laugardagur, september 15, 2007


Stundum rífast þau og slást. Stundum sitja þau og syngja himneskt "afi minn og amma mín" og hann spilar undir á ukuleleinn. Stundum brasa þau saman og stundum eru þau algjörir búðingar sem hella niður og sulla í klósettinu.
Fyrst og fremst eru þau samt vinir og þau eru dásamlegust.
Flutt.
Jámm ég er flutt í alveg ótrúlega mikið huggulegri íbúð. Það geta meira að segja alveg fleiri en einn komið í heimsókn án þess að fólki líði eins og það sé í einhvers konar "troða inní skáp" keppni.
Mér finnst íbúðin bara alveg frábær, mér stendur meira að segja algjörlega á sama um ljótan gólfdúk og þá staðreynd að það þurfi að skipta um rúðu í svalahurðinni og mála svalirnar.
Allt er æði. Voða huggulegur panell í loftinu. Mikil lofthæð sem lætur manni líða eins og það sé miklu meira pláss. Eldhúsið stúkað af. Tengi fyrir þvottavél og þurrkpláss á baðherbergi.
Ég hefði aldrei trúað því að það væri svona mikill munur á 10 fermmetrum. En jú... það munar bara alveg öllu.
Við erum sem sagt alveg agalega hamingjusöm núna með nóg pláss.
Eina sem angrar mig í bili er að ég það virðist einn kassi/poki eða eitthvað hafa týnst. Mig vantar alveg slatta af dóti og ég get ómögulega munað hvar ég pakkaði því niður eða hvar það gæti verið niðurkomið.
Vona bara að það sé ekki í sorpu.

sunnudagur, september 09, 2007

Sumir dagar... kannski meira við hæfi að segja sum kvöld því dagurinn var fínn.
Á þriðjudaginn þarf ég að flytja. Á föstudaginn þarf ég að skila núverandi hýbýlum af mér skínandi hreinum.
Eins og áður hefur komið fram byrjar barnið á nýjum leikskóla á morgun og verður þarf af leiðandi meira og minna heima þessa vikuna.
Ég er rétt búin að þrífa eldhúsinnréttinguna. Eða ég er búin að þrífa einhverja skápa - á ennþá eftir þetta skítugasta, eldavélina, pottaskápinn og ísskápinn.
Mér reiknast til að ég eigi eftir að þrífa skápana inní svefnherbergi, baðherbergið eins og það leggur sig og veggi í stofu/eldhúsi.
Einnig á ég eftir að bóna gólfið.
Auðvitað á ég líka eftir að pakka slatta niður.. en ég er að vona að það taki ekki mikinn tíma þar sem ég er búin að pakka þessu allra leiðinlegasta, á bara föt og baðherbergi eftir.
Í kvöld vildi barnið ekki fara að sofa og ég hafði ekki tíma í að lúra hjá honum endalaust svo þetta endaði með ekkasogum og rúmum tveimur tímum af mismunandi miklu grenji.
Yfirleitt er þetta ekkert mál en þegar það er svona mikið að gera þá væri alveg fínt ef það væri einhver hér sem ég gæti sagt við:"heyrðu nenniru aðeins að sinna honum á meðan ég tek til". Eða ef einhver gæti séð um einhvern hluta af leikskóla aðlöguninni á meðan ég mætti í skólann. Eða einhvern sem væri heima á meðan ég færi hingað að taka til og bóna.
Ég veit alveg að það er fullt af fólki með fleiri börn en ég en það er ekki þar sem sagt að það geri málin eitthvað auðveldari fyrir mig.

Æji bla ég ætla að láta eitthvað verða úr þessu kvöldi og fara bara að sofa... Á morgun er svo hægt að byrja uppá nýtt á betri veg.

föstudagur, september 07, 2007

Allt að gerast.
Tveggja ára afmælið er löngu búið. Drengurinn gerði móður sína óendanlega stolta með því að vera jaft ótrúlega frábær og hann er. Í marga daga hugsaði ég um það hvað ég ætlaði að skrifa langt og væmið blogg til heiðurs honum.
En jæja þetta er nú alveg nóg.
Skólinn er byrjaður á fullu og tölvan mín notaði tækifærið til að gefa frá sér síðasta háværa viftuhljóðið. Ég rauk til í fljótfærniskasti og keypti nýja tölvu.
Æji voðalega er þetta eitthvað leiðinlegt. Hef ekkert að tala um nema eitthvað sem mun hljóma eins og upptalning á hverjum atburðinum á fætur öðrum.
Við skulum bara hafa þetta eins og það er og vera ekkert að þykjast vera skáldleg.
Í næstu viku flytjum við í stærri íbúð.
I næstu viku mun barnið byrja á nýjum leikskóla
Um síðustu helgi týndi ég veskinu mínu, í gær fannst það.
Um síðustu helgi var ég konan sem dansaði eftir lokun. Úff.
Núna ætla ég hlusta á hjal og mas um örverur og sýkla.