laugardagur, janúar 15, 2005

Stundum langar mig að brosa framan í allt og alla og vera skemmtilegust. Hitta fólk og spjalla og vera hress. Skemmtilegt og gaman og æsispennandi í alla staði.
Stundum langar mig bara að vera leiðinleg. Vera leiðinleg við fólk, segja því hvað mér finnst og bara láta allt flakka. Það er nú víst ekki viðeigandi. Maður á ekki að vera svona eða hinsegin. Fólk verður víst að passa í hin og þessi hlutverk. Láta sig hafa það og vera ekki að þessu væli. Harkan, maður verður að harka þetta af sér. Ekki kvartaði konan í sveitinni með öll börnin og kallinn, svo ég tali nú ekki um gestina sem heimta sitt. Líklega hugsaði hún nú samt sitt þessi kona. Alveg eins og ég hugsa mitt. Hugsi hugs.
Stundum þykir mér svo óendanlega vænt um alla. Alla vini mína og fjölskyldu. Alla sem ég þekki ekki. Stundum finn ég fyrir svo svakalegum samhug að mig langar til að fara að gráta yfir öllu heimsins böli og gera eitthvað, bara eitthvað til að laga. Svo fallast mér bara hendur. Hvar á maður eiginlega að byrja. Kannski ég byrji á því sem mér stendur næst. Kannski ég geri eitthvað fallegt. Kannski ekki. Kannski hugsa ég bara um mig og geri það sem ég þarf að gera til að mér og mínum líði vel. Maður veit aldrei. Ég brosi stundum til gamals fólks og býð ókunnugum góðan daginn. Maður veit aldrei ... kannski gerir það daginn betri fyrir einhvern.
Já, lífið mallar eftir því sem ég best veit.

Engin ummæli: