miðvikudagur, júlí 30, 2008


Ísafjörður.

Mikið óskaplega var gott að koma vestur. Verst að mig langar bara strax aftur. Svei mér þá hvað þetta var mikil dásemd. Samt gerði ég voða lítið, ég bara var.
Ég reyndar heimsótti fólk, fór í göngutúra og hugsaði um fólkið sem ég sakna og hitti fólkið sem ég get hitt og þarf ekki að sakna.
Það er svo langt síðan ég hef farið vestur bara í rólegheit og milljón ár síðan ég hef komið um sumar. Það er svo fáránlegt hvað hver einasti staður á sér sögu í mínum haus. Þarna er kirkjugarðurinn sem ég var svo hrædd við, túnið sem ég renndi mér niður á veturnar, steinninn sem ég drullumallaði á, rólóinn sem ég lék mér á, bryggjan sem ég málaði einu sinni, bakaríið með bestu kringlunum og bara allt allt allt sem mér finnst vera heim.
Það var gaman að labba um og hugsa um hvernig allt var. Skrýtið að labba fram hjá Hlíðarvegi 8 og eiga ekkert tilkall. Ég góndi eins og geðsjúk manneskja á húsið. Húsið var breytt. En veggurinn fyrir ofan ruslatunnuna er ennþá, snúran þar sem afi hengdi svartfuglana á eru ennþá og ég sá rabbabara og tré í garðinum.
Í smástund langaði mig 15 ár (vá mörg ár) aftur í tímann og fá hádegismat hjá ömmu. Labba heim Hlíðarvegin og finna lyktina.
Ég skoðaði líka skúrinn sem við lékum okkur stundum uppá, hann er lítill og samvaxin bílskúrum. Þegar ég var lítll var hann stór og þurfti stiga til að komast upp. Núna er hann pínulítill en það er enn stigi, greinilegt að í sumum hugum er hann enn stór.
Hjörtur henti steinum í sjóinn, sá skip og lék við hund og kött. Hann fékk meira að segja að fara á hestbak.

Þetta var bara eitthvað svo gott og yndislegt að koma. Við gistum á góðum stað hjá góðu fólki og allt var frábært.
Það var frábært að grilla banana og borða úti. Frábært að horfa á barn og hund leika. Frábært að sitja og drekka kaffi. Meira að segja fannst mér frábært að keyra Óshlíðina.

Takk fyrir okkur.

sunnudagur, júlí 20, 2008

Í dag fór ég út á bílastæði og ætlaði að finna bílinn minn og aka af stað. En viti menn, þar sem ég þóttist hafa lagt bílnum var enginn bíll. Mér brá nú dálítið og skimaði í kringum mig og hugsaði hvort ég hefði nokkuð lagt bílnum hinum megin við garðana, ég legg svona sitt á hvað. Nei í þetta skiptið var ég handviss um að hann ætti að vera Suðurgötumegin.
Ég skimaði í kringum mig og sá bílinn þá á undarlegum stað á hinum enda bílastæðisins. Á stað þar sem ég hef aldrei nokkurn tíma lagt.
Ég tók í alvöru á sprett og skoðaði bílinn vel, jú þetta var minn bíll, alveg eins útlítandi og hann var síðast þegar ég sá hann. Ég settist inn og þar fann ég lykla sem einhver hafði líklegast gleymt á milli sætanna. Tyggjópakki lá í sætinu. En að öðru leyti leit bíllinn út alveg eins og ég hafði skilið við hann.
Dálítið skrýtið...
En ég reyndi að starta bílnum sem gekk dálítið brösulega en svo rauk hann í gang og var bara hinn ljúfasti.
Seinna um daginn fór ég og talaði við starfsmann í lobbýinu á hótelinu sem er þarna. Þegar ég sagði frá bílnum mínum þá var mér sagt að hann þegar lobbýkonan hafði komið í vinnuna um morguninn hafði hún séð bílinn minn kyrrstæðan og mannlausan út á miðri Suðurgötu! Hún hafði einmitt hugsað að hún þyrfti að hringja og láta fjarlæga hann en svo gleymt því.
Lyklarnir sem voru í bílnum gengu ekki að görðunum svo þetta var líklega ekki óprúttin garðabúi í bílaleit.
Lobbýdaman var samt svo indæl að hún bauðst til að spurja næturvörðinn og láta hann hringja í mig ef hann hefði séð eitthvað.
Hann hringdi svo áðan og sagðist hafa heyrt læti í bíl í nótt og séð einhvern gaur í bílnum mínum að reyna að starta honum. Það gekk eitthvað illa en hann spáði ekkert frekar í þessu, bjóst bara við að hann ætti bílinn. Svo þegar hann var á leið heim úr vinnunni sá hann stóran lögreglubíl við bílinn minn þar sem hann stóð á Suðurgötunni, og amk einn lögreglumann inní bílnum og honum sýndist hann vera að gramsa eitthvað.
Núna er ég að andast úr forvitni!
Hvað var bíllinn minn eiginlega að gera í nótt? Hvað varð um gaurinn sem reyndi að stela honum? Af hverju í fjáranum lét löggan mig ekki vita og af hverju voru lyklarnir skildir eftir í bílnum?
Þess má geta að það var búið að bakka bílnum mjög snyrtilega í stæðið þegar ég fann hann í morgun.

Og hóst... kannski vandræðalegasti partur sögunnar, bíllinn var ólæstur.

mánudagur, júlí 14, 2008
Einu sinni var ég konan sem gleymdi öllu útum allt. Svo breyttist margt og ég taldi mig hafa losað mig við það sem lét mig gleyma öllu mögulegu.
Stundum koma stundir sem segja mér skýrt og greinilega að ég mun alltaf vera konan sem gleymir hlutum.
Um helgina gleymdi ég hlutum á hinum ýmsu stöðum. Fór í Vogafjós, ætlaði í kaffi en hætti við og ætlaði að fara að bruna burt þegar ég mundi skyndilega að veskið hékk inni á stólbaki.
Ég fór í Strax og verslaði bensínkort fyrir 5þúsund. Það hnussaði dálítið í Þuríði þegar ég snarsneri við á planinu í Reynihlíð. Þá mundi ég skyndilega að ég hafði skilið bensínkortið eftir í glugganum í Strax, undir klístraðri servíettu.
Undir lok ferðarinnar fórum við sonur í gönguferð uppá Hverfjall. Það var voða gaman, ég bar barnið á bakinu hálfa leið en svo labbaði hann sjálfur upp. Uppá fjalli voru teknar myndir og útsýnið skoðað. Svo hlupum við skríkjandi niður, duttum oft og skemmtum okkur vel.
Loksins þegar við vorum komin alveg niður þá mundi ég hvar ég sá gleraugun síðast. Það var þegar ég tók þau af til að sitja fyrir á mynd, ég lagði þau í mölina efst uppi, rétt hægra megin við stígin þar sem maður kemur upp.
Það þarf kannski ekki að taka það fram að ég sneri ekki við. Ef einhver á leið um Hverfjall á næstunni þá á ég þessi gleraugu.

Annars var helgin alveg dásamleg í góðum félagsskap. Ekki var verra að keyra heim um hánótt og láta lesa fyrir sig á meðan. Takk Þuríður fyrir dásamlegt ferðalag.
Hvar er eiginlega þessi fugl?


Hils Marta

P.s. Gleraugun voru ekki mjög verðmæt, ég fékk þau gefins, hálfónýt eftir að eigandin hafði fengið sér ný. Ég nota ekki gleraugu að staðaldri en ætti í raun að eiga ein. Ég hafði þau með því það er skemmtilegra að sjá þetta dásamlega útsýni skýrt. Mér fannst sagan betri án þessara upplýsinga :) MJ

laugardagur, júlí 05, 2008

Barnið vaskar upp og ég hangi í tölvunni.
Stefnan er tekin á sund á eftir og svo skoða mannlífið á Akranesi. Við fögnuðum í gær þeim merka áfanga að vera komin í sumarfrí.
4 vikur þangað til hversdagurinn tekur við á ný. Margt og mikið planað, ætla að reyna að þeysast landið þvert og endilangt og sýna mig og sjá aðra. Mývatn og Ísafjörður.
Reyndar er sumarpróf í lok ágúst og það verður víst að nýta einhvern tíma í að læra undir það, en það er alltí lagi. Ég er nú að læra eitthvað sem ég hef áhuga á svo það hlýtur að vera hægt að gera það skemmtilegt. Það er bara svo fáránlega erfitt að byrja...

Annars er það sem af er sumri búið að vera dásemd. Stundum dáldið erfitt að vera í fullri vinnu og hafa alltaf brjálað að gera. Ég er konan sem sef heilu og hálfu kvöldin yfir sjónvarpinu.

Í vinnunni um daginn fékk ég hressandi hrós þegar mér var tjáð hvað ég hefði falleg handarabök!! Handarbök!!

Hils