föstudagur, september 26, 2008

Fékk þá skyndihugdettu að leita að seríu 4 af Gray's á netinu og ath hvort ekki væri hægt að horfa á hana... Guð minn góður hvað það var slæm hugmynd.
Ég er næstum því hrædd við hvað mér finnst þetta skemmtilegt. Ég fæ kitl í magann og flissa uppúr þurru.. það er klárlega ekki eðlileg hegðun yfir sjónvarpsþætti.
Ó svo skemmtilegt.

samt pínu pirrandi þegar ég sé þau gera eitthvað sem er algjör steik.

miðvikudagur, september 24, 2008

Jæja best að lífga uppá þetta blogg með einhverju skárra en bitri skólafærslu. Verst að ég hef eiginlega ekkert um að tala nema skólann. Núna er ég að gera aðferðafræðiverkefni. Ég get svo svarið að ég heyrði meinlokuna skellast aftur þegar ég byrjaði að lesa.
En nú er eitthvað að gerast.
Ég brunaði til Ísafjarðar um helgina ásamt barni og hluta af systkinum. Tilefnið var að bera augum hana litlu Irmu Karítas og ég varð alveg alls ekki fyrir vonbrigðum. Það var ægilega gaman að sjá hana og fjölskylduna alla í Tangagötunni, eða var það Smiðjugata?
Í dag gerðist ég svo ofur sparnaðarkona þegar ég sótti barnið á leikskóla, skelltí því hjólakerruna og hjólaði í Bónus! Fannst ég ægilega kreppu- og umhverfisvæn. Er ekki frá því að ég hafi skorað nokkur auka prik hjá sjálfri mér þegar það fór að rigna og ég var akkúrat hjóla upp brekku á móti vindi. Mér finnst ég vera algjör harðjaxl :)
Bæjó Marta.

miðvikudagur, september 17, 2008

Skólinn minn er mjög skemmtilegur og oftast er ég að læra eitthvað áhugavert. Það er samt ekki alltaf skemmtilegt. Undanfarið hafa hrannast upp hlutir sem fara verulega í taugarnar á mér. Í þeirri von að ég hætti að tuða um þetta á hverjum degi þá ætla ég að hleypa út smá tuðsprengingu hér og nú.
Mér finnst alveg fáránlegt að fólk eigi að byrja í verknámi í næstu viku og það er ekki enn komið inn á Ugluna hvernig raðast niður á deildir. Það veldur því að fólk hefur engan tíma til að kynna sér þá deild sem um ræðir og kemur verr undirbúið í verknámið.
Skóli á kvöldin. Það verður ein vika á þessari önn þar sem ég þarf að mæta í skólann frá 17-18:45, hvað er það????!!!! Ég er í dagskóla, ekki kvöldskóla. Ég á barn sem þarf að sinna en því óviðkomandi þá ætlast ég til þess að tímasókn í skólanum fari fram á dagvinnutíma. Mér finnst bara alveg útí hött að það sé kennt eftir kl 17. Ég veit að þetta eru bara 5 dagar en mér er alveg sama. Það eru 5 dagar sem þarf að redda pössun í 2 tíma á dag. Ég er á námslánum og fæ ekki borgað aukalega fyrir að mæta á einhverjum fáránlegum tímum í skólann og borga einhverjum fyrir að passa barnið.
Svo eru það heimapróf. Það eru 4 heimapróf yfir önnina í einu námskeiðinu. 1 er búið og var bara á eðlilegum tíma. 2 verða sett á netið kl 14 og verða til 23:59 sama dag og það 1 verður sett á netið kl 16 og þarf að skila því inn fyrir kl 02 um nóttina. 02!!!! Síðan hvenær er bara í lagi að ætlast til þess að fólk nýti tímann eftir miðnætti til að vera í prófi? Mér finnst líka asnalegt að prófið komi ekki inn á ugluna fyrr en kl 16 (finnst reyndar kl 14 líka vera of seint), mér finnst að prófið eigi að vera fólki aðgengilegt á dagvinnutíma.
Síðast en ekki síst. Ég verð náttúrulega í verknámi. Verknámið er 4-5 8 tíma vaktir á viku og varir í 4 vikur. Ætlast er til að ein vakt á viku sé kvöld eða helgarvakt. Já frábært! Mætum á munalatíps kl 8 á sunnudagsmorgni þegar lítið/ekkert er um að vera, bara svona til að sjá hvernig deildin virkar á þeim tíma.
Eins gott að fara á kvöldvakt til að læra að taka til kvöldlyf. Jú jú það er alveg gott að mæta á kvöldvaktir líka til að sjá hvernig allt fer fram þá en common 1x í viku!
Í fyrra spurði ég hvort þetta væri í alvöru alveg nauðsynlegt og þá var mér sagt að ég væri nú að öllum líkindum að fara að vinna vaktavinnu í framtíðinni og það væri nú gott að finna hvernig þetta er í raun og veru.
Til að forðast misskilning þá er gott að hafa á hreinu að fyrir þetta fáum við alls engin laun. Ætli það sé ekki verið að hita mann upp fyrir næstu 40 árin í vinnu hjá rikisstofnum þar sem stundaður er stanslaus niðurskurður.
Kannski finnst fólki þetta vera alltí lagi, ég er jú í skóla og oft mikið að gera og allt það. En ég vil stjórna mínum kvöldum og seinnipörtum sjálf. Ég er í dagskóla og ég vil að tímasókn sé á tímabilinu frá 8-17 virka daga, ekki á öllum tímum sólarhrings. Mér finnst þetta fáránlegt því þetta kemur illa við mig þar sem ég er einstætt foreldri en fólk þarf ekki að vera í minni stöðu í lífinu til að vera í vandræðum með að nýta kvöld/seinnipart í próftöku, launalausar kvöldvaktir og tímasókn.
Þetta var nöldur dagsins í boði Mörtu sem í kvöld er bitur háskólanemi.

