sunnudagur, desember 16, 2007

Það er svo skrýti að maður hugsar út frá allt öðru sjónarhorni þegar maður er orðin fullorðið foreldri. Ég var að hugsa um húsið á Hlíðarveginum. Húsið sem var mér allt lífið einu sinni og var lengi vel risa hluti af mínu lífi og lífi margra annarra.
Ég man eftir stiganum uppá loft. Ég gat hlaupið svo hratt niður hann ef ég svona hálf renndi mér, ég bjó til ógurlegan hávaða en það var alltí lagi - það var gaman og ég fór hratt. Nú get ég ímyndað mér að amma hafi fegnið taugaáfall í hvert sinn sem hún heyrði mig bruna niður brattann stigann.
Ég man eftir því þegar ég prófaði að strauja tölurnar á smekkbuxunum, bara til að athuga af hverju maður þarf að strauja í kringum tölurnar - þær sprungu í marga bita.
Ég man eftir stiganum niður í kjallara, hann var undir súð og slökkva/kveikja takkinn var í loftinu efst í stiganum. Ég man þegar ég var svo lítil að ég þurfti að láta mig detta fram og á takkann til að kveikja. Hjartað mitt hoppar uppí háls af tilhugsuninni um drenginn leika slíkar listir.
Ég man eftir litla eldhúsinu uppi sem var með skápa fulla af alls konar og frystikistu sem innihélt iðulega ís. Þar var líka hansnúið straujárn sem var ógurlega spennandi.
Ég man eftir litla búrinu uppi þar sem amma faldi nammi og páskaegg. Ég man eftir öllum ævintýrunum í skápnum hans afa og gömlu myndunum.
Ég man mjög vel hvernig það var að labba Hlíðarvegin og finna lyktina af hádegismatnum og vona að góða lyktin kæmi frá minni ömmu.
Ég man þegar afi svaf í sófanum niðri svo ég gæti sofið uppí hjá ömmu.
Það var ekkert svo slæmt að vera lítil stelpa í stóra húsinu hjá afa og ömmu.
En nú þarf að læra á meðan lítill strákur býr sér til minningar í stóru húsi hjá afa og ömmu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég sé þetta fyrir mér :)