laugardagur, október 30, 2004

jahérna hér!!
Ótrúlegt en satt þá sit ég á bókhlöðu þjóðar vorrar og rembist eins og rjúpan við staurinn við að læra lífefnafræði. Var meira að segja komin hingað fyrir 12!!!! Ég vil minna ykkur, kæru lesendur, á að það er laugardagur og ég heiti Marta. Mér tókst ætlunarverk mitt í gær, ég kíkti út. Já rétt kíkti og fór svo heim fyrir 2!!!! mér finnst þetta alveg stórmerkilegur árangur. Mér fannst alveg ótrúlegt að það var ennþá dagskrá í sjónvarpinu þegar ég kom heim. En mikið er nú gott að vakna hress og vera með um það bil jafnmargar virkar frumur í kollinum í dag og í gær. já já...
Ég er samt með hálsbólgu, ætli það sé útaf því að ég drakk ekki nógu mikið áfengi í gær til að drepa sýklana sem eru í hálsinum?? kannski hálsinn á mér sé orðin vanur því að fá e-ð sterkt á föstudögum til að drepa uppsafnaða sýkla vikunnar. Jah, maður spyr sig.
En jæja best að halda þessu áfram.

fimmtudagur, október 28, 2004

Það er alveg ótrúlegt hvað það er hressandi og skemmtilegt þetta líf. Ástin blómstrar í hverju horni og allir eru hamingjusamir og brosandi! Eða eitthvað svoleiðis, kannski er allt öfugt og vitlaust.
Mér svona sýnist það.
Alveg finnst mér það vera ótrúlegt hvað fólk getur komið manni á óvart, bæði og góðan og slæman hátt.
Það er vont að vera vonsvikin.
Fyrir ykkur mun ég vaða eld og brennistein.

mánudagur, október 25, 2004

Jæja...
Nú hefst raunveruleikinn aftur. Hann skellur á mig með fullum krafti í dag. Airwaves er búið. Ég er með dálítinn lopa í höfðinu og kroppurinn er aumur eftir erfiða helgi. Nú verður samt tekið á þessu öllu af krafti. Úff.....

gaman að læra um anoraxíu og svoleiðis hluti. Kannski gaman sé ekki rétta orðið, frekar spennandi. En nú erum við að þræta um hvort spice girls voru mjóar eða ekki.
Það er nú bara gott að vera komin aftur í skólann. Nú er stefnan tekin á að vera hér þangað til jólin koma.
Vantar nýtt dót.

þriðjudagur, október 19, 2004

æji þetta er allt saman hálf ömurlegt.
Ég nenni ekki að læra. Ég er ekki í vinnu, nema stundum, og hvað hef ég þá annað að gera en að læra?!? Búin að skoða allt sem ég gæti skoðað á netinu. Allavega allt sem mér dettur í hug að fara að skoða. Er búin að taka lífefnafræðibókina uppúr töskunni en mér verður bara illt af því að horfa á hana. Ég er búin að vera mjög löt við að læra og er komin með samviskubit. Það er ömurlegt, samt nenni ég ekki að læra til að losna við samviskubitið því ég veit að ég þarf að læra svo mikið til að allt verði í lagi.
Svo eru airwaves um helgina og ég ætla að fara á marga tónleika og líka vinna. Þá er enginn tími til að læra. Allt bara frekar ömurlegt.
Hef ekki séð neitt merkilegt síðan á föstudaginn. Það er líka ömurlegt.
Það er kalt úti. Það er líka rok. Arg og garg!!!! ég leyfi mér að blóta, helvítis djöfulsins vesen er þetta allt saman. Stundum væri svo gott að fljóta bara með og gera ekkert í þessu.
Ég á engan andskotans pening, kannski það sé rótin að þessu öllu saman.
Ok nú verð ég að gera e-ð í þessu.
Ég get verið glöð yfir því að það er ekki rigning.
Ég get verið glöð yfir því að ég á armband á airwaves.
Ég get verið glöð yfir því að það verður vonandi ekki svona kalt alltaf.
Ég get verið glöð yfir því að ég er í hlýrri flíspeysu með stórum kraga.
Ég get verið glöð yfir því að einu sinni gaf þorgerður mér peysuna.
Ég get náttúrulega haldið áfram að vera glöð yfir jakkanum.
hmmmm.... hvað meira
Ég get verið glöð yfir að þurfa ekki að labba í hálftíma til að komast heim.
Glöð yfir því að vera ekki að vinna úti núna.
glöð yfir góðum vinum og fjölskyldu.
Svo verð ég bara að koma á friði í heiminum og sjá til þess að allir hafi í sig og á. Þá verður allt betra.
og hana nú!!!

mánudagur, október 18, 2004

Ég er í skólanum.
Mig langar út. Nei, kannski ekki út en mig langar út úr þessari skólastofu(bíósal) . Mig langar að sitja einhvers staðar og drekka kaffi eða kakó með rjóma. Gott útsýni mundi ekkert skemma fyrir.
Naut með eindæmum góðs útsýnis á fimmtudaginn. MJÖG fínt. Síðan hefur það ......
æji bla bla bla... Nenni ekki að tala um þetta.
Njóta á meðan varir.
Ský.
Missti mig aðeins á föstudaginn. Fór langt fram úr sjálfri mér. Minnið er meira að segja hálf stopult. Mér finnst það ógeðslegt og leiðinlegt. Enda var ég mjög óhress á laugardaginn. Var í vinnu og var alls ekki hress. Kannski ég ætti bara að segja að ég hafi verið frekar óhress eða kannski mjög. Þetta er nú aldeilis hressilegt og skemmtilegt.

Kuldinn er bara hressandi. Mér finnst hann betri en rigning á hlið. Svolítið erfitt að ganga á móti vindi samt. Komin með ástæðu til að vera í ullarsokkum daginn út og daginn inn. Það er gott.
Ég er andlaus. Mig langar að góna meira.

þriðjudagur, október 12, 2004

Ég kem sjálfri mér á óvart.
Nú er samt komið nóg, farin út í ferska loftið.

mánudagur, október 11, 2004

Jakkinn
Veit ekki hvort ég var nokkurn tíma búin að deila með ykkur hvað ég á yndislegan jakka. Ég fékk lánaðan jakka um daginn. Gamlan, bláan leðurjakka. Ótrúlega flottan. Síðan eru liðnir þónokkuð margir dagar. Jakkinn verður alltaf fallegri og fallegri. Nú er svo komið að ég á í ástarsamband við jakkann. Hann hefur allt sem þarf. Hann er flottur, þægilegur og passar fullkomnlega. Hann er líka hlýr og bara allt. Hann hefur allt sem góður jakki þarf að hafa. Góðir vasar prýða hann. Það er jafnvel svo að mér finnst ekki hægt að lýsa því hvað þessi jakki er góður og frábær og yndislegur. Hann gerir allt betra.
Mér finnst gaman að tala um jakkan með miklum eldmóði. Sá eldmóður skilar sér ekki nógu vel í orð.
Ætli það sé til of mikils ætlast að vilja hitta manneskju sem toppar jakkann?

föstudagur, október 08, 2004

Fékk dömubindi sent í pósti!!!!! kynnning frá always ultra... ég get ekki annað sagt en að mér hafi fundist ógeðslegt að opna einhver bækling og þar var bara álímt eitt dömubindi Það leit einhvern vegin út fyrir að vera í notkun. Ég vil hafa þetta almennilega pakkað inn ef það þarf endilega að plata mann til að setja sveppasýkingavaldandi gerviefna ógeðis hrylling innan í nærbuxurnar einu sinni í mánuði !!!!
ÉG ER ALFARIÐ Á MÓTI ÞESSU!!!!!!
harmaklám í öllum hornum.
Lægð yfir landinu og kuldi á miðunum. Það er þó að birta sums staðar. Sumir hafa gott skyggni aðrir alls ekkert. Já, já þetta er nú spennandi tímar sem við lifum á.

Mig er farið að langa til að kveikja í háskólabíó. Kannski ekki alveg kveikja í því en mig langar í aðra stofu. Alla virka daga nema fimmtudaga sit ég hér í sal 3 frá kl 12:45 til 16:30 í sama sætinu. Mig langar allaveg ekki í bíó hér, ég get ekki ímyndað mér að kaupa mér miða á einhverja góða mynd og svo bara stendur á miðanum: "salur 3" ég hugsa að það mundi fara illa með geðheilsuna og kannski annars góða bíómynd.

Er ekki frá því að sæti strákurinn sé ekki lengur sætur. Sem er helvíti merkilegt þar sem sætleiki hans hefur haldist nánast óbreyttur í langan tíma. Undarlegt!

Kolvetni eru aldehýð eða ketónar með mörgum hydroxýl hópum (-OH) eða efni sem mynda slíkar sameindir við vatnsrof
Æsispennandi!

þriðjudagur, október 05, 2004

Eymd og volæði.
Með hor í nefi, hóst í hálsi og almennt ógeð. Hvers á maður að gjalda??!? Mér er kalt. Ég hef engan tíma til að standa í þessu, ég vil vera skýr í kolli og anda djúpt án átaka. Það er víst ekki í boði í dag.
Ég get samt verið glöð yfir því að ég þarf ekki lengur að keyra Akranes-Reykjavík- Reykjavík -Akranes á hverjum degi.
Í gær var ég handviss um að lífi mínu væri að ljúka þegar ég keyrði Kollafjörðin í 44 m/sek og brjáluðum sandstormi. Sem betur fer er ég hér til að segja þessa sögu... já ég get víst verið glöð yfir því líka.

Var vakin fallega í morgun af 7 ára gömlum höndum sem komu og knúsuðu mig. Þá áttaði ég mig á að ég hef saknað Birtunnar.

Ætlar þetta rok aldrei að fara og feykja einhverjum öðrum en mér útí veður og vind?

sunnudagur, október 03, 2004

Sundum skil ég ekki.
Hvað segiru gott? Allt fínt.
Bar um helgi.
Fékk leiðindakomment úr mjög óvæntri og harðri átt. Varð aðeins fúl svo meira fúl og svo bara pissed, þá fór ég að öskra. Öskraði, leyfði fólki að skammast sín, hætti að vera fúl, fór heim, sofnaði, vaknaði í m0rgun aftur orðin fúl. Kannski frekar vonsvikin. Svekkt. Súr.

Dagurinn í gær var samt góður. Kaffihúsa/bar/billjard hangs allann daginn.
Æji kollurinn er tómur. Allt fast. Mórallinn er á hægri leið inní kollinn minn.

Ég sá ekki margar perlur eftir 2.