það gæti verið niðurkomið.
Vona bara að það sé ekki í sorpu.

sunnudagur, september 09, 2007

Sumir dagar... kannski meira við hæfi að segja sum kvöld því dagurinn var fínn.
Á þriðjudaginn þarf ég að flytja. Á föstudaginn þarf ég að skila núverandi hýbýlum af mér skínandi hreinum.
Eins og áður hefur komið fram byrjar barnið á nýjum leikskóla á morgun og verður þarf af leiðandi meira og minna heima þessa vikuna.
Ég er rétt búin að þrífa eldhúsinnréttinguna. Eða ég er búin að þrífa einhverja skápa - á ennþá eftir þetta skítugasta, eldavélina, pottaskápinn og ísskápinn.
Mér reiknast til að ég eigi eftir að þrífa skápana inní svefnherbergi, baðherbergið eins og það leggur sig og veggi í stofu/eldhúsi.
Einnig á ég eftir að bóna gólfið.
Auðvitað á ég líka eftir að pakka slatta niður.. en ég er að vona að það taki ekki mikinn tíma þar sem ég er búin að pakka þessu allra leiðinlegasta, á bara föt og baðherbergi eftir.
Í kvöld vildi barnið ekki fara að sofa og ég hafði ekki tíma í að lúra hjá honum endalaust svo þetta endaði með ekkasogum og rúmum tveimur tímum af mismunandi miklu grenji.
Yfirleitt er þetta ekkert mál en þegar það er svona mikið að gera þá væri alveg fínt ef það væri einhver hér sem ég gæti sagt við:"heyrðu nenniru aðeins að sinna honum á meðan ég tek til". Eða ef einhver gæti séð um einhvern hluta af leikskóla aðlöguninni á meðan ég mætti í skólann. Eða einhvern sem væri heima á meðan ég færi hingað að taka til og bóna.
Ég veit alveg að það er fullt af fólki með fleiri börn en ég en það er ekki þar sem sagt að það geri málin eitthvað auðveldari fyrir mig.

Æji bla ég ætla að láta eitthvað verða úr þessu kvöldi og fara bara að sofa... Á morgun er svo hægt að byrja uppá nýtt á betri veg.

föstudagur, september 07, 2007

Allt að gerast.
Tveggja ára afmælið er löngu búið. Drengurinn gerði móður sína óendanlega stolta með því að vera jaft ótrúlega frábær og hann er. Í marga daga hugsaði ég um það hvað ég ætlaði að skrifa langt og væmið blogg til heiðurs honum.
En jæja þetta er nú alveg nóg.
Skólinn er byrjaður á fullu og tölvan mín notaði tækifærið til að gefa frá sér síðasta háværa viftuhljóðið. Ég rauk til í fljótfærniskasti og keypti nýja tölvu.
Æji voðalega er þetta eitthvað leiðinlegt. Hef ekkert að tala um nema eitthvað sem mun hljóma eins og upptalning á hverjum atburðinum á fætur öðrum.
Við skulum bara hafa þetta eins og það er og vera ekkert að þykjast vera skáldleg.
Í næstu viku flytjum við í stærri íbúð.
I næstu viku mun barnið byrja á nýjum leikskóla
Um síðustu helgi týndi ég veskinu mínu, í gær fannst það.
Um síðustu helgi var ég konan sem dansaði eftir lokun. Úff.
Núna ætla ég hlusta á hjal og mas um örverur og sýkla.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Jæja. Rúmlega 3 dagar í tveggja ára afmæli.
Ég er búin að hlakka mikið til að halda þessa veislu en það er líka alltaf búið að vera voða langt í hana. Alltí einu áttaði ég mig á því að þetta er allt að bresta á og dreif mig í að bjóða fólki. Það gekk nú barasta ljómandi vel.
Ég fór líka í Bónus, gleymdi innkaupalista en verslaði svona það sem mér datt í hug að þyrfti að eiga fyrir afmælisveislu. Í kvöld ákvað ég svo að byrja á að baka skinkuhorn. Getur ekki verið svo mikið mál. Byrjaði samt ekkert svo vel þar sem ég komst að því að ég átti hvorki hveiti né egg og meira að segja eitthvað lítið af mjólk. Nú spyrja sjálfsagt einhverjir hvað ég hafi keypt í bónus. Ég keypti helling. Bara ekki aðal dótaríið.
Fór í 10/11 og reddaði því. Kom aftur heim og hófst handa við baksturinn. Þetta byrjaði allt voða vel, barnið tók virkan þátt og mér fannst þetta allt voða rómantískt.
Svo kom að því að búa til horn úr þessu deigi. Það er skemmst frá því að segja að ég hreinlega gat það ekki. Þau urðu of lítil, of stór, of breið eða bara of eitthvað. Þarna er það sem hæfileika mína vantar. Að skapa form úr einhverju sem er ekki í formi.
Jæja ég setti ófögnuðin inní ofn.
Að lokum hringdi ég í Svölu skinkuhornameistara og bað hana um að bjarga afmælinu.
Skinkuhornin mín eru hér hjá mér ennþá en það er bara vegna þess að ég er að manna mig uppí að henda þeim í ruslið.
Nú sný ég mér að maregnsnum :)
Gangi mér vel.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Næturvakt.
Ætlaði mér aldeilis að hafa það huggulegt ásamt Múbbanum og fleiri gömlum vinum sem hafa ekki sést lengi. Múbbinn festist svo í heyskap og ég á nætuvakt. Átti engu að síður ágætis kvöldstund með sófanum góða og vinum mínum sem sinna erfiðu og krefjandi starfi á bráðavakt í Chicago. Mín vakt er ekki eins hádramatísk.
Mig langar agalega að skrifa margt og mikið. Því miður virðist vera eitthvað fátt um fína drætti í heilabúiniu eins og stendur og engin sérstök vitneskja sem vellur þaðan út.
Kannski ég fari bara að lesa einhvern áhugaverðan fróðleik.
Hils.

Viðbót.
Í nótt er ég búin að skanna barnaland. Ég veit að maður á ekki að gera grín að minni máttar en í skjóli nafnleyndar verð ég bara að gera smá grín að ensku kunnáttu þessarar stúlku sem leitaði sér aðstoðar á beibílandinu:
"Hello i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray :) I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007. One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003. Are something wrong this toy or????? What can I do?? Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better???? "

Einhver óprúttin aðili var óforskammaðri en ég og snaraði þessu yfir á íslensku. Smá útúrsnúningur en mjög hressandi:"Halló,Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????"

Ég þurfti að vanda mig svakalega við að halda andliti og missa mig ekki í einhvers konar geðsýkis-svefngalsa hláturskast.
Yfir

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Sumum finnst voða leiðinlegt að lenda í úrtaki hjá Gallup. Einhvern vegin hefur mér alltaf fundist það vera voða spennandi. Finnst yfirleitt eins og ég hafi unnið vinning þegar mér er tilkynnt að ég hafi lent í úrtaki. Verð sem sagt voða spennt og æst í að taka þátt.
Þess vegna gat ég ekki afþakkað áðan þegar ég fékk hringingu frá umræddu fyrirtæki. Jafnvel þó ég væri á kaffihúsi með vinkonu minni, góðri vinkonu sem ég hitti sjaldan. Ég hafði í raun ekki tíma en svaraði samt. Í ljós kom að könnunin var um viðhorf til vínbúða.
Einu sinni verslaði ég oft vín. Mér til mikillar furðu komst ég að því að ég man ekki hvenær ég keypti síðast eitthvað í vínbúð. Ég gat ómögulega gert upp við mig hvað mér fannst mikilvægast; viðhorf starfsmanna, næg bílastæði, nálægð við matvörubúð, vöruúrval eða umhverfi verslunar. Var ógurlega mikið að vandræðist með hvernig ég ætti að raða þessu í röð eftir mikilvægi. Spurning um að taka könnunina of hátíðlega?
Eftir allt saman var þetta bara dálítið erfið skoðanakönnun þar sem ég hafði enga skoðun á umræddu máli.
Svo endaði þetta með tekjuspurningum í lokin og þá verð ég alltaf dáldið bitur, enda alltaf í lægsta flokknum.
Yfir

sunnudagur, júlí 29, 2007


Þið sem áttuð afmæli í dag, til lukku.
Í kvöld borðaði ég grillmat og drakk rosalega mikið af alveg svaðalega góðu kaffi. Kaffi var svo drukkið í ennþá huggulegra eldhúsi í mjög skemmtilegum félagsskap.
Ég er ennþá barnlaus. Ég er ekki að fara að vinna í fyrramálið. Ég nenni ekki að fara út. Ég er svo fullorðins.
Fékk nýtt sjónvarp og er núna að njóta lífsins með fjarstýringu sem hægt er að nota til að hækka og lækka :) úúúú... tækni tækni. Nú eru komnar tvær fjarstýringar á heimilið.
Barnið er enn í útlegð og mamman farin að hlakka mikið til mánudagsins þegar barn verður sótt í sveitina. Frétti í dag að ný bókahilla ömmunnar væri farin að bera þess merki að lítill strákur hafi fengið útrás fyrir listræna hæfileika sína.
Ég hlakka til í fætinum.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Það er gaman að hitta fólk og tala og tala og tala og tala. Fór í einhvern ham á kaffihúsi í dag, talaði og hlustaði mikið. Var þá einhvern vegin komin í gírinn og hef ekkert stoppað síðan. Ég vona að samstarfsfólk mitt sé ekki með varanlegt suð í eyrunum eftir malið í kvöld ;)
Ég er bara að vinna með svo ótrúlega frábæru fólki að það bara er ekki annað hægt en að spjalla mikið þegar tími gefst.
Í dag gafst tími.
Mér finnst deildin sem ég vinn á alveg frábær. Þar er frábært fólk, frábærir stjórnendur og þar af leiðandi alveg frábær mórall. Vel mannað og skemmtilegt. Til dæmis er mjög algengt að fólk mæti aðeins fyrr á vakt til að spjalla. Það finnst mér gaman.
Jább ég er heppin að ég réð mig þarna, ég hefði alveg getað ráðið mig á stað þar sem mannekla er mikil og mikið álag á starfsfólki. Æji ég nenni því ekki aftur alveg strax.
Komst að því í gær að skólinn byrjar 23 ágúst. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það heldur snemmt. Það tók mig svona 3 tíma að sætta mig við það en núna veit ég að þetta verður gaman.
Samt er ekkert svo gaman að hafa barnið í útlegð á landsbyggðinni. Þó þetta sé ekki langt í burtu eða langur tími þá er dálítið mikið leiðinlegt að hafa hann ekki til að brasa með.
En koma tímar.

föstudagur, júlí 20, 2007
Við erum alveg agalega huggulegar.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Barnið er að fara í útlegð á morgun. Af því tilefni voru allar skúffur opnaðar og fötum fleygt í tösku. Tvisvar sinnum hefur barnið fengið sokka pakka að gjöf, hvort pakki innihélt 7 pör af sokkum, merktum vikudögunum. Þegar ég var að pakka niður tókst mér að grafa upp 6 pör af samstæðum sokkum. Þar af tvö pör sem eru ekki hluti af umræddum sokkapökkum.
Hann æfir ekki íþróttir og fer ekki einn í sund.
Hvar eru allir hinir sokkarnir?

föstudagur, júlí 06, 2007

Langt síðan ég var síðast á næturvakt. Þetta er bara alltí lagi. Þrátt fyrir að ég hafi eytt deginum í að umturna íbúðinni minni í stað þess að sofa.
En í fyrramálið fer ég heim að sofa, það verður ljúft. Svo hlýt ég einn góðan veðurdag að fá greitt fyrir vaktina. Það verður ennþá betra.
Æji það er ekkert svakalegt að gera núna í bili og ég er að reyna að láta tímann líða. Er búin að skoða allt sem ég get skoðað í svona heiðarlegri tölvu.
Kollegi minn er horfin af kaffistofunni, kannski er hún að vinna... nei þarna kom hún svo ég get haldið áfram að hanga.
Skemmtilegt blogg? nei ég held ekki.
Heimskulegt blogg skrifast á asnalegan tíma. Get ég hjólað heim?
05:21 segir tölvan.

þriðjudagur, júní 19, 2007


Í dag fékk ég að vera viðstödd þegar settur var gangráður í manneskju. Mér fannst það alveg ógeðslega gaman.
Ég var meira að segja með fiðrildi í maganum og leið einhvern vegin eins og ég væri að horfa á einhverja alveg frábæra bíómynd. Sem betur fer var ég með grímu á andlitinu sem faldi heimskulega "vá" svipinn sem ég var með allann tímann.
Svo var ég með kjánaglott það sem eftir var dags. Mig langaði að hoppa og segja VÁ! Mig langaði líka að fara til sjúklingsins og segja honum hvað aðgerðin hans var frábær. En ég gerði það ekki.
Mig langaði að tala ógeðslega mikið um aðgerðina. Ég reyndi nú samt að halda smá kúli og talaði bara mikið um eitthvað annað.
Jess ég fæ alveg fiðrildi í magann af því að hugsa um þetta. Jæja ég er amk ekki á villigötum í náminu mínu.
Ekki í bili.
En í dag er húsið búið að vera fullt af gestum og ég eldaði mat og allir voru kátir. Reyndar bara örlítð að á slagsmálum og öskrum og einn klemmdi sig pínu. Ég er heldur ekki frá því að einn barnadiskur liggi í grasinu fyrir neðan svalirnar mínar. Svo er líka allt í krömdu grænmeti á svölunum. Tveir enduðu svo daginn sinn sofandi á sitthvorum sófanum, rjóðir í kinnum.
Huggulegt.

sunnudagur, júní 10, 2007

Í gær verslaði ég mér hamingju í formi nýrra fata. Nú þarf ég nauðsynlega að eignast fleiri föt svo ég getið notað nýju fötin meira.
Núna sit ég í ljótasta náttslopp í heimi, fersk og endurnærð eftir helgina. Nýbúin að senda hate-mail á þjónustufulltrúann í bankanum.
Kannski kemst ég bráðum í klippingu.

föstudagur, júní 08, 2007

Ein ég sit og sauma ekki.
Það er svo mikið drasl heima hjá mér að ég nenni ekki einu sinni að vera hérna.
Vinnulífið er ótrúlega spes. Mér finnst mjög gaman í vinnunni og ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og ég hugsa að það muni halda svoleiðis áfram út sumarið. Það er svo margt sem ég veit ekki og það er svo gaman. Stundum fer samt pínu í taugarnar á mér hvað ég þarf að spurja mikið. Aumingja fólkið sem sé mig nálgast með spurningu númer 18hundruð á vörunum. Bara þann daginn.
En já .... það er svolítið bras að ná að gera allt sem þarf að gera á daginn. Við hendumst á fætur rúmlega 7 og barnið er mætt á leikskólann kl 7:45. Þá hjóla ég eins hratt og ég get í vinnuna og reyni að vera komin inná deild kl 8:00. Það gengur svona misvel og eins og gefur að skilja er mér oft mjög heitt fyrsta klukkutímann. Ég búin að vinna kl 15:30, þá hjóla ég heim og sæki barnið á leikskólann. Svo þarf að elda mat, taka til og jafnvel stundum versla eða bara hitta fólk. Yfirleitt er bara hægt að gera hluta af verkunum. Þegar barnið er komið í rúm þá leggst ég bara í sófann. Svo sef ég þar eins og gamalmenni þangað til ég fer inní rúm.
Ég vona að ég venjist þessu einhvern tímann og fái meira vökuþol. En á meðan það er að gerast er þvotturinn ekki samanbrotinn, vaskurinn er fullur af uppvaski og það er best að vera annað hvort berfættur (skíta ekki út sokkana) eða í skóm (sama og hinn sviginn).
Ég er ekki nógu skipulögð.
Ég gæti nú alveg drukkið kaffi.

föstudagur, maí 25, 2007

Sumarið var ágætlega planað.
Ég var búin að hugsa mér að hjóla í vinnuna á hverjum degi, borða hollann mat í hádeginu og verða ótrúlega fit í lok sumars. Ég hlakkaði til að fara að vinna á vinnustað þar sem er ekki brauð í hvert mál. Þær væntingar hafa svo sem alveg staðist, það er ekkert mikið um brauð-át.
Á þriðjudaginn borðaði ég bara hollt þangað til ég fann póló kexið í neðstu skúffunni. Ég át svona 10 kex. Ok ég get nú alveg lifað við það.
Á miðvikudaginn kom ein samstarfskona mín með fullann dall af mini nammi. Snickers, mars, caramel og maltersers var á meðal kræsinga. Ég átti bágt með mig og át alveg mörg.
Í gær kom einhver góðhjartaður fyrrverandi sjúklingur með alls kyns tegundir af smákökum og súkkulaði í fallegu bréfi. Auðvitað varð ég að smakka allar tegundirnar.
Í dag er föstudagur og þá koma bakaríiskræsingar í morgunmatnum. Svo var lítið að gera svo ein (flugstjóramamman) bakaði bestu pönnsur í heimi og þeytti rjóma með. Ég stóð mig nú nokkuð vel og borðaði bara 3.
Þess má geta að deildin státar af dýrindis kaffivél. Svona vél sem hellir uppá einn bolla í einu og í hana er einungis sett eðal kaffi. Svo kræsingunum var sporðrennt með góðu cappucino.
Svo sjáum við bara til hvernig ég verð í lok sumars.
Ég hjóla allavega í vinnuna.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Við mæðgin áttum mjög huggulega frídaga saman. Við dunduðum okkur við að hitta fólk og vera saman. Um helgina fórum við í skírn Úlfs Esra. Að sjálfsögðu mjög falleg athöfn og veitingarnar alveg dýrindis. Ég er ennþá að hugsa um hvað allt var gott og hvað mig langar í meira. Það lýsir kannski betur sjúkleika mínum heldur en gæðum veitinganna.
Nú er ég orðin vinnandi kona.
Það var gaman að mæta í vinnuna í morgun. Reyndar leið mér frekar kjánalega þar sem ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að vera. Þetta endaði svo allta saman vel enda svo mikið indælisfólk sem ég er að vinna með.
Mér finnst líka gaman að vera í vinnunni og horfa á hina sem eru búnir að læra meira og hugsa um það hvað ég hlakka til þegar ég verð búin að læra meira.
Þá get ég skipulagt, mælt og potað meira.
Ég hlakka ógurlega til að eyða sumrinu þarna og læra fullt fullt fullt. Það verður líka hressandi að fá smá pening, pening sem er ekki yfirdráttur.
Mikið rosalega er huggulegt að þurfa ekki að læra á kvöldin. Ekkert samviskubit.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Jæja..
Prófin loksins búin og ég búin að fagna á sérstaklega viðeigandi hátt. Hitti skemmtilegt fólk og talaði frá mér allt vit. Drakk skot þangað til ég var dofin í munninum og undir lokin fann ég mig drekkandi tequila úr rauðvínsglasi, milli þess sem ég sýndi kunnáttu mína í ólympískum hnefaleikum. Mjög hressandi.
Ég fór meira að segja út í pilsi, með maskara og púður! Mér fannst ég alveg ógeðslega skemmtileg og hress :)
Dálítið spes að sitja núna heima og engar skyldur hvíla á mínum herðum. Ég gæti alveg tekið til en .... bla.. einhver sagði mér að skíturinn fer ekki neitt á meðan ég hangi.
Á mánudaginn grillaði ég líka bóg. Grillaði er kannski of vægt til orða tekið, ég kveikti í bóg, svo mikið að ég þurfti að hafa mig alla við að slökkva í honum. Það komu meira að segja svartir blettir á tréhillurnar á grillinu.
Þarf ég að segja frá því að bógurinn var ekkert sérstaklega góður, sveppirnir voru samt æði. Maísstönglarnir mistókust líka.
Er ég að segja frá þessu?

Barnið kom svo frá pínulitla útlandinu í dag og nú eigum við framundan nokkra daga saman í fríi áður en alvara lífsins hefst og ég styng mér í djúpu laugina í fyrsta skipti á nýjum vinnustað.
Dekraða barnið sefur nú hér í sófanum því mig langar að horfa á hann aðeins lengur en mig langar líka að horfa á sex and the city.

Jæja Marta, þegiðu nú.

laugardagur, maí 12, 2007

Sumt fólk hefur bara áhuga á sínum eigin rassi. Fjasar endalaust um sín vandamál, sína sigra og sitt líf. Spyr kannski eitt auganblik - ertu hress? Maður kemur ekki útúr sér óbrenglaðri setningu því það er gripið frammí og ekkert kemst að nema eitthvað sem gerðist í umræddum rassi.
Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessu mikið lengur eða hvort mér finnst umræddur rass svona ógurlega merkilegur.
Nei.

mánudagur, maí 07, 2007


Það saxast á blessuð prófin. 3/5 búin og búið að ganga svona ágætlega.
Fyrsta sinn sem ég er með barn í prófum. Það er dáldið erfitt.
Það mundi vera óyfirstíganlegt ef ég ættti ekki svona góða vini sem hjálpa mér. Sumir hjálpa mér með því bjóða Hirti í heimsókn og aðrir hjálpa mér með því að veita mér (okkur) félagsskap þegar ég er ekki að læra. Þið vitið hver þið eruð
Svo þegar allt kemur til alls þá er þessi prófatími búin að vera huggulegur.
Það er gott að eiga góða að.

sunnudagur, apríl 29, 2007

Ég man þegar ég var minni. Ég sat á stórum steini uppi í brekku undir fjalli. Það var sól og ég var svo ótrúlega sátt við að ég hafði fundið mold sem var akkúrat rétt samsett. Akkúrat nógu blaut og nógu þétt til að búa til kökur. Mér fannst ég vera svo ógurlega heppin að hafa fundið akkúrat þessa mold. Mér fannst moldin vera töframold og ég var eiginlega alveg viss um að álfarnir hefðu gefið mér hana.
Ég man að það var nýtt sumar. Þá var ég ekki í prófum.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég er komin með svo mikið ógeð af frumum og öllum þeirra líffærum, göngum, próteinum, himnum, boðberum, jónum og ......
*ríf í hár*

sunnudagur, apríl 22, 2007

Prófin nálgast.
Ég er loksin byrjuð að lesa fyrir próf. Að sjálfsögðu kemst ég heldur hægt yfir efnið en enn sem komið er er svo langt í próf að ég er nokkuð bjartsýn.
Helgin er búin að vera alveg ljómandi fín og skemmtileg.
Ég var í heimsókn áðan. Í heimsókninni var mér sagt að ástæðan fyrir ástmannsleysi mínu væri sú að ég væri ekki nógu oft varalituð í háhæluðum skóm heima hjá mér. Eins var mér ráðlaggt að fara út að skokka seinnipartinn. Maður veit víst aldrei hvenær stundin kemur og herra draumur bankar uppá með blóm og loforð uppá arminn.
Mér fannst þetta dáldið skemmtilegar ráðlegginar og tók þær mjög hátíðlega. Nú sit ég hér og læri, stífmáluð í kjól. Ég setti kubba undir inniskóna svo þeir virðist háhælaðir.
Enginn hefur bankað enn og kannski er mér óhætt að fara bara að þvo mér í framan.
Fliss.

sunnudagur, apríl 15, 2007
Að vera mamma er svo ótrúlega mikið allt. Gaman, fyndið, erfitt, rosalegt, kjánalegt, ábyrgðarfullt, þroskandi og .....
Í dag er það búið að vera fyndið. Stubburinn minn er svo fyndinn. Ég er búin að lesa fullt af svona "áður en ég varð mamma þá..." textum en nú verð ég að koma með einn frumsaminn.
Áður en ég varð mamma hafði ég aldrei sagt við neinn:"borðaðu bara seríosið uppúr gólfinu, það er alveg jafn-gott og hitt". :)
Þegar við komum heim áðan fór ég inní stofuálmuna á meðan barnið var að brasast eitthvað í andyrinu. Alltí einu fór ég að heyra eitthvað undarlegt hljóð koma frá baðherberginu. Ég stökk að sjálfsögðu af stað. Það hafði sem betur fer ekkert alvarlegt gerst, elsku englabossinn var bara að sulla í klósettinu.

laugardagur, apríl 07, 2007

Jámm.
Allt gengur sinn vanagang. Prófin nálgast á fáránlegum hraða og ég finn engan tíma. Þegar ég hef tíma þá er ég þreytt og vill hvíla mig en þegar ég hef ekki tíma þá ... já hef ég ekki tíma.
Ég kvíði fyrir mörgu og hressleikinn er ekkert að ganga frá mér. Allt of mikið af útgjöldum stefna mína leið. Einhvern vegin virðist það alltaf vera svona. Það kemur allt í bylgjum. Barnið verður veikt og stækkar á dónalegum hraða eða að fötin minnka og skemmst, sjónvarpið bilað, þarf að kaupa þetta og hitt og skuldir hækka og maður sekkur í botnalust fen. Til að geta þetta þarf að fá lánað, svo byrjar maður næsta mánuð á að borga, svo þarf maður að fá aftur lánað til að komast í gegnum þann mánuð.... og svo framvegis. Kannski er karmað að kenna mér að skilja orðið "fátækragildra".
Á ég virkilega að trúa því? Að núna er ég orðin ein af þessum einstæðu mæðrum sem ná ekki endum saman um hver mánaðarmót. Ég er tölfræðin í fréttunum.
Nei það getur ekki verið, það er ekki fátækt á Íslandi.

Æji óttaleg bölsýni er þetta. Þetta fer allt saman einhvern vegin og að öllum líkindum vel.
Ætlaði að koma með eitthvað voða skemmtilegt svona í lokin en það bara kemur ekki.
Læra.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ekkert venjulegt.
Í gær varð ég vitni að svo miklum dugnaði og svo mikilli fegurð að mér finnst skrýtið að tíminn hafi ekki bara stoppað á meðan.
Í dag fór ég í fyrsta skipti í starfsmannaföt á landspítala. Ég "vann" mína fyrstu verknámsvakt. Það var bara alveg ágætt en mjög mikið að gera og dáldið erfitt að koma sér inní þetta allt saman.
Ég er samt æsispennt fyrir morgundeginum og vona að ég eigi eftir að vita aðeins betur hvað allir eru að gera þá :)
Hils smarta

mánudagur, mars 26, 2007

Helgin var skemmtileg. Hitti gamla vini og nýja. Hressandi bara og bæði betra.
Fór í kringlu og keypti rándýra vinnuskó. Ætlaði að vera hagsýn og kaupa ódýra skó. En einu skórnir sem voru bæði viðunnandi í þægindum og ódýrir voru svo ljótir að ég bara gat það ekki. Ég get ekki hugsað mér að byrja í verknámi á nýjum stað í forljótum skóm. Neibb landspítalinn má ekki halda að ég hafi slæman skó-smekk.
Ég keypti sem sagt dýrustu skóna sem í boði voru. Svo dýrir að í augnablikinu á ég þá ekki einu sinni, heldur herra Glitnir sem er kær vinur minn.
En núna er ég í skónum og mér líður eins og ég gangi á skýjum. Skórnir segjast líka ætla að duga í 30 ár.
Annars braut ég odd af oflæti mínu í gær og hóf áhorf á Grey's anatomy á netinu. Veit ekki hvort ég á að tala eitthvað meira um það, hálf skammarlegt að sóa svona miklum tíma að góna.
En jæja..nú er ég búin að prenta út, taka til, hafa til dót fyrir morgundaginn og búa til nesti.
Hils.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Í morgun átti ég að mæta í verklega lífeðlisfræði kl 8. Ég valdi sjálf þennan tíma og skildi ekkert í sjálfri mér þegar ég vaknaði í morgun, hvað var ég eiginlega að hugsa?
Barninu var hent á lappir og á leikskólann og ég hljóp af stað uppí Læknagarð. Fyrir þá sem ekki vita þá er læknagarður staðsettur á svipuðuðm slóðum og BSÍ, samt í aðeins meiri fjarlægð, séð heiman frá mér.
Nú jæja ég mætti þangað kl 8:15 og finn hvergi stofuna. Leita og leita og nei engin stofa merkt vefjafræði. Það fer að læðast að mér illur grunur.
Átti ég örugglega að mæta í Læknagarð? Nú jæja ég ákvað að kveikja á tölvunni og athuga hvort ég fyndi einhverja upplýsingar. Nei nei ekkert þar nema óljós vísbending.
Nú mundi ég eftir lista sem hangir á vegg í stofu 103 í Eirbergi. Ég labbaði, mjög hratt, þangað og fann listann og þar stendur : "tímarnir eru kenndir í stofu 196 í öskju"!!!!! Dauði og djöfull.
Ég hljóp sem sagt alla leið til baka og mætti rúmlega hálf tíma of seint í tíma.
Komst reyndar að því að tíminn átti að byrja 8:15 en ekki 8.
Var farin að sjá fyrir mér alls konar drama. Til dæmis að ég mundi ekki mega mæta og yrði að mæta í næstu viku og þá verð ég í verknámi og kemst ekki. Eða að ég þyrfti að standa rjóð og sveitt uppi á töflu og segja öllum hvað ég er mikill kjáni.
Ekkert af þessu gerðist og ég laumaði mér í tíma, settist aftast og fór að glósa eins og vitlaus. Svona eins og ég hefði verið þarna allann tímann.

miðvikudagur, mars 14, 2007Gaman hjá okkur.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Ég og Agnes erum að læra.
Gengur mjög vel hjá okkur. Að vita meira og meira, meir'í dag en í gær. Jú jú nú veit ég að það er maður í einhverju blaði sem er bara hálfur.
Svo eru margar nýuppfærðar dagbækur á barnalandi. Ein kona var líka að leita sér að upplýsingum um emmaljunga - ég hjálpaði henni.
Í morgun var ég á börum og fékk að prófa að vera með hálskraga, svo fékk ég smá tívolíferði þegar stúlkurnar prófuðu að lyfta mér upp. Gaman. Ég reyndi að blása lífi í dúkku og svo batt ég um bólgin ökkla sem var í raun ekkert bólgin.


Ég heyrði svo skemmtilega veðurspá í gær. Samt spáir stormi.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Blönk, blönk, blönk, blönk.
Ég hlakka aldeilis til eftir mörg ár, þegar ég mun kannski hætta að vera alltaf svona blönk. Ég get amk vonað.
Ég ákvað að dreifa smá hluta af námslánunum á júní. Af því leiðir að núna fæ ég ennþá minni pening. Til að bæta aðeina á þetta þá þurfti ég líka að borga einhverja .!"%% vexti þannig að ég fékk ennþá minna.
Svo nú stend ég andspænis áskorun - að eyða engu í vitleysu í mars.
Hefði svo sem alveg getað sparað *hóst* í febrúar. En ég ákvað að drífa mig í að eyða peningunum mínum því annars gætu þeir hreinlega klárast.
En ég er svo sem ekkert að horfalla svo þetta er nú alveg í lagi. Svo get ég verið glöð yfir því að eiga ekki bíl - þarf þal ekki að kaupa bensín. Ég labba líka í skólann svo ég þarf ekki að borga í strætó. Fæ náttúrulega fína líkamsrækt af labbinu.
Hjól væri samt alveg huggulegt.
Þar sem ég á engan pening þá er nú alveg upplagt að byrja að spara fyrir hjóli.
Reyna að fara í keppni við sjálfa mig - sjá hvað ég get komist af með að eyða litlu. Mig dreymir nefnilega í laumi um að vera nægjusama konan sem eyðir kvöldum í að sauma og baka brauð.
En jæja.. væri nú ekki upplagt að fara að sofa svo ég verði hress og kát í fyrramálið?
Ég held það bara.

p.s. komin með vinnu í sumar. Dagvinnu að hluta til og að hluta til vaktavinnu. Alveg eins og ég vildi. Ég hlakka til í fætinum.

mánudagur, febrúar 19, 2007


Mynd í engu samhengi.
Kennarinn er að tala og tala og tala. Hann er örugglega búin að æfa sig í að tala án þess að breyta um tóntegund.
Ég er búin að láta mig dreyma um margt. Samt sérstaklega hjól. Mig langar í glæsilegt hjól svo ég verði fljót í förum og komist útum víðan völl á engri stundu.
Þá mæti ég á réttum tíma í skólann. Ég ætla líka að nota hjálm. Ég ætla að kaupa sæti fyrir stúf svo hann geti þeyst með mér um víðan völl. Hann verður líka með hjálm.
Allir með hjálm, mjálm.
MEEE.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Sunnudagur - Stúfur varð lasin. Góður dagur engu að síður því það fæddist lítil gullfalleg stelpa.

Mánudagur - Stúfur enn lasin og ég enda daginn á því að fá beinverki.

Þriðjudagur - Byrjar ágætlega en eftir því sem líður á daginn finn ég manninn með ljáinn nálgast á ógnarhraða. Höfuðverkur, beinverkir, hóstir, nálar í hálsi og bara almennur óbjóður.
Stúfur hitalaus en mjög fúll yfir að eiga móður sem getur ekki staðið uppúr sófanum og varla haldið augunum á sér opnum. Seinnipartin kom Þuríður til bjargar og tók stúf í sína vörslu á meðan ég lá eins og skata í rúminu og hélt ég væri hreinlega að deyja. Náði að taka mig saman í andlitinu og gat sinnt stúf í smástund þangað til við fórum að sofa.

Miðvikudagur - Vaknaði við dauðans dyr eftir erfiða nótt. Leið þó aðeins betur en á þriðjudegi. Gat amk skipt á barninu þó nokkuð sómasamlega og gat setið á venjulegum stól. Náði meira að segja að setja í eina þvottavél. Pabbi tók stúf og bjargaði honum í nokkra tíma. Stúfur hitalaus júhú allt stefnir í rétta átt.

Fimmtudagur - Ég töluvert hressari og sendi stúf á leikskóla og hugsa um hvað það verður gott að sofa allann daginn. Eftir klukktíma er hringt frá leikskóla, stúfur komin með hita. Við eyðum deginum saman. Bæði fúl og pirruð. Sem betur fer vorum við jafn þreytt og stúfur svaf í mömmufangi í 3 klukktíma. Stúfur enn með hita í kvöld, draumurinn um leikskóla á morgun er farinn fjandans til.

Núna er ég hér um bil hress. Er reyndar með hósta frá helvíti, líður eins og ég sé að rífa upp lungun á mér þegar ég hósta. Finnst líka stundum eins og ég sé að kyngja nálum þó það sé bara munnvatn. Röddin er eiginlega ekki til staðar. En hey ég er ekki búin að taka neina verkjatöflu síðan í morgun.
Þó að ofurmannlega ónæmiskerfið hafi aðeins runnið útaf sporinu þá þakka ég því samt að ég virðist vera komin yfir það versta, eða ég vona það.
Ég get svo svarið það að ég hefði dáið ef það hefði ekki verið fyrir Þuríði, pabba, og Gretu og Friðrik og já hvítlauksengiferpiparhunangs- og sítrónuteið.
Takk Soffía fyrir að benda mér á það fyrir löngu.
Það er gott að eiga góða að.
Ég vona bara að ég komist í skólann á mánudaginn.
Það er erfitt að halda geðheilsunni.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Að mínu mati er dagurinn ekki nógu langur og orkutankur líkama míns ekki nógu stór.

Það er svo algengt að svo margt þurfi að gerast svo hratt. Mig langar bara að gera hlutina í rólegheitum, amk svona flest.

Besti tími dagsins er þegar ég leggst uppí rúm með stúf. Stundum er hann pínu fúll yfir að dagurinn sé búin en oftast er hann sáttur. Svo leggjumst við saman og knúsumst. Hann borar hausnum í mig og ég kyssi hann til baka.
Svo leggst ég á hliðina og set hönd undir kinn og bý til kodda úr olnboganum mínum. Hausinn á stúf passar fullkomlega á koddann og kroppurinn hans passar fullkomlega í plássið sem búkurinn á mér myndar.
Svo eru fæturnir hans akkúrat mátulega langir og hendurnar mína akkúrat mátulegar svo ég get strokið honum um fæturna.
Svo sofnar hann og ég ligg alltaf aðeins of lengi því það er svo notalegt.

Hann sofnar ekki sjálfur því þá mundi ég missa af svo miklu, hann sefur ekki í sínu rúmi því mér finnst svo gott að hafa hann hjá mér.

Góða nótt.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Skólinn.
Byrjaði daginn á því að sitja hálf ber að ofan á meðan minn kæri samnemandi ungfrú Kristín hlustaði á mig anda og bankaði mig alla í bak og fyrir.
Í smástund héldum við að ég væri með ofvaxna þind og að lifrin hennar væri vitlausu megin en það var að sjálfsögðu helber vitleysa.

Núna er ég heima að læra nema ég er ekki að læra. Ég er ekki nógu skipulögð til að vera að læra. Ég ætlaði að fara að læra en þá var námsefnið alltí hrúgu ofan í skúffu og ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Ég ákvað þá að það væri sniðugast að raða í möppu. En ég gat ekki raðað almennilega í möppu því ég er ekki búin að kaupa svona dót til að skipta möppunni í kafla, þannig að ég setti bara glósurnar í hrúgu í möppuna, það er amk skárri staður en skúffan.
Jæja ég ákvað að skipta þá um fag og skoða glósurnar fyrir morgundaginn. Byrjaði að prenta út en nei... þær glósur eru bara á acrobat og bara ein á glæru, þversum.
Ég tek ekki þátt í svoleiðis vitleysu.
Ég fór niðrí geymslu að leyta að gömlu kaflaskiptidóti, fann það ekki. Möppurnar duttu úr hillunni og ég sparkaði í hilluna.
Blöðin duttu á gólfið svo ég barði í borðið.
Er ekki komin tími til að fara í ikea?

Ætli ég fari ekki bara að taka til og svo að sofa, ekki hægt að læra fyrr en ég er búin að kaupa eitthvað. Mér finnst líka eins og morgundagurinn henti fullkomnlega til lærdóms.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Í dag fór ég í blóðprufu.
Mér fannst það ótrúlega gaman.
Þegar ég kom út var ég með kitl í maganum því ég hlakka svo til að verða hjúkka.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Jæja já...

Ég er búin að vera í ógurlegu dramakasti yfir því að netið skuli vera bilað og að lokað hefði verið á tengingar við útlönd á stúdentagörðum. Ég var alveg viss um að það mundi verða lokað í 10 daga og var farin að sjá fyrir mér að ég mundi sitja og læra öll kvöld.
Netið var lokað í 3 daga.

Annars er skólinn alveg frábær. Skemmtilegir tímar og spennandi verklegt nám. Í dag skoðaði ég í eyru, augu og munnhol.
Athugaði ástand húðar og hárs og sitthvað fleira. Á mánudaginn mældi ég blóðþrýsting í fyrsta sinn og tókst það eftir smá æfingar ;)
Var pínu kjáni í augnskoðuninn í dag og var sífellt að gleyma hvernig átti að nota júnitið (opthalamoscope) sem maður notar. Skrýtið hvernig mér tókst að gleyma því.

Já lífið er að byrja að ganga sinn vanagang. Samt pínu erfitt að finna rútínuna aftur og finna tíma til að læra á milli alls sem ég þarf að gera alltaf. Endalaus vinna. Mjög ánægjuleg vinna engu að síður.
Stúfur er á leikskólanum á daginn og er allur að koma til, hann er samt ekkert sérstaklega glaður þegar ég fer með hann á morgnanna en er víst hress yfir daginn. Að sjálfsögðu er hann samt komin með kvef og hósta og ég krossa fingur og vona að hann sé ekki að verða veikur greyið. Hann er svo sætur og dásamlegur og ég er svo glöð að hann skuli vera hér hjá mér.
Það er svo ótrúlega gaman að fylgjast með honum. Hann er komin með svo mikinn vilja og er svo ákveðin en samt veit hann oft ekkert hvað hann vill, veit bara að hannn vill eitthvað og það strax!!
Bestur.

En ég vil þakka Raggý fyrir ótrúlega góðar veitingar á mánudagskvöldið og ég vona að heimilið hennar hafi verið í lagi eftir heimsókn okkar, þeas að barnið hafi ekki skemmt neitt ;)

Sofa...

mánudagur, janúar 08, 2007

Ef það væri möguleiki á að springa úr monti, stolti, gleði, tilhlökkun eða einhverri annarri góðri tilfinningu þá mundi ég gera það núna.
Var nr 34 með 7.02 í meðaleinkun og náði öllu.
Vei vei vei vei vei vei vei vei vei vei!!!

Allt borgaði sig. Allar lærdómsstundirnar. Allar fórnirnar.
ALLT.
Ji hvað það verður gaman næstu árin :) '
VÚHÚ!!!!!
Ég get svo svarið það að hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er að gera könnun á því hvernig (mögulegir) verðandi hjúkrunarfræðinemar standist langvarandi álag og óvissu.

Mér finnst þetta vera bölvaður dónaskapur og óvirðing. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að fólk taki sér langan tíma í að fara yfir krossapróf!!!!

Hana nú.
Marta

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Einkunnir - nei ekki komnar.

Ég var alveg búin að ákveða að gera ekki ráð fyrir þeim fyrr en 8 jan... en nú er biðin að gera mig gjörsamlega geðveika.
Held ég sé búin að athuga málið svona 5 sinnum í dag. Svo fæ ég panik kast í hvert sinn sem ég opna heimasvæðið mitt. Rétt gjóa augunum á það....
Svo hugsa ég í smástun um að ég hafi örugglega bara ekki fundið einkunnirnar en svo fatta ég að það er vitleysa og held áfram að hanga á netinu.
Svo byrjar hnúturinn að stækka og ég fer aftur að gá.
Gaman.
En við mæðgin komum heim á föstudaginn. Það er gaman.

Ég gleymdi alltaf að segja frá því að það hefur ekkert samband verið á símanum mínum síðan ég kom hingað. Ég fékk fékk mér frelsi í útlöndum en það virkaði ekki og ég nennti ekki að standa í því að laga það eða fá mér færeyskt númer.
Svo ef einhver er búin að vera að senda mér sms með mikilvægum leyniupplýsingum þá upplýsist hér með að engin sms hafa skilað sér í gegnum sambandslausa símann.

Hils smart.

mánudagur, janúar 01, 2007


Gleðilegt árið.

Árið 2006 var algjörlega árið okkar besta barns. Allt sem við gerðum saman stendur uppúr.
Því var eytt í göngutúra, át, kaffidrykkju, umönnun barns, spjall og alls kyns bras.
Takk fyrir samfylgdina og ég vona að árið 2007 verði jafngott eða betra fyrir okkur öll