miðvikudagur, október 19, 2005



Útstáelsi
Skemmtilegt orð. En í dag er búið að vera ógurlegt útstáelsi á okkur mæðginum. Við fórum í morgun ásamt Ragheiði og Steinunni Evu á mömmumorgun í Neskirju. Rifum okkur á lappir til að vera mætt þar klukkan 10. Eða ég reif drenginn á fætur, honum finnst voða gott að sofa á morgnanna. Við Hjörtur kíktum svo til Drífu eftir hádegið og héngum þar fram eftir degi. Skutluðumst aðeins í Baby sam og ég keypti stórkostlegt leikteppi :) nú get ég lagt Hjört frá mér þar og glápt á hann skoða dótið.
Eftir Drífu-heimsókn fórum við í göngutúr og kíktum niðrí bæ. Hittum Hjördísi og ég spilaði við hana backgammon og drakk hálfan lítinn bjór. Laaangt síðan blóðið mitt hefur komist í kynni bjór og var þessi svona líka ljómandi góður. Hjörtur var samt ekkert á því að mamman ætti að drekka bjór svo hann gerði sitt til að koma í veg fyrr það með því að neita að sofa í vagninum nema honum væri ruggað. Við brugðum á það ráð að sitja í garðinum á Sirkus og spila bara þar. Hjörtur gat ekki sagt neitt við því og sofnaði bara :) Svaf nú samt ekkert lengi svo við fórum heim til Hjördísar og reyndum að þreyta drenginn með blaðri. Hann virðist vera vanur og varð ekkert þreyttur en sættist þó á að sofna í vagninum á leið niður laugavegin svo ekki var úr vegi að kíkja aðeins á stóra svið þjóðleikhússins og horfa á Svía spila tónlist til styrktar Tíbet. Það var fámennt en góðmennt á tónleikunum en tónlistin var alveg ljómandi og gott betur en það.
Hjörtur svaf eins og steinn í vagninum þangað til mamman fékk þá snilldarhugmynd að taka af honum vettlingana. Þá held ég að hann hafi fattað að hann var ekki lengur úti og vaknaði.
Ég endaði útstáelsið eins og bjáni arkandi niður Bankastræti með grátandi barn í vagni. Tókum strætó heim og vorum bæði mjög fegin þegar heim var komið.
Á morgun ætla ég að gera mjög lítið. Mesta lagi að fara í göngutúr.

Engin ummæli: