miðvikudagur, júlí 30, 2008


Ísafjörður.

Mikið óskaplega var gott að koma vestur. Verst að mig langar bara strax aftur. Svei mér þá hvað þetta var mikil dásemd. Samt gerði ég voða lítið, ég bara var.
Ég reyndar heimsótti fólk, fór í göngutúra og hugsaði um fólkið sem ég sakna og hitti fólkið sem ég get hitt og þarf ekki að sakna.
Það er svo langt síðan ég hef farið vestur bara í rólegheit og milljón ár síðan ég hef komið um sumar. Það er svo fáránlegt hvað hver einasti staður á sér sögu í mínum haus. Þarna er kirkjugarðurinn sem ég var svo hrædd við, túnið sem ég renndi mér niður á veturnar, steinninn sem ég drullumallaði á, rólóinn sem ég lék mér á, bryggjan sem ég málaði einu sinni, bakaríið með bestu kringlunum og bara allt allt allt sem mér finnst vera heim.
Það var gaman að labba um og hugsa um hvernig allt var. Skrýtið að labba fram hjá Hlíðarvegi 8 og eiga ekkert tilkall. Ég góndi eins og geðsjúk manneskja á húsið. Húsið var breytt. En veggurinn fyrir ofan ruslatunnuna er ennþá, snúran þar sem afi hengdi svartfuglana á eru ennþá og ég sá rabbabara og tré í garðinum.
Í smástund langaði mig 15 ár (vá mörg ár) aftur í tímann og fá hádegismat hjá ömmu. Labba heim Hlíðarvegin og finna lyktina.
Ég skoðaði líka skúrinn sem við lékum okkur stundum uppá, hann er lítill og samvaxin bílskúrum. Þegar ég var lítll var hann stór og þurfti stiga til að komast upp. Núna er hann pínulítill en það er enn stigi, greinilegt að í sumum hugum er hann enn stór.
Hjörtur henti steinum í sjóinn, sá skip og lék við hund og kött. Hann fékk meira að segja að fara á hestbak.

Þetta var bara eitthvað svo gott og yndislegt að koma. Við gistum á góðum stað hjá góðu fólki og allt var frábært.
Það var frábært að grilla banana og borða úti. Frábært að horfa á barn og hund leika. Frábært að sitja og drekka kaffi. Meira að segja fannst mér frábært að keyra Óshlíðina.

Takk fyrir okkur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æðislegt að heyra hvað þið áttuð góða daga fyrir vestan :) Skil mjög vel nostalgíuna sem fylgir þessum stað :)

ThP sagði...

ég vil líka fara aftur!

Nafnlaus sagði...

úff ég er svo meir núna að ég felldi næstum tár yfir þessari færslu!:/

en mikið er gott að fá ykkur heim.. enda var ég mætt inná gafl til ykkar hálftíma eftir lendingu:D með glaðning!!

knús sjöbba

Nafnlaus sagði...

Elsku Marta þetta er eins og ritað úr mínum haus, ég fór líka vestur í sumar og skoðaði alla uppáhaldsstaðina og gullmola æskunar,
stóri/litli skúrinn,Hlíðavegur 7 og 3, grunnskólann,Gamla bakaríið, fékk vægt sjokk og nostalgíu dauðans við að fara í sund í sunhöllinni, þar hefur akkurat ekkert breyst sama græna og bláa klósettið og lyktin þegar gengið er inn.
Já það eru sko orð að sönnu að ég var komin heim!!!!!!
Við verðum að fara að hittast og bera saman bækur okkar.
Kossar og knús Hilda.