mánudagur, apríl 18, 2005

Á föstudaginn komst ég að því að það væri tími til kominn að koma sér úr soranum í Reykjavík og skella sér í Mývatnssveitina. Ég meira að segja tók á honum stóra mínum og ferðaðist með flugvél. Þeir sem þekkja mig vita að ég þjáist af flughræðslu á mjög háu stigi. Þess vegna var ég mjög ánægð þegar ég sá Sonju í innrituninni, ég réðst á hana og bað um að fá að sitja við hlið hennar í þessari hættuför. Það fór nú ekki betur en svo að þegar flugvélina byrjaði að hreyfast örlítið á miðri leið þá tapaði ég allri skynsamlegri hugsun og sneri mér vælandi að flugfreyunni og fékk að sitja hjá henni það sem eftir var leiðarinnar. Þuríður var svo indæl að sækja mig á flugvöllinn. Mikið var ég ánægð að sjá hana þegar ég kom, skjálfandi á beinunum, úr flugvélinni.
Síðan eru liðnir nokkrir dagar og ég er enn í sveitinni. Mikið óskaplega er þetta yndislegt líf. Ég er búin að vera mjög upptekin við að gera voðalega lítið. Ég er búin að lesa tvær bækur, fara tvisvar í lónið, tala við heimilisfólk og kíkja í heimsókn í Reynihlíð. Jú, ég er líka búin að fara nokkrum sinnum uppí bíl og skutla barninu á heimilinu hingað og þangað.
Ég ætlaði að fara heim í morgun en að sjálfsögðu hætti ég við. Það endar einhvern vegin alltaf með því að ég stoppa lengur en áætlað er. Núna er stefnan tekin á að fara heim á miðvikudaginn.
Já, það er fátt betra fyrir sálina en að komast uppí sveit og gera ekki neitt.
Svona ykkur til skemmtunar þá sparkar litla lífið óskaplega mikið þessa daganna en enn hefur enginn fengið að njóta sælunnar nema ég sjálf.

laugardagur, apríl 09, 2005

já já.
Það sem ég hugsa helst um á mun frekar heima á barnalandi heldur en hér. Það virðist óttalega lítið gerast í mínu lífi nema e-ð sem snýr að stækkun bumbu eða verkjum hér og þar. Ég fer ekki á fyllerí og eftir því sem dagarnir líða þá finnst mér barinn alltaf verða viðbjóðslegri og viðbjóðslegri. Skil ekkert í því núna að ég gat verið þarna endalaust. Þarf núorðið stundum að vanda mig við að hlusta á hjalið um þetta blessaða bar-líf. Þetta sem ég virðist vera búin að yfirgefa og ég er algjörlega sátt við það. Stundum kemur þó upp í kollinn á mér smávegis biturð. Bara smá, það er ég alveg viss um. Núna finnst mér það sem ég er að gera vera svo miklu merkilegra en það sem hinir eru að gera. Já, ég er miklu merkilegri en hinir.
Ég verð þó að játa að stundum er erfitt að vera bara einn í liði á móti rest. Ég og hinir.
Núna er ég heima í notalegu mömmuhúsi. Mér var skipað að taka mér veikindafrí yfir helgina. Þrýstingurinn er e-ð aðeins of hár og það er víst ekki gott fyrir mig. Held samt að það verði allt saman komið í lag á mánudaginn. Annars lítur allt bara vel út. Ljósið dafnar og stækkar og ég finn það hreyfast. Þetta er allt saman stórmerkilegt.

Tek það samt fram að það er alltaf, eða næstum því, gaman að hlusta á vini mína tala.