Ég hugsa stundum mikið og margt og allt fer í steik.
Þegar ég var lítil fannst mér voða gaman í sunnudagaskólanum. Ég gekk meira að segja svo langt að fara í marga mismunandi "sunnudagaskóla", í þjóðkirkjunni því amma fór með mig þangað, í kaþólsku kirkjunni því þar kunni presturinn að galdra og maður fékk hálsmen og í hjálpræðishernum því þar fékk maður að föndra svo mikið og Imma og Óskar voru svo skemmtileg.
Svo fæddist gullbarnið og ég lét skíra hann. Hugsaði í smátíma um það hvort ég vildi láta skíra hann eða ekki og komst að því að það væri mörgum í fjölskyldunni mikilvægt og mér að skaðlausu.
En jæja... sunnudagaskólinn. Um síðustu helgi ákvað ég að skella mér einu sinni þangað með barnið. Var alveg harðákveðin í fara. Svo fór að líða á laugardaginn og ég að hugsaði meira og meira um þetta. Sá fyrir mér prest að tóna, konu með gítar og sjálfa mig að syngja "jesús er besti vinur barnanna". Vissi fyrir víst að gulldrengurinn mundi ekki taka undir og ég hef ekkert brjálæðislega gaman að því að syngja fyrir framan annað fólk.
Svo fór ég að hugsa um síðustu skipti sem ég hef farið í messu. Mér finnst alveg rosalega skrýtið að fara í messu. Mér fer alltaf að líða eitthvað undarlega og mig langar að flissa. Ég hef meira að segja stundum fengið einhverja undarlega sértrúarsöfnuðs tilfinningu - sérstaklega þegar presturinn tónar. Allavega þá hef ég eytt þessum messum í að telja hvað það eru margir sálmar eftir og vanda mig við að flissa ekki.
Sem sagt, eftir því sem ég hugsaði meira um það þá fannst mér fáránlegri og fáránlegri pæling að fara í sunnudagaskólann að syngja lofsöngva til einhvers sem mér finnst líklegra að ég trúi ekki á. Það væri náttúrulega alveg fáránleg hræsni.
Ég fór sem sagt ekki og ætla ekki að fara í bráð. Einhvern vegin er ég afskaplega fegin að vera búin að fá einhvern botn í þetta.
Yfir og gleðilega páska.
fimmtudagur, mars 20, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
æjá maður er eitthvað upptekin af hefðinni við skírnina þegar þau eru ný, en neiiii...ekki sunnudagaskóli, sammála þér þar.
Skrifa ummæli