laugardagur, mars 29, 2008


móðir og barn drepa tímann með því að leira úr dásamlegum heimatibúnum leir.
Mamman: en hvað þetta er fínt hjá þér, er þetta lítið barn?
Barn: nei þetta er fótbolti.

Gaman saman.

föstudagur, mars 28, 2008

Ég er yfirleitt svona morgunmanneskja. Vakna snemma og er fljót að vakna og allt það. Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur sofið langt fram eftir degi. Stundum hef ég meira að segja lagst svo lágt að gera grín að fólki sem sefur mikið og lengi.
En jæja... svo ákvað forsjónin að gera smá grín að mér, leyfa mér að finna hvernig það er að vera þreyttur á morgnanna. Eða svona því sem næst. Ég á barn sem getur ekki fyrir nokkurn mun vaknað snemma. Hann er úrillur og fúll og vill alltaf sofa meira. . Gengur meira að segja stundum svo langt að lemja mig og öskra "nei nei nei" þegar ég reyni, blíðlega að sjálfsögðu, að koma honum á fætur á morgnanna. Í dag svaf hann td til hádegis.
Það verður eitthvað skrautlegt þegar þetta barn verður unglingur og vill sofa ennþá meira.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Ég framkvæmdi mjög heimskulega athöfn í gær þegar ég skoðaði gamlar sumarmyndir úr sveitinni. Myndirnar voru voða fínar en ég var ekki sátt þegar ég leit næst í spegil.
Í dag er ég sem sagt bara búin að borða holla súpu og grófar sykurlausar bruður.
Barnið er veikt svo við höngsum bara. Búin að horfa á latabæ ca 8x og er orðin svo gegnsýrð að ég hafði ekki einu sinni rænu á að lækka á meðan barnið svaf í sófanum. Áfram Latibær!

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég hugsa stundum mikið og margt og allt fer í steik.

Þegar ég var lítil fannst mér voða gaman í sunnudagaskólanum. Ég gekk meira að segja svo langt að fara í marga mismunandi "sunnudagaskóla", í þjóðkirkjunni því amma fór með mig þangað, í kaþólsku kirkjunni því þar kunni presturinn að galdra og maður fékk hálsmen og í hjálpræðishernum því þar fékk maður að föndra svo mikið og Imma og Óskar voru svo skemmtileg.
Svo fæddist gullbarnið og ég lét skíra hann. Hugsaði í smátíma um það hvort ég vildi láta skíra hann eða ekki og komst að því að það væri mörgum í fjölskyldunni mikilvægt og mér að skaðlausu.
En jæja... sunnudagaskólinn. Um síðustu helgi ákvað ég að skella mér einu sinni þangað með barnið. Var alveg harðákveðin í fara. Svo fór að líða á laugardaginn og ég að hugsaði meira og meira um þetta. Sá fyrir mér prest að tóna, konu með gítar og sjálfa mig að syngja "jesús er besti vinur barnanna". Vissi fyrir víst að gulldrengurinn mundi ekki taka undir og ég hef ekkert brjálæðislega gaman að því að syngja fyrir framan annað fólk.
Svo fór ég að hugsa um síðustu skipti sem ég hef farið í messu. Mér finnst alveg rosalega skrýtið að fara í messu. Mér fer alltaf að líða eitthvað undarlega og mig langar að flissa. Ég hef meira að segja stundum fengið einhverja undarlega sértrúarsöfnuðs tilfinningu - sérstaklega þegar presturinn tónar. Allavega þá hef ég eytt þessum messum í að telja hvað það eru margir sálmar eftir og vanda mig við að flissa ekki.
Sem sagt, eftir því sem ég hugsaði meira um það þá fannst mér fáránlegri og fáránlegri pæling að fara í sunnudagaskólann að syngja lofsöngva til einhvers sem mér finnst líklegra að ég trúi ekki á. Það væri náttúrulega alveg fáránleg hræsni.
Ég fór sem sagt ekki og ætla ekki að fara í bráð. Einhvern vegin er ég afskaplega fegin að vera búin að fá einhvern botn í þetta.
Yfir og gleðilega páska.