föstudagur, október 24, 2008Ég verð stundum hreinlega hrædd við það hvað ég er orðin mjúk manneskja og meyr eftir að barnið kom til sögunnar. Er algjörlega búin að týna harðajaxlinum einhvers staðar á leiðinni.
Ég hélt í alvöru að ég meyrleikinn sem fylgdi óléttunni mundi minnka þegar hún væri yfirstaðin. Mikill misskilningur þar á ferð. Þetta ástand eykst bara ....
Um daginn hringdi vinkona min í mig næstum þvi æpandi og gólandi af geðshræringu.
"Marta! krakkinn var að hætta á leikskólanum og ég var næstum því farin að grenja!!!! Hvað er eiginlega að mér???"
Hef átt svipaðar samræður við aðrar mömmu vinkonur. Þetta jaðrar alveg við að vera fáránlegt, eða er hreinlega fáránlegt. T.d. finnst mér alveg agalega erfitt að mæta á skemmtanir í leikskólanum. Þar eru allir svo krúttlegir og foreldranir svo miklar dúllur að mig langar bara til að taka upp vasaklútinn og taka eitt gott grenj!
Stundum væri hreinlega ágætt að eiga smá eftir af harðjaxlinum.

Allavega, að öðru, eða svona næstum því. Þessi tveir litlu strákar eru svo heppnir að eiga hvorn annan. Þeir eru svo yndislegir vinir og hafa verið það svo lengi sem þeir muna. Það er algjörlega ómetanlegt.

miðvikudagur, október 15, 2008

Börn eru stundum svo miklir lúðar að það bara gengur ekki upp.
Í dag kom barn í heimsókn til mín. Ég og mamman ákváðum að deila saman kvöldmat. Svo eru flestir búnir að borða, mömmur sátu og spjölluðu og annað barnið hvarf inní herbergi að leika, eða það héldum við.
Eitthvað var nú undarlega hljótt inní herbergi. Móðir fór og athugaði málið. Ekki var það nú sérlega heillandi sjón sem mætti hennni. Litli undursamlegi englabossin var búin að hafa svona líka huggulega formaðar HÆGÐIR (já ég verð að nota hjúkkumál þarna) í gluggakistuna inní herbergi!!!!! Ekki nóg með það heldur hafði barnið dundað sér við að maka þessum ilmandi afurðum sérlega lystilega um alla gluggakistuna.
Mjög listrænt allt saman eða svo fannst örugglega barninu.
Hvernig dettur þeim þetta í hug????

fimmtudagur, október 02, 2008

Ég sat í gömlum strætó, svona með mjórri hurð að aftan. Strætóinn beygði eins og enginn væri morgundagurinn og fauskurinn frammí rétt svo stoppaði til að hleypa farþegum inn/út og brunaði svo aftur af stað. Ekkert að hinkra á meðan fólk fékk sér sæti enda algjör óþarfi, bara góð jafnvægisæfing fyrir mig og minn 3 ára. Hann hlustaði á "kátir voru karlar" á hæsta styrk í útvarpinu. Alltí einu fannst mér brakið og brestirnir í strætó, tónlistinn, hraðinn á vagninum, lyktin og fúli karlinn frammí vera svo óskaplega íslenskt. Það vantaði bara fyllibyttuna.
Hils Marta