sunnudagur, september 14, 2008

Ég er ekki moggabloggari og blogga sjaldan eða aldrei um eitthvað sem er í fréttum en ég bara get ekki orða bundist.
Ég stend með ljósmæðrum og dáist að þeim fyrir að láta sér ekki segjast. Mér finnst alveg fáránlegt hvernig komið er fram við þær í þessari kjarabaráttu.
Áfram ljósmæður

miðvikudagur, september 03, 2008

nú jæja...
Mig langar svo ógurlega út að hitta nýtt fólk. Mig langar alveg ægilega mikið að góna á huggulega karlmenn og bara sitja einhvers staðar og hitta fólk, sjá fólk sem ég hef ekki séð lengi og bara eitthvað svona mingla.
Það glataða er samt að það er svo langt síðan ég hef farið eitthvað út að ég veit ekki hvar ég á að byrja og hvað ég á að fara að gera. Stundum er alveg dálítið leiðinlegt og erfitt að vera alltaf alveg bundin föst við Eggertsgötu 10. Mig langar að skella mér spontant á kaffihús eða tónleika sem ég les um í blaði.
Bara svona hey þarna er eitthvað skemmtilegt, ætti ég að kíkja?
Hvernig á þetta eiginlega að geta gengið upp ef ég fer aldrei út?

Svo er það hinn endinn, dálítið mússí en sannur engu að síður.
Stundum, mjög oft, hitnar mér að innan yfir því hvað ég á góðar vinkonur og hvað ég er búin að kynnast mörgum góðum stelpum/konum á síðustu árum.
Þið allar sem borðið með mér og eruð samferða í Bónus. Þið sem komið í kaffi á kvöldin eða bjóðið okkur í morgunkaffi um helgar. Þið sem eruð alltaf tilbúnar að hjálpa mér að lifa lífinu. Þið sem tuðið með mér yfir barni eða börnum. Þið sem skiljið svo vel og leyfið mér alltaf að nöldra, þó það sé bara innantómt nöldur. Þið sem komið með í ferðalög og sund. Þið sem talið endalaust við mig í símann og bara þið sem sýnið mér, og okkur, svo oft hvað ykkur þykir vænt um okkur.
Þið eruð alveg bestar, allar með tölu :)