þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Ég þekki of mikið af skemmtilegu fólki.
Málið er að ég þarf að læra og gera sitthvað sem krefst þess að ég sitji ein einhvers staðar og hugsi mitt mál. Það virðist vera óskaplega erfitt í kringum allt þetta yndislega fólk. Sjálfsagi. *hóst*
Ég vil nota tækifærið og þakka færeyingum fyrir að vera svona skemmtilegir. Yndislegra fólk er vanfundið. Ég fór á mjög skemmtilega útgáfutónleika hjá Eivöru á sunnudaginn. Eftir tónleikanna var líka gaman. Ég stóð uppi á stól. Ég horfði á fólk syngja blús. Ég dansaði og skemmti mér í alla staði konunglega. Mér sýndist hinir gera það líka.
Í morgun leið mér eins og heilinn á mér væri ein lítil baun umlukin svörtu skýi. Núna er baunin óðum að stækka og hver veit nema ég verði búin að ná fyrri virkni áður en langt um líður.
Njótið.
p.s. Föstudagur = thíhí!

föstudagur, nóvember 26, 2004

Föstudagur.
Jamm og já þá er komin helgi enn einu sinni. Hvað skyldi maður nú gera mikla vitleys um þessa helgi?? jah, maður spyr sig. Takmarkið er að vinna í kvöld, ætla meira að segja að reyna að halda mig á hinni merku mottu. Á morgun er takmarkið að gera ekki neitt nema læra. Ég ætla rétt að vona að ég muni standa við þessu merku plön. Æji ég veit ekki....
Stundum er bara svo óskaplega leiðinlegt að sitja ein heima eða að heiman og læra. Jafnvel þó að efnið sé skemmtilegt.
Mig langar að hitta ykkur hin í óminninu. Hunskist nú út í lífið og veitið mér þá skemmtun sem mér er nauðsynlegt að fá til að lifa af á þessum síðustu og verstu tímum.
Eða bara étið það sem úti frýs.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ái
Ég heiti Marta og mér er illt í hálsinum. Ég er með svo undarlega hálsbólgu að ég er orðin pínu hrædd við hana. Er búin að upphugsa alls kyns sjúkdóma sem ég gæti mögulega verið með. Ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og panta tíma hjá lækni á morgun. Núna bíð ég spennt eftir að morgundagurinn renni upp og ég fái bót meina minna.
Vann í gær. Dundaði mér í smástund við að skoða óskilamuni. Ég fann: gallabuxur, boli, peysur, hlíraboli, debetkort, síma og að sjálfsögðu húfur, vettlinga og sjöl. Mér finnst dálítið gaman að sjá hvað fólk skilur eftir.
Því miður fann ég hvorki fjólubláa húfu né debetkortið sem mig langaði að finna.
jæja... njótið lífsins kæra fólk.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Maður uppsker víst eins og maður sáir.
Tíminn sem fer í að hugsa hvað betur mátti fara er heldur mikill. Ég ríf í hár mitt og eyru (er ekki með skegg) og er alltaf svöng. Mér finnst dáldið eins og kaffi sé lausn allra vandamála. Bara einn bolla í viðbót.
Vitneskja: þvagrás kvenna 4cm á lengd og 6 mm á breidd. Þvagrás karla um 20 cm.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Það var nú bara gaman. Að sjálfsögðu var gaman á fimmtudag. Vorum heillengi á Priki að fagna því að prófið drap okkur ekki. Fös var heim í vidjóglápi. Gott að vakna snemma og hress á laugardagsmorgni. Við Birta fórum á Jagúar tónleika. Það var gaman. Við keyptum diskinn og fengum hann áritaðan til Birtu bestu. Mjög ánægulegt, bæði fyrir mig og barnið.
Vann á laugardagskvöld. Sá fullt af fólki. Sá suma í úbersleik, suma fara glaða út með félagsskap í annarri og bros í hinni. Sá fólk dansa uppi á borðum og stólum. Svo leið tíminn, barinn lokaði og allt var búið. Þá sá ég tvöfalt og fór heim.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

chatterbox
Congratulations! You're Mr. Chatterbox!


Which of the Mr. Men characters are you?
brought to you by Quizilla

Þetta er hægt að gera á meðan maður er að læra. Held meira að segja að það verði spurt úr svona könnunum í prófinu á morgun ;)
Undarleg þessi þreyta sem virðist alltaf koma um leið og ég fer að lesa skólabækur. Nú sit ég á bókhlöðu og mig syfjar meira og meira með hverri blaðsíðunni sem ég les. Mig langar í kaffi en það á ekki eftir að bæta neitt þar sem ég er búin að drekka marga marga bolla af þeim ólukkans vökva í dag. Ég ætti kannski að drekka Magic?!!? Já! það er fín hugmynd, ef ég trúi því þá virkar það.
ætla að hlaupa niður og fjárfesta í einni dós

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Mig langar pínulítið að fara að gráta yfir því að ég á afmæli og ég get ekki gert mér neinn dagamun. Mér finnst það leiðinlegt. Í augnablikinu er ég MJÖG súr yfir þessu. Mig langar heim og gera mér e-ð gott og láta mér líða eins og ég eigi afmæli. Ég veit alveg að ég get gert e-ð sniðugt á fimmtudaginn en það er ekkert eins.... þá á ég ekkert afmæli.
Helvítis skóli með slæmar tímasetningar!
Í dag á ég afmæli!!! Mikið er það nú skemmtilegt :) Líkami minn virðist ætla að bregðast ágætlega við aldrinum, hef ekkert hrörnað að ráði í nótt.
Afmælið er haldið hátíðlegt hér á bókhlöðunni. Merkilega gaman að eiga afmæli hér. Hér er alltaf svo mikið líf og fjör...
Heilsufélagsfræði er víst skemmtileg!

mánudagur, nóvember 15, 2004

Ég er búin að vera í skónum síðan klukkan 7 í morgun. Nú er tími til komin að reima frá. Það er betra. Smá loft.
Annars er ég búin að vera á bókhlöðu þjóðar vorrar heillengi og hef meira að seja verið að læra svotil allann tímann. Það er gott. En nú líður senn að því að ég þurfi að koma mér héðan út til að skunda í afmæli til hennar Helgu sem fagnar 29 ára áfanga í dag. Til hamingju með daginn Helga og megir þú lengi lifa, húrra, húrra, húrraaaaa!!!!

sunnudagur, nóvember 14, 2004

helgin búin.
Það var voðalega gaman í gær fannst mér. Núna er komin sunnudagur og mér líður vel. Komin uppá Skaga og ætla að vera hér að borða þangað til .... jah hver veit, kannski get ég borðað endalaust.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ég á nýja skó!!!! Sagði söguna af nýju skónum svo oft í gær að ég er eiginlega komin með leið á henni og þar með hefur sagan misst skemmtanagildi sitt. Ekkert gaman að hlusta á mig segja sögu sem ég er komin með leið á. Í stuttu máli fékk ég nýja skó sem eru ótrúlega flottir. Ég gat meira að segja skilað gömlum skóm sem komið hafði í ljós að voru gallaðir og fyrir þá fékk ég 5000 kr innleggsnótu svo gaf mamma mér rest uppí stórkostlega strigaskó sem kostuðu 10 þús. Ég elska nýja skó. Það er ótrúlegt hvers konar lífsfyllingu nýjir og flottir skór gefa manni. Ennþá betra er að skórnir eru converse, háir og uppreimaðir, svartir með rauðum saumi og úr rúskinni. Alveg hreint rosalega flottir segi ég nú bara.
Barinn í gær. Var reyndar að vinna en það var bara fínt. Alveg fullt af fólki og fleir skemmtilegir en leiðinlegir. Ég ætla samt að segja ykkur frá leiðinlega fólkinu.
Marta: "jæja kæra fólk nú er búið að loka. Mér þætti vænt um að þið færuð svona að undirbúa heimferð."
Fólk:"en við ætlum að klára bjórinn, við erum búin að kaupa bjór og við eigum rétt á að klára hann. Við skulum fara út þegar allir hinir fara út:"
Marta:" nei,nei svoleiðis virkar það ekki. Þið verðið að fara að drífa ykkur."
Ég fer og geri e-ð annað. Korteri síðar, klukkan orðin hálf 2(þess má geta fyrir ykkur sem ekki vitið að barinn lokar klukkan 1)
Marta: "jæja...."
Fólk:"Sko við erum búin að kaupa bjór.... "
Marta:"já þið getið fengiði plastglas"
Fólk:"nei, við höfum rétt á að drekka bjórinn bla bla bla"
þau byrja að tala útum endarþarminn á sér.
Marta: "það væri allavega rosa fínt ef þið gætuð staðið upp svo ég geti haldið áfram að vinna"
Fólk: "það er ekki möguleiki"
Svo varð þetta nú ekki mikið meira en þau fóru út að lokum eftir mikið japl, jaml og fiður.
En ég var kurteis. Það er alltaf gott.
En allavega... í galli er kólesteról og galllitarefni.
Snjórinn er komin.
lifið í lukku en ekki í krukku :)


þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Fór í göngutúr í morgun með barnið og hundinn.
Skemmst frá því að segja að við röltum niður skólavörðustíg í makindum. Ég, 7 ára gamalt barnið og hundurinn. Þegar við löbbuðum fram hjá búð nokkurri á leiðinni sá ég hvar Birgitta Haukdal stóð fyrir innan gluggann Ég sagði barninu að líta inn um gluggann. Barnið gerði það og andlitið gjörsamlega datt af henni. Það kom einn mesti undrunarsvipur sem ég hef séð og svo hvíslaði hún:" Marta, þetta er Birgitta Haukdal". Ég jánkaði því og svo héldum við áfram að labba. En eftir smástund kom Birgitta út úr búðinn og gekk í smá stund nokkrum skrefum fyrir aftan okkur. Blessað barnið vissi ekki hvert hún átti að snúa sér, hún gat ekki einu sinni talað á meðan á þessu stóð. Hún labbaði bara áfram stíf og strokin. Við fórum svo á Prikið og þegar barnið sá mömmu sína stóðst hún ekki mátið heldur hljóp inn hálf-grátandi og sagði:"mamma mín, mamma mín, mamma mín. Veistu hvað ég sá?!?!?!!?".


laugardagur, nóvember 06, 2004

Gamla góða eða...
Ég er að vinna. Vinna í gömlu góðu vinnunni. Með hressa og félagslynda fólkinu í seli sem kennt er við jökla. Vinna í gær og í dag, allir veikir og bráðvantaði aukavakt. Svo sem fínt að vinna svo að helv.. innheimtumaður ríkissjóðs geti hirt af mér það sem ég var talin skulda í skatt. Æji ... peningar smeningar, tal um peninga finnst mér niðurdrepandi. Niðurdrepandi og leiðinlegt. Kannski smá hallærislegt, ekki get ég verið þekkt fyrir að tala um e-ð sem er ekki hip og kúl. Ég er hip og kúl. Hálf tími þangað til ég verði búin hér. Einn og hálfur tími þangað til ég fer í hurða-vinnuna mína. Samt er ég manneskja sem er á námslánum og vinn ekki.
Fór út í gær. Yfirgaf barinn svona 3x með þeim orðum að nú væri ég farin heim. Það gekk einhvern vegin ekki upp. Ég komst ekki svo langt að fara heim fyrr en ég hljóp út klukkan 5 og náði leigubíl og fór heim áður en heilanum gafst tími til að skipta um skoðun. Það var hundleiðinlegt úti. Hitti samt Leif, það bjargaði heilmiklu.
Jæja er að spá í að greiða mér eða bara bora í nefið þangað til strætó kemur og ég þarf að hlaupa....
Sjáumst vonandi í kvöld

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Þjóðarbókhlaðan. Klukkan er 17:10. Það segir mér að ég hef einn klukkutíma (60 mín) og 50 mín til viðbótar til að fanga vitneskju uppúr sérlega áhugaverðum skólabókum mínum.
Er samt alveg viss um að heili minn getur ekki tekið á móti nýrri vitneskju fyrr en ég er búin að innbyrða eins og eitt plastmál af drullupollalituðu skólpi sem kennt er við kaffi og er selt á okurprís á kaffistofu hússins. Kannski ég fái mér sígó með, svona til að hressa andann.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Tími í sálfræði.
Hugsið um hvað sem þið viljið í eina mínútu. Allar hugsanir eru leyfðar nema hugsanir sem snúast um bláan ísbjörn. Ekki hugsa um bláan ísbjörn.
Marta hugsar:" hmmm.. hvað á ég að hugsa um?? Barinn? Já það er fínt, fólk á barnum. Hver er þarna að kíkja á mig, andskotans þarna er blái ísbjörninn kominn. Ok,. hugsa um e-ð annað, Mývatn, þar er sól og gott veður. Þar er sumar. Hvur andskotinn!! Þarna kemur blái ísbjörninn uppúr vatniu og fær sér flugu".
Hressandi sálfræðitími.

Helgin var öðruvísi. Fór ekkert út. Sat heima og horfði á sjónvarpið þar til sófinn vaggaði mér í svefn. Það var óskaplega notalegt.
Í gær byrjaði ég daginn á Prikinu í góðum félagsskap. Ég hitti svo systkini mín og fór með þeim í leikhús, við sáum "hinn almáttuga". Það var skemmtilegt. Geimverur sem deyja ef þær fá mr. propper á sig. Amerísktir trúboðar. 11 ára strákur og gelgjuleg stóra systir. Já, mér fannst gaman og börnunum fannst ennþá skemmtilegra.
Eyddi svo kvöldinu í að dæla bjór , þurrka af og brjóta saman kassa á litlum bar á Klapparstíg. Skemmtilegt fólk kom og sá mér fyrir góðum félagsskap. Ein stelpa sat á barnum og veitti mér félagskap mjög lengi. Hver skildi það nú hafa verið?!? Jah, for my to kvow and you to find out !
Frétti í gær að það hefði verið sofandi kona á sirkus þegar skúiringarfólkið mætti á sunnudagsm0rgun. Kom í vinnuna í gær og hitti ungan vinnufélaga minn og fór að segja honum þessa sögu. Hann greip snarlega fram í fyrir mér og sagði: "nei, þetta var ekki kona þetta var ég!!". Þá hafði manngreyið farið á klósettið uppi og fundið þar fyrir skyndilegri þreytu sem hann gat með engu móti ráðið við svo hann brá á það ráð að leggja sig á klósettinu. Maðurinn vaknaði svo einhverjum tímum síðar og fannst eitthvað undarlegt andrúmsloft. Sér til mikillar skelfingar komst hann að því að það var búið að loka og allir farnir. Ekki nóg með það heldur var líka allt lokað og læst. Hann gerði hið eina sem var skynsamlegt í stöðunni, færði sig í sófa, fann sér peysu til að ylja sér, lagðist niður og hélt áfram að sofa. Vissi svo ekki fyrr en skúringarkonan kom og tók hann í misgripum fyrir konu. Þess má geta að drengurinn er ekki skegglaus með öllu. Góð saga finnst mér. Fegin er ég samt að vera ekki í aðalhlutverki.
Jamm og já, kannski er sniðugt að fara að hlusta á kennarann. Hann gæti verið að segja e-ð af viti. Eitthvað sem ég má alls ekki missa af!
Yfir - Grip!