miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Jæja. Rúmlega 3 dagar í tveggja ára afmæli.
Ég er búin að hlakka mikið til að halda þessa veislu en það er líka alltaf búið að vera voða langt í hana. Alltí einu áttaði ég mig á því að þetta er allt að bresta á og dreif mig í að bjóða fólki. Það gekk nú barasta ljómandi vel.
Ég fór líka í Bónus, gleymdi innkaupalista en verslaði svona það sem mér datt í hug að þyrfti að eiga fyrir afmælisveislu. Í kvöld ákvað ég svo að byrja á að baka skinkuhorn. Getur ekki verið svo mikið mál. Byrjaði samt ekkert svo vel þar sem ég komst að því að ég átti hvorki hveiti né egg og meira að segja eitthvað lítið af mjólk. Nú spyrja sjálfsagt einhverjir hvað ég hafi keypt í bónus. Ég keypti helling. Bara ekki aðal dótaríið.
Fór í 10/11 og reddaði því. Kom aftur heim og hófst handa við baksturinn. Þetta byrjaði allt voða vel, barnið tók virkan þátt og mér fannst þetta allt voða rómantískt.
Svo kom að því að búa til horn úr þessu deigi. Það er skemmst frá því að segja að ég hreinlega gat það ekki. Þau urðu of lítil, of stór, of breið eða bara of eitthvað. Þarna er það sem hæfileika mína vantar. Að skapa form úr einhverju sem er ekki í formi.
Jæja ég setti ófögnuðin inní ofn.
Að lokum hringdi ég í Svölu skinkuhornameistara og bað hana um að bjarga afmælinu.
Skinkuhornin mín eru hér hjá mér ennþá en það er bara vegna þess að ég er að manna mig uppí að henda þeim í ruslið.
Nú sný ég mér að maregnsnum :)
Gangi mér vel.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Næturvakt.
Ætlaði mér aldeilis að hafa það huggulegt ásamt Múbbanum og fleiri gömlum vinum sem hafa ekki sést lengi. Múbbinn festist svo í heyskap og ég á nætuvakt. Átti engu að síður ágætis kvöldstund með sófanum góða og vinum mínum sem sinna erfiðu og krefjandi starfi á bráðavakt í Chicago. Mín vakt er ekki eins hádramatísk.
Mig langar agalega að skrifa margt og mikið. Því miður virðist vera eitthvað fátt um fína drætti í heilabúiniu eins og stendur og engin sérstök vitneskja sem vellur þaðan út.
Kannski ég fari bara að lesa einhvern áhugaverðan fróðleik.
Hils.

Viðbót.
Í nótt er ég búin að skanna barnaland. Ég veit að maður á ekki að gera grín að minni máttar en í skjóli nafnleyndar verð ég bara að gera smá grín að ensku kunnáttu þessarar stúlku sem leitaði sér aðstoðar á beibílandinu:
"Hello i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray :) I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007. One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003. Are something wrong this toy or????? What can I do?? Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better???? "

Einhver óprúttin aðili var óforskammaðri en ég og snaraði þessu yfir á íslensku. Smá útúrsnúningur en mjög hressandi:"Halló,Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????"

Ég þurfti að vanda mig svakalega við að halda andliti og missa mig ekki í einhvers konar geðsýkis-svefngalsa hláturskast.
Yfir

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Sumum finnst voða leiðinlegt að lenda í úrtaki hjá Gallup. Einhvern vegin hefur mér alltaf fundist það vera voða spennandi. Finnst yfirleitt eins og ég hafi unnið vinning þegar mér er tilkynnt að ég hafi lent í úrtaki. Verð sem sagt voða spennt og æst í að taka þátt.
Þess vegna gat ég ekki afþakkað áðan þegar ég fékk hringingu frá umræddu fyrirtæki. Jafnvel þó ég væri á kaffihúsi með vinkonu minni, góðri vinkonu sem ég hitti sjaldan. Ég hafði í raun ekki tíma en svaraði samt. Í ljós kom að könnunin var um viðhorf til vínbúða.
Einu sinni verslaði ég oft vín. Mér til mikillar furðu komst ég að því að ég man ekki hvenær ég keypti síðast eitthvað í vínbúð. Ég gat ómögulega gert upp við mig hvað mér fannst mikilvægast; viðhorf starfsmanna, næg bílastæði, nálægð við matvörubúð, vöruúrval eða umhverfi verslunar. Var ógurlega mikið að vandræðist með hvernig ég ætti að raða þessu í röð eftir mikilvægi. Spurning um að taka könnunina of hátíðlega?
Eftir allt saman var þetta bara dálítið erfið skoðanakönnun þar sem ég hafði enga skoðun á umræddu máli.
Svo endaði þetta með tekjuspurningum í lokin og þá verð ég alltaf dáldið bitur, enda alltaf í lægsta flokknum.
Yfir