þriðjudagur, janúar 30, 2007

Skólinn.
Byrjaði daginn á því að sitja hálf ber að ofan á meðan minn kæri samnemandi ungfrú Kristín hlustaði á mig anda og bankaði mig alla í bak og fyrir.
Í smástund héldum við að ég væri með ofvaxna þind og að lifrin hennar væri vitlausu megin en það var að sjálfsögðu helber vitleysa.

Núna er ég heima að læra nema ég er ekki að læra. Ég er ekki nógu skipulögð til að vera að læra. Ég ætlaði að fara að læra en þá var námsefnið alltí hrúgu ofan í skúffu og ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Ég ákvað þá að það væri sniðugast að raða í möppu. En ég gat ekki raðað almennilega í möppu því ég er ekki búin að kaupa svona dót til að skipta möppunni í kafla, þannig að ég setti bara glósurnar í hrúgu í möppuna, það er amk skárri staður en skúffan.
Jæja ég ákvað að skipta þá um fag og skoða glósurnar fyrir morgundaginn. Byrjaði að prenta út en nei... þær glósur eru bara á acrobat og bara ein á glæru, þversum.
Ég tek ekki þátt í svoleiðis vitleysu.
Ég fór niðrí geymslu að leyta að gömlu kaflaskiptidóti, fann það ekki. Möppurnar duttu úr hillunni og ég sparkaði í hilluna.
Blöðin duttu á gólfið svo ég barði í borðið.
Er ekki komin tími til að fara í ikea?

Ætli ég fari ekki bara að taka til og svo að sofa, ekki hægt að læra fyrr en ég er búin að kaupa eitthvað. Mér finnst líka eins og morgundagurinn henti fullkomnlega til lærdóms.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Í dag fór ég í blóðprufu.
Mér fannst það ótrúlega gaman.
Þegar ég kom út var ég með kitl í maganum því ég hlakka svo til að verða hjúkka.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Jæja já...

Ég er búin að vera í ógurlegu dramakasti yfir því að netið skuli vera bilað og að lokað hefði verið á tengingar við útlönd á stúdentagörðum. Ég var alveg viss um að það mundi verða lokað í 10 daga og var farin að sjá fyrir mér að ég mundi sitja og læra öll kvöld.
Netið var lokað í 3 daga.

Annars er skólinn alveg frábær. Skemmtilegir tímar og spennandi verklegt nám. Í dag skoðaði ég í eyru, augu og munnhol.
Athugaði ástand húðar og hárs og sitthvað fleira. Á mánudaginn mældi ég blóðþrýsting í fyrsta sinn og tókst það eftir smá æfingar ;)
Var pínu kjáni í augnskoðuninn í dag og var sífellt að gleyma hvernig átti að nota júnitið (opthalamoscope) sem maður notar. Skrýtið hvernig mér tókst að gleyma því.

Já lífið er að byrja að ganga sinn vanagang. Samt pínu erfitt að finna rútínuna aftur og finna tíma til að læra á milli alls sem ég þarf að gera alltaf. Endalaus vinna. Mjög ánægjuleg vinna engu að síður.
Stúfur er á leikskólanum á daginn og er allur að koma til, hann er samt ekkert sérstaklega glaður þegar ég fer með hann á morgnanna en er víst hress yfir daginn. Að sjálfsögðu er hann samt komin með kvef og hósta og ég krossa fingur og vona að hann sé ekki að verða veikur greyið. Hann er svo sætur og dásamlegur og ég er svo glöð að hann skuli vera hér hjá mér.
Það er svo ótrúlega gaman að fylgjast með honum. Hann er komin með svo mikinn vilja og er svo ákveðin en samt veit hann oft ekkert hvað hann vill, veit bara að hannn vill eitthvað og það strax!!
Bestur.

En ég vil þakka Raggý fyrir ótrúlega góðar veitingar á mánudagskvöldið og ég vona að heimilið hennar hafi verið í lagi eftir heimsókn okkar, þeas að barnið hafi ekki skemmt neitt ;)

Sofa...

mánudagur, janúar 08, 2007

Ef það væri möguleiki á að springa úr monti, stolti, gleði, tilhlökkun eða einhverri annarri góðri tilfinningu þá mundi ég gera það núna.
Var nr 34 með 7.02 í meðaleinkun og náði öllu.
Vei vei vei vei vei vei vei vei vei vei!!!

Allt borgaði sig. Allar lærdómsstundirnar. Allar fórnirnar.
ALLT.
Ji hvað það verður gaman næstu árin :) '
VÚHÚ!!!!!
Ég get svo svarið það að hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er að gera könnun á því hvernig (mögulegir) verðandi hjúkrunarfræðinemar standist langvarandi álag og óvissu.

Mér finnst þetta vera bölvaður dónaskapur og óvirðing. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að fólk taki sér langan tíma í að fara yfir krossapróf!!!!

Hana nú.
Marta

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Einkunnir - nei ekki komnar.

Ég var alveg búin að ákveða að gera ekki ráð fyrir þeim fyrr en 8 jan... en nú er biðin að gera mig gjörsamlega geðveika.
Held ég sé búin að athuga málið svona 5 sinnum í dag. Svo fæ ég panik kast í hvert sinn sem ég opna heimasvæðið mitt. Rétt gjóa augunum á það....
Svo hugsa ég í smástun um að ég hafi örugglega bara ekki fundið einkunnirnar en svo fatta ég að það er vitleysa og held áfram að hanga á netinu.
Svo byrjar hnúturinn að stækka og ég fer aftur að gá.
Gaman.
En við mæðgin komum heim á föstudaginn. Það er gaman.

Ég gleymdi alltaf að segja frá því að það hefur ekkert samband verið á símanum mínum síðan ég kom hingað. Ég fékk fékk mér frelsi í útlöndum en það virkaði ekki og ég nennti ekki að standa í því að laga það eða fá mér færeyskt númer.
Svo ef einhver er búin að vera að senda mér sms með mikilvægum leyniupplýsingum þá upplýsist hér með að engin sms hafa skilað sér í gegnum sambandslausa símann.

Hils smart.

mánudagur, janúar 01, 2007


Gleðilegt árið.

Árið 2006 var algjörlega árið okkar besta barns. Allt sem við gerðum saman stendur uppúr.
Því var eytt í göngutúra, át, kaffidrykkju, umönnun barns, spjall og alls kyns bras.
Takk fyrir samfylgdina og ég vona að árið 2007 verði jafngott eða betra fyrir okkur öll