mánudagur, júlí 05, 2004

jahá!
Ég er á Akureyri, sit á kaffihúsi að bíða eftir að tíminn líði. Hér er að sjálfsögðu stórkostlegt veður. Mig svíður samt dálítið í augun þar sem ég er alls ekki búin að sofa nóg. Byrjaði að pakka niður eftir miðnætti, fór að sofa um 3 og var mætt á flugvöllin klukkan 7, duglega stelpa segir maður bara. Ég var voða fegin að komast með þessari flugvél, ég var meira að segja síðasta manneskjan til að komast með hoppi, gaurinn sem stóð í röð á eftir mér komst ekki með. Pjúff segi ég nú bara. En jæja, næst á dagskrá er að bíða eftir að klukkan verði 12 svo ég geti farið út á völl að sækja Birtu Maríu sem er að koma fljúgandi frá Ísafirði. Næst er stefnan bara tekin á sveitina þar sem dagarnir munu líða í leti og dásamlegheitum næstu vikuna :)
Breytti aðeins til í gær og fór á Prikið og fékk mér kaffi og bjór. Merkilegt hvað það var fínt enda var ég í góðum félagsskap.
Helgin fór í að vinna og vinna og sofa þess á milli.
Blessuð kisan sem heitir ekki neitt er að missa vitið sökum pirrings. Hún virðist ekkert skilja í því hvers vegna eitt afkvæmi hennar virðist ekki ætla að fara að heiman, því notar hún hvert tækifæri til að sýna greyið litlu Bröndu að hún sé alls ekki velkomin í Frostaskjól 4. Aumingja Branda eltir mömmu sína útum allt og virðist ekkert skilja í óvinsemdinni.
Það var lítið barn í flugvélinni sem grét og grét þangað til flugfreyjan kom með tvö vatnsglös sem hvort um sig innihélt klósettpappír bleyttan upp í heitu vatni. Hún ráðlagði móðurinni að setja glösin yfir eyru barnsins, barnið hætti að gráta og það heyrðist ekki meir í henni. Magnað!
En jæja ætli bankinn sé ekki búin að opna...

Engin ummæli: