mánudagur, júní 28, 2004

Raunveruleikinn byrjaður.
Ég er komin í selið og byrjuð að vinna. Skjólstæðingur minn fór eitthvað og ég er bara ein að dunda mér þangað til hún kemur aftur.
Ég verð að deila þessum myndum með ykkur lesendur góðir. Kisur eru svo sætar. Hér er líka ein af Leoncieí góðum fíling. Æji nenni ekki að setja fleiri í bili.
Öll helgin fór í að vinna á sirkus, það var bara alveg ágætt. Ég gekk aðeins of langt í ... á föstudaginn en bætti það upp með góðri og heiðarlegri hegðun á laugardag.
Mér finnst eins og ég sé búin að gera alveg fullt. Samt gæti það alveg verið vitleysa eins og svo margt annað.
Á mánudaginn týndi ég símanum mínum. Þegar ég kom heim seint og um síðir ákvað ég að hringja í hann, varð rosa glöð þegar það var svarað en adam var ekki lengi í paradís... helv... beyglan sem fann símann var svo útúr kortinu af neyslu eiturlyfja (að ég held) að hún bara neitaði að skila símanum. Hún talaði alltaf við mig á smástund og skellti svo á. Það litla sem hún sagði var bara rugl, hún talaði um að láta lögguna fá símann, hún talaði líka um að þá gæti löggan fundið út hvað ég væri alltaf að gera með alla þessa útlendinga með mér!!!??? Ég varð svo reið að ég átti bara ekki til orð. Eftir ráðleggingar frá helgu og um það bil 20 áskell ákvað ég að hringja bara í símann minn daginn eftir. Þess þurfti ég svo ekki þar sem blessuð manneskjan skildi símann eftir heima hjá einhverjum gaur og hann var svo almennilegur að hringja í helgu daginn eftir og láta vita af staðsetningu símans. Að sjálfsögðu sótti ég símann og þakkaði vel fyrir mig.
Allt er gott sem endar vel.
yfir og út.

sunnudagur, júní 20, 2004

Ég fór á Húsavík til að bera Leoncie augum. Það er skemmst frá því að segja að það var FRÁBÆRT!!! Dálítið eins og vera á balli í Árseli. Fyndið. Húsvíkingar eru undarlegur þjóðflokkur. Leoncie tók 8 lög, þar af spilaði hún "ást á böbbnum" þrisvar. Hún tók líka eina pásu og þá sá plötusnúður um að skemmta okkur með mjög slæmri tónlist. Þetta var samt alveg peninganna virði. Eiginlega var bara alveg fáránlega gaman. Við ákváðum samt að fara aftur í sveitina þegar Leoncie stórstjarna steig af sviðinu, eftir mikið uppklapp. Í sveitinni var stórkostlegt veður þannig að við fórum bara í Dimmuborgir og röltum þar um í túristalausri nóttinni. Gaman gaman.
Í dag klæddi ég mig upp í ofvaxinn bláan samfesting og bar olíu á hvorki meira né minna en eitt stykki sumarbústað. Ég var berfætt, í samfestingi og hlírabol. Þurfti að bretta uppá skálmar og ermar þannig að ég leit út eins og hobbiti.
Nú sit ég og bíð eftir að grillmatur verði tilbúinn mmmmmmm nammi namm....
Fer heim á morgun og að vinna á þriðjudaginn. Hið ljúfa líf er víst að verða búið í bili.
Bókin með svörin segir: "það verður afar athyglisvert", nú er bara að bíða og sjá.
yfir.

föstudagur, júní 18, 2004

Sveitin
Ég er í Mývatssveit. Ég er alveg að tapa mér úr gleði bara yfir að vera hér. Ég þarf ekki að gera neitt, allt er bara frábært. Sveitarómantíkin er yndisleg. Úti í garði er gestahús með einu rúmi og einum litlum sófa, á veggnum er olíulampi og kerti og gamall sími á borðinu. Yndislegt, yndislegt. Allt ilmar af sumri. Samt er soldið kalt en mér er alveg sama. Ég vil ekki fara heim, ég vil vera hér. Það er e-ð við þennan stað sem lætur mér líða eins og allt sé á sínum stað. Það er ekkert kaos. Ekkert rugl.
Múbbinn er líka hér og það er alveg stórskemmtilegt. Við erum búnar að rúnta um allt og ég er búin að mala frá mér allt vit.
Hér er blað sem kemur út einu sinni í viku, á forsíðunni eru taldir upp þeir sem eiga afmæli í vikunni.
Hér eru kindur úti á túni.
Hér eru hverir og maður sér gufustróka birtast uppúr jörðinni.
Hér er gjá til að baða sig í.
Hér gerast ævintýrin sem ekki er pláss fyrir í Reykjavík.
Hér er yndislegt fólk sem býður mig velkomna.
Hér er ég.

Jæja nú ætla ég fara í Gamla bæinn og fá mér bjór og hlusta á jazztríóið B3.
sMartan biður að heilsa ofan af hálendi, í þetta sinn er hálendið alvöru.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Ég heiti Marta og ég er tómatur. Ég missti mig í sólbaðið í dag, sat á Austurvelli í 3 tíma með bera handlegggi. Núna er ég tómatur á handleggjunum, það er að segja upp að stuttermabolafari, þar er ég viðbjóðslega hvít. Ég fór að vinna klukkan fjögur og þá fékk ég þá snilldar hugmynd að fara með manninn í sund. Hendurnar hrópuðu NEI en hver hlustar svo sem á þær.
Ég hitti gamla konu í sundi sem sagði mér að kaupa tómata(túmata) í nóatúni og bera þá svo á hendurnar á mér. Að sjálfsögðu gerði ég bara eins og mér var sagt og bar á mig tómata. Ég fann líka aloe vera gel og hef dundað mér við að maka því á mig milli þess sem ég sannfæri manninn um kynferði sitt. Ég hef fulla trú á því að á morgun verði ég orðin gullinbrún á litinn.
Já það er gaman að vera til á sumrin.
Einu sinni fór ég í sólbað og var rosalega rauð, ég drakk einn bjór og hætti að vera rauð. Það segir mér að í kvöld verð ég að fara og drekka bjór.
Sumarfrí á morgun.
Tómaturinn kveður ofan af hálendi íslands.
Lifi ljósið.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Jæja þá er að búið og ég þarf ekki að hugsa um það meir. Vonandi.
Vaxinu var frestað fram á næstu viku, það er ágætt, frestunaráráttunni verður að vera fullnægt öðru hverju.
Ég á eftir eina vakt svo fer ég í sumarfrí í 10 daga, það verður rosalega fínt. Veit samt ekki hvað ég á að gera á meðan, mér finnst eins og ég verði að fara e-ð. Æji kannski ég hangi bara heima og geri ekki neitt, stundum er það ágætt.
Ég vakti lengi í nótt, enn og aftur lendi ég í frasanum:"þeim dugir ekki dagur sem drekka fram á nótt". Árans.
Ég þekki fólk sem borðar plast